Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 15:52:12 (8578)

2004-05-18 15:52:12# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að menn verða að taka niðurstöðum í lýðræðislegum kosningum. Sumir flokkar eru stærri en aðrir, það er alveg rétt, og þá kjósendum til umhugsunar í komandi kosningum hvaða sjónarmið þeir vilja styrkja. En ég er einvörðungu að benda á að í sumum tilvikum getur það verið málefni til góðs að hleypa öllum sjónarmiðum að. Ég nefni t.d. að við áttum sæti í EFTA-nefnd þingsins á síðasta kjörtímabili og ég held að flestum beri saman um að það hafi verið starfinu í EFTA-nefndinni til góðs að hafa sjónarmið VG þar við borðið. Nú er það ekki lengur og þau sjónarmið sem eru allrík í samfélaginu úr þeim kjósendahópi sem stendur að baki okkur, og við erum að tala þar um tíunda hluta kjósenda, komast ekki að þeirri umræðu sem þar fer fram og ég held að það sé samdóma álit flestra að það sé ekki til góðs. Þótt ég fallist alveg á þau sjónarmið að við tökum að sjálfsögðu niðurstöðum lýðræðislegra kosninga þá er það iðulega svo að það er hlutfallið sem ræður, það er alveg rétt, en í sumum tilvikum og á það er ég að leggja áherslu, er rétt að hleypa sjónarmiðum allra að borði vegna þess að í starfi nefndar á borð við þessa á að byggja á samstöðuhugsuninni fremur en að það myndist meiri hluti eða minni hluti. Menn vinna sig sameiginlega að niðurstöðu og eins og ég skil það er ekki um að ræða að pólitískar línur skipti mönnum en þarna er um að ræða tengingar inn í pólitíska flokka í landinu og þannig hefði ég talið að betur hefði verið staðið að málum í lýðræðislegu tilliti, a.m.k. erum við mjög ósátt við þessa afgreiðslu félmrn.