Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 16:10:50 (8585)

2004-05-18 16:10:50# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hjá hv. þm. að ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. væri að reyna að byggja upp traust milli þessara tveggja stjórnsýslustiga og ég held að ég geti upplýst þingmanninn um að það hefur algerlega mistekist. Ein ástæðan fyrir því er sú að sveitarfélögin hafa til lengri tíma verið að reyna að fá viðræður við ríkisvaldið um tekjuskiptinguna. Einu svörin hafa verið að sveitarfélögin hafi nógar tekjur, þau eigi bara að sýna meiri ráðdeild.

Það kom fram í ræðu hv. þm. að hægt væri að flytja heilsugæsluna og heimahjúkrun til sveitarfélaga. Mig langar að spyrja hv. þm. að því hvernig það getur aukið traust á milli þessara tveggja aðila að tala um að flytja heilsugæslu til sveitarfélaganna á sama tíma og hæstv. heilbrrh. kemur með tillögur um að sameina allar heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi og jafnvel að taka þar heilsugæslu sem sveitarfélag hefur óskað eftir að taka yfir og steypa henni inn í þá stóru sameiningu. Hvernig í ósköpunum á það að geta skapað traust á milli aðila?