Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 15:50:17 (8577)

2004-05-18 15:50:17# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[15:50]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég tek fram að þetta er í fullri vinsemd, enda erum við hv. þm. bæði persónulega og pólitískt afar skyldir að ég tel. En það er auðvitað þannig að það er svolítið erfitt að sameina þetta tvennt í þessu máli. Ég benti t.d. á það í umræðunni um Þingvallanefnd þar sem menn hafa kannski tekið aðra afstöðu að til þess að koma fulltrúum allra þingflokka fyrir í einni nefnd dugar ekki að það séu 11 menn í nefndinni, samanber fjárln., þar sem þingstyrkur Vinstri grænna og Frjálsl., hvors flokks í sínu lagi, dugar ekki nema til þess að ná inn einum manni. Þannig að þá erum við með 15 manna nefndir nema að það sé eitthvert það fyrirkomulag að menn fari með mörg atkvæði í nefndinni. Þarna er um að ræða nefnd sem virðist vera þannig að afl atkvæða á að ráða. Mér sýnist að lokatillögur nefndarinnar verði að vera þannig ef í odda skerst að það sé afl atkvæða sem eigi að ráða. Það væri því ólýðræðislegt ef flokkur sem er með fjóra, fimm eða sex, tvo eða einn þingmann gæti komið inn í slíka nefnd og vigtað þar jafnmikið og segjum Sjálfstfl. sem enn er stærstur, þó það verði ekki mikið lengur í Íslandssögunni, með 22. Það er auðvitað ekki lýðræði í því þó að ég fallist á að öll sjónarmið eigi að koma fram og þess vegna var kannski ekkert óeðlilegt hjá ráðherranum, sem ég er ekki að verja hér, að gera ráð fyrir því að áheyrnarfulltrúar kæmu frá þeim flokkum sem ekki fengju beina aðild.