Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 15:49:11 (8576)

2004-05-18 15:49:11# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð taldi mikilvægt að allir þingflokkar kæmu að þessari nefnd var sú að í sumum tilvikum, og það teljum við eiga sér stað í þessu, er mikilvægt að fá öll sjónarmið, fá sem flest sjónarmið að borði. Sú er ástæðan fyrir því að við töldum mikilvægt að allir þingflokkar á Alþingi fengju aðild að nefndinni, ekki til þess að eitthvert eitt sjónarmið yrði ríkjandi heldur að sem flest sjónarmið kæmu að því starfi. Við töldum það þjóna málefninu.

Annað sem fram kom í máli hv. þm. ætla ég að láta liggja á milli hluta. Mér fannst hann lýsa afstöðu minni heiðarlega og skilmerkilega framan af en komst síðan að niðurstöðu sem ég ætla að leyfa honum að vera einum um.