Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 16:21:35 (8595)

2004-05-18 16:21:35# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það kennir ýmissa grasa í því frv. sem hér er til umræðu og af ólíkum toga þannig að það er kannski ástæða til að kaflaskipta ræðu um efni þess. Það sem hæst ber eru auðvitað þau ákvæði frv. sem eiga að stuðla að atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga í tengslum við átak til eflingar sveitarstjórnarstiginu eins og það heitir í greinargerð með frv.

Ég vil segja það strax, herra forseti, að ég er ekkert afskaplega uppnuminn yfir átökum af þessu tagi. Ég gekk í gegnum umræðu um það á sínum tíma árið 1992--1993 þar sem lausnarorðið fyrir landsbyggðina var sameining sveitarfélaga. Það átti að gefa mönnum vítamínsprautu til að takast á við verkefni þau sem sveitarfélögin glímdu við og ná árangri með þeim hætti þannig að það tækist að snúa við ýmsum neikvæðum þáttum í byggðaþróun. Við þekkjum reynsluna af því. Hún hefur verið alla vega, sums staðar ágæt og önnur miður. Segja má að undanfarin ár hafi sveitarstjórnarmenn tekið ákvarðanir á grundvelli þeirra aðstæðna sem þeir búa við og þeirrar löggjafar sem er um hlutverk sveitarfélaga og tekjustofna þeirra. Ég hygg að segja megi að það hafi verið allmikið um það að sveitarfélögin hafi séð sér hag í því að sameinast og snúa bökum saman til þess að glíma við þau verkefni sem menn hafa undir höndum í þeirri von að geta veitt íbúum sínum betri þjónustu en áður var. Sérstaklega er það áberandi á svæðum þar sem eru dreifbýl landbúnaðarhéruð og kannski einn eða tveir byggðakjarnar innan um og góðar samgöngur á því svæði. Þar er nokkuð rakið að það er ávinningur af því fyrir sveitarstjórnir eða sveitarfélög að sameinast og það er það sem hefur verið að gerast á síðustu árum og mér sýnist að sú þróun sé enn í gangi.

Þá kemur spurningin: Er ástæða til að fara í sérstakt átak að nýju og hvað á að koma út úr því? Svar mitt við því, herra forseti, er að ég sé enga þörf fyrir sérstakt átak í sameiningu sveitarfélaga að óbreyttu hlutverki sveitarfélaga eða óbreyttum möguleikum þeirra varðandi tekjustofna. Ég tel að sú þróun sem er í gangi á grundvelli þeirra laga sem menn starfa eftir sé nægjanleg til þess að sameiningar verði þar sem það skilar árangri og bætir þjónustu, sérstaklega í sveitahreppunum eins og ég gat um fyrr. Ég spyr því í raun og veru ekki um það hvort nauðsynlegt sé að efna til atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga heldur hvort ekki sé nauðsynlegt að efna til ákvörðunar um hlutverk sveitarfélaga og tekjustofna áður en menn ákveða eitthvað annað. Mér finnst að menn séu að fara fram úr sjálfum sér með því að telja það eitthvað sérstaklega brýnt verkefni um þessar mundir að steypa sveitarfélögum út í kosningar um sameiningu, deilur um tillögurnar sem verða settar fram, og taka málið úr höndum sveitarstjórnarmanna sem eru með verkefnin dags daglega og hafa verið með þau síðustu ár. Ég hef því ekki verið í hópi þeirra sem hafa talið þetta með brýnustu verkefnum og er algerlega ósammála stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í þeim efnum. Ég spyr miklu frekar: Hvaða hugmyndir eru menn með í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og hvaða hugmyndir eru menn með varðandi tekjustofna sveitarfélaga? Og þegar eitthvað handfast liggur fyrir í þeim efnum er hægt að meta hvort breytingarnar séu líklegar til að styrkja sveitarfélögin frá því sem nú er, gefa sveitarstjórnarmönnum meiri möguleika á að sinna betur þeim verkefnum sem þeir hafa eða gefa þeim ný verkefni sem þeir hafa ekki í dag en aðrir og sérstaklega ríkið eru með undir höndum.

Það getur verið að bættur fjárhagur eða fleiri verkefni á höndum sveitarstjórnarmanna geti verið tæki til að bæta þjónustu við íbúana og getur verið ávinningur af því að stuðla að því að það nái fram að ganga. Það kann að vera skynsamlegt að mínu mati við slíkar aðstæður ef einhverjar bitastæðar tillögur eru í þeim efnum að leggjast á árina með mönnum sem telja rétt að samhliða því að taka upp þessar breytingar á tekjum og verkefnum verði gerðar breytingar á sveitarfélagamörkum.

Í mínum huga eru breytingar á sveitarfélagamörkum í raun og veru aukaatriði málsins. Það færir mönnum ekkert nýtt og á landsbyggðinni er veikleikinn fyrst og fremst fólginn í atvinnumálum. Hann er ekki fyrst og fremst fólginn í því að sveitarfélögin geti ekki veitt nægilega góða þjónustu. Þar sem sá veikleiki er fyrir hendi eru sameiningar í gangi og þá fyrst og fremst í fámennum sveitarfélögum og dreifbýlum. Íbúar þeirra sjá sér hag í því að sameinast öðrum sveitarfélögum þar sem er þéttbýli og öflugur byggðakjarni og sækja til þeirra betri þjónustu en þeir geta veitt sér sjálfir þannig að ég held að menn séu dálítið á vitlausu spori. Það er ekki við því að búast á landsvæðum þar sem atvinnumál hafa þróast með þeim hætti, eins og bæði er í landbúnaði og sjávarútvegi, að störfum fækkar og það leiðir til þess að framboð á atvinnu í þeim byggðarlögum er minna og íbúum fækkar, að því verði breytt með sameiningu sveitarfélaga. Því verður aðeins breytt með því að menn taki á í atvinnumálum, leggi annaðhvort til fé til að byggja upp ný fyrirtæki eða skapa ný fyrirtæki og ný störf í stað þeirra sem hverfa eða menn dreifi þjónustu ríkisins með öðrum hætti en er í dag þannig að störf sem eru t.d. fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu dreifist á fleiri staði landsins en nú er. Þannig tækist að skapa mönnum ný atvinnutækifæri og það getur gerst með tilflutningi verkefna.

Í þessu máli er út af fyrir sig ekkert að finna um verkefnatilfærslu eða tekjustofnaákvarðanir. Það eru aðrar nefndir sem eru með það og ekkert sem liggur fyrir eftir því sem ég best veit á þessu stigi hvar menn muni bera niður í þeim efnum og hvað verður lagt til. Ég held að menn eigi fyrst og fremst að einblína á það áður en farið er að lögfesta einhver ákvæði sem skylda íbúa þessara sveitarfélaga til að fara í kosningar um sameiningu sveitarfélaga sem þeir fá ekki einu sinni sjálfir að ákveða hverjar verða því það er tekið úr höndum sveitarstjórnarmanna að ákvarða hvaða tillögur á að kjósa um. Mér finnst það eiginlega óþarfi að sýna sveitarstjórnarmönnum slíkt vantraust. Þeir hafa verið kosnir til þessara verka og geta auðvitað sjálfir best metið hvort rétt er að fara í slíkar kosningar og þá um hvað á að kjósa. Ég held að það sé ekki til bóta að draga það ákvörðunarvald úr höndunum á þeim sem eru kjörnir til þess að vega og meta þau mál.

[16:30]

Ef við veltum því fyrir okkur hvað væri helst sem gæti gefið mönnum nýtt líf eða nýja innspýtingu í atvinnulífið þá eru það viðfangsefni sem eru í raun og veru utan verkefna sveitarfélaga. Það hefur þróast þannig að sveitarfélög eru þjónustustofnanir eða aðilar sem veita þjónustu á ýmsum sviðum en hafa dregið sig út úr atvinnumálum. Ég hygg að það sé dálítið erfitt að snúa viðhorfum manna við í þeim efnum núna og fá menn til að samþykkja að það sé rétt að sveitarfélögin hafi afskipti af atvinnumálum, t.d. því að vera mikið í atvinnuuppbyggingu. Sveitarfélögin hafa því ekki færi til þess að beita sér í þeim efnum. Það sem liggur beinast við er að skoða breytta verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga þannig að menn velti því fyrir sér hvort sveitarfélög eða samtök þeirra, samstarf þeirra með einhverjum hætti, geti tekið að sér verkefni sem ríkið er með í dag. Ég er út af fyrir sig alveg opinn fyrir því að menn ræði breytingar í þeim efnum og mér finnst að menn eigi að skoða það fyrst farið var inn á þá braut að sveitarfélögin yfirtóku grunnskólastigið og eru með leikskólastigið, hvort rétt sé að halda áfram og skoða það að sveitarfélögin yfirtaki framhaldsskólastigið og jafnvel háskólastigið að einhverju leyti. Mér finnst það vera hlutir sem eru vel þess virði að skoða og eru auðvitað dálítið flóknir því þá þyrfti svæðisbundið samstarf sveitarfélaga eða stóra sameiningu sveitarfélaga til að taka við því verkefni. Það má auðvitað líka hugsa sér rekstur sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva og þá eru sveitarfélögin komin inn á þá braut að sjá að einhverju leyti og jafnvel verulegu leyti um heilbrigðismálin. Það út af fyrir sig styðst við fordæmi. Sveitarfélögin ráku heilsugæslustöðvarnar fram undir 1990 en þá var ákveðið að snúa við blaðinu á grundvelli þeirrar stefnu að hrein skil ættu að vera á milli ríkis og sveitarfélaga og bæði stigin ættu ekki að vera í heilbrigðismálum, skólamálum o.s.frv. Það er út af fyrir sig lína sem menn geta haldið sig við en menn hafa vikið frá henni með því að færa grunnskólann yfir á sveitarfélögin og þess vegna held ég að það sé ekki lengur ofan á að halda sig við hina hreinu verkaskiptingu og því komi til álita að skoða þetta allt saman.

Ég hef hins vegar meiri áhuga á því að menn skoði ákveðin verkefni ríkisins sem snúa að eftirliti með starfi fyrirtækja eða eftirliti með náttúrunni hvort sem það er á landi eða sjó þannig að sveitarfélögin færi sig meira inn á það svið ríkisins sem hefur verið í mestum vexti, enda fylgdi því þá líka tilfærsla á störfum sem gagnaðist kannski þeim sveitarfélögum sem störfin eru flutt til til uppbyggingar og styrkti viðkomandi byggðarlög eða landsvæði.

Það er afar óeðlilegt fyrirkomulag sem við búum við í dag að uppbyggingin í þjónustunni sé á stórum sviðum hjá hinu opinbera og nær einvörðungu á einu landsvæði. Það er óeðlilegt fyrirkomulag og leiðir einfaldlega til þess að menn þjappa þjóðinni saman á einn stað og valda hinum hluta þjóðarinnar meiri erfiðleikum við að veita íbúum sínum þjónustu og fjölbreytni í atvinnu sem nauðsynleg er til þess að geta staðið í raun og veru í samkeppni við stóra svæðið eða höfuðborgarsvæðið. Ég held að menn eigi að vera frjóir í hugsun varðandi verkaskiptingu og ófeimnir við að setja fram hugmyndir í þeim efnum. Menn eiga líka að vera ófeimnir við að opna nýjar leiðir í tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Menn mega ekki gleyma því að sveitarstjórnarmenn eru kjörnir rétt eins og alþingismenn þannig að það er ekkert óeðlilegt við það að þeir geti lagt á skatta alveg eins og alþingismenn geta gert með lögum. Ég held því að menn eigi að skoða hvort ekki sé rétt að veita sveitarstjórnarmönnum rýmri heimildir til að leggja á gjöld og skatta. Menn hafa farið hina leiðina síðustu ár og þrengt þessar heimildir sem ég tel miður. Ég tel að sveitarstjórnarmenn eigi að hafa heimildir til þess að ákvarða breytilega skatta og þurfi svo að svara fyrir ákvarðanir sínar frammi fyrir íbúum sínum. Það fyrirkomulag sem hefur þróast síðustu ár, að færa þetta meira inn í lögin, gerir það líka að verkum að sveitarstjórnarmenn geta vísað ábyrgðinni yfir á alþingismenn og komið sér undan því að svara kjósendum fyrir frammistöðu í störfum sínum. Ég held því að það væri eðlilegt að færa ábyrgðina meira til sveitarstjórnarmanna um nýtingu tekjustofna og gefa þeim rýmri möguleika til að leggja á þau gjöld.

Ég held t.d. að sveitarstjórnir eigi að hafa hlutdeild í óbeinum sköttum. Óbeinir skattar endurspegla veltuna í þjóðfélaginu sem getur verið misjöfn eftir landsvæðum og mundu þá jafna í raun og veru út til landsins alls tekjunum af þessum sveiflubundnu sköttum þannig að ég hef verið talsmaður þess að sveitarfélögin hefðu hlutdeild í óbeinum sköttum.

Ég held líka að menn þurfi að hugsa um það að sveitarfélögin hafi tekjur af atvinnurekstri. Eins og tekjustofnar hafa þróast á síðustu 20 árum hefur dregið úr sambandinu á milli atvinnureksturs og sveitarfélags. Atvinnufyrirtækin í dag greiða í raun og veru enga skatta til sveitarfélagsins nema fasteignaskatt. Tekjuskattur og annað rennur til ríkissjóðs, tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur, og það er búið að leggja niður aðstöðugjaldið þannig að í raun og veru er sambandið á milli atvinnurekstursins og sveitarfélagsins nánast ekki neitt. Ég held að sveitarfélögin eigi að hafa tekjur af rekstri atvinnufyrirtækja þannig að þau hafi hag af því að halda atvinnurekstrinum í sínu byggðarlagi og njóti þess sem hann gefur af sér. Ég tel því ástæðu til að skoða mjög ítarlega róttækar breytingar á tekjustofnum og tekjuákvörðunum sveitarfélaga og á verkefnum sveitarfélaga. Það er það sem að mínu mati á að einblína á. Menn eiga að leggja höfuðáherslu á að koma fram með hugmyndir í þeim þáttum sem menn telja að geti skipt sköpum varðandi uppbygginu og íbúaþróun á landsbyggðinni. Það að kjósa um sameiningu sveitarfélaga er algert aukaatriði og hefur eitt og sér ekkert að segja um framtíðarþróun á þeim landsvæðum sem kosið verður á.

Ég hef ekkert blandað mér inn í þetta mál og ég hef ekki fylgst svo mikið með því en það sem ég hef heyrt á sveitarstjórnarmönnum um málið er fremur á þann veg að þeir hafi lítinn sem engan áhuga á þessu og spyrja frekar eftir aðgerðum í atvinnumálum og tekjum sveitarfélaga. Þeir vilja fá svör við því og úrbætur á þeim sviðum en kalla ekki eftir atkvæðagreiðslum um sameiningu sveitarfélaga.

Ég vildi, herra forseti, láta það koma fram sem mína almennu afstöðu til málsins að átak til sameiningar sveitarfélaga er eitthvað sem ég tel ekki brýnt um þessar mundir en getur verið liður í víðtækari áætlun sem lýtur að verkaskiptingu og tekjustofnum. Ég tel t.d. að menn eigi alveg leyfa sér það að tengja saman land og sjó þannig að sveitarfélög hafi aðgang að eða eitthvað um það að segja hvernig auðlindir eru nýttar, hvort sem þær auðlindir eru á landi eða í sjónum. Ég er ekki það mikill ríkissinni að ég telji að allt eigi að vera miðstýrt frá hendi ríkisvaldsins, allar ákvarðanir í þessum efnum, heldur held ég að það gæti gefið mörgum byggðarlögum á landsbyggðinni nýtt líf ef þau gætu tekið ákvarðanir í þessum efnum í ríkari mæli en nú er. Eða dettur nokkrum í hug ef sveitarstjórn Breiðdalshrepps og Stöðvarfjarðarhrepps á sunnanverðum Austfjörðum hefði heimild til þess að ráðstafa veiðiheimildum í einhverjum mæli að það væri ósanngjarnt? Mér fyndist það ekki ósanngjarnt. Það þýddi ekki að sveitarstjórnin stæði í atvinnurekstri heldur að hún hefði möguleika á að tryggja atvinnurekstur í byggðarlögum sínum og jafnvel að hún gæti haft tekjur af því því það er orðið þannig í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að veiðiheimildir hafa fengið verð og þeir sem þurfa að komast yfir veiðiheimildir verða að borga fyrir þær og það væri út af fyrir sig ekkert ósanngjarnt að sveitarfélög fengju einhvern hluta af þeirri greiðslu sem útgerðarmenn inna af hendi fyrir veiðiheimildir. Ég legg þetta inn í umræðuna um sameiningu sveitarfélaga.

Ég vil svo ekki hafa miklar skoðanir á þeim framkvæmdaratriðum sem eru í frv. nema mér finnst nokkuð langt gengið að lögfesta það í lagatexta sem er að finna í 7. gr. frv. að ef íbúar í einhverju sveitarfélagi vilja ekki samþykkja þá tillögu sem fyrir þá er lögð um sameiningu sveitarfélaga eigi að skylda þá til að kjósa aftur. Það er ekki nóg að menn segi nei heldur verða þeir að segja nei aftur. Segi menn hins vegar já fá þeir aldrei að segja neitt framar, hvorki já eða nei. Mér finnst það dálítið einhliða val. Þetta er eins og í sóknardagakerfinu sem við vorum að ræða í gær þar sem menn mega bara velja á annan veginn. Mér finnst þetta eiginlega ganga fulllangt í að stýra ákvörðun íbúanna í einhvern annan farveg en þeir í raun og veru sýna sjálfir að þeir vilji.

Það mætti þá alveg eins bæta því við úr því að menn telja nauðsynlegt að íbúar sem vilja ekki sameinast eða samþykkja tiltekna tillögu um sameiningu og ítreka nei sitt, að gera ætti hinum sveitarfélögunum skylt að efna til annarrar atkvæðagreiðslu þar sem sameiningin var upphaflega samþykkt til að ganga úr skugga um að íbúarnir vilji þá sameiningu sem stendur til boða því það er önnur tillaga en lögð var fyrir þá í upphafi. Það má því færa fyrir því ágæt rök að úr því að menn telja nauðsynlegt að tvítaka kosningu í þeim tilvikum sem íbúar hafna sameiningu að þá sé rétt að tvítaka kosningu í þeim tilvikum þar sem íbúar samþykkja sameiningu með sömu rökum. Það eru efnisleg rök að það sé í raun ekki sama tillagan eða sama sameiningin sem stendur fyrir dyrum og kosið var um þannig að afstaða íbúanna til breyttrar sameiningar liggur ekki fyrir.

Ég ætla að láta þetta duga um þetta átak og með þeim orðum að ég kalla eftir því að menn sýni dálitla dirfsku og hugrekki í hugmyndum um breytingar á verkefnum og tekjustofnum. Það er það sem mestu máli skiptir að menn nái góðum tillögum fram.

[16:45]

Ég vil svo víkja aðeins að öðrum ákvæðum frv. sem eru af allt öðrum toga en er ástæða til að leggja fram og ég dreg ekkert úr því. Þar á ég fyrst og fremst við 3. gr. frv. sem gerir ráð fyrir því að breyta gildandi ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem kveða á um kosningu í ráð og nefndir. 4. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga eins og hún er í dag veitir meiri hluta í sveitarstjórn heimild til þess að víkja einstökum fulltrúum úr nefndum. Nú höfum við rekist á mjög sérkennilegt dæmi um hvernig þetta hefur verið framkvæmt í Dalasýslu. Þar ákvað meiri hluti í sveitarstjórn að víkja einum sveitarstjórnarmanni úr ráðum og nefndum og gerðu það með einfaldri samþykkt. Þetta er mjög athyglisverð útfærsla á lýðræðislegu fyrirkomulagi. Það þýðir, ef sú ákvörðun verður látin standa sem byggð er á gildandi lögum og út af fyrir sig liggur ekki fyrir hvort ráðuneytið heimilar þá framkvæmd en menn hafa talið sér þetta heimilt, t.d. í bæjarstjórn Vestmannaeyja af því að ég horfi hér á bæjarfulltrúa í Vestmannaeyjabæ að núverandi meiri hluti gæti ákveðið að víkja Guðjóni Hjörleifssyni úr öllum ráðum og nefndum Vestmannaeyjabæjar bara með atkvæðagreiðslu í bæjarstjórninni sem væntanlega mundi fara fjögur atkvæði með og þrjú atkvæði á móti, við bara víkjum hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni úr bæjarráði og öllum nefndum, við viljum ekki sjá þennan mann. Það væri heimilt miðað við þá túlkun sem framkvæmd var í Dalasýslu. Nú kunna menn að segja: Bíddu við, það er eitthvað skrýtið við þetta. Ef kosið er í nefndina hefur Guðjón væntanlega þrjú atkvæði með sér og hann ætti því að vera öruggur um að ná sæti í fimm manna nefnd, þriggja manna nefnd og jafnvel sjö manna nefnd, hann ætti að vera öruggur um sæti í allar nefndir og það er rétt. Hann sækir styrk sinn í bæjarstjórnarkosningarnar. Þær ákvarða hversu marga bæjarfulltrúa hvert framboð fær og sá styrkur ákvarðar hvaða hlut menn fá í hverri nefnd. En þetta ákvæði laganna hefur greinilega opnað fyrir það að menn telja sig geta tínt út úr nefndum einstaklinga sem mönnum líkar ekki við.

Ég verð að segja að mig rak í rogastans þegar ég las lögin sem sett voru 1998 að menn hefðu gengið svo frá þessum lagatextum sem raun ber vitni og ég verð að segja að menn hefðu kannski betur flýtt sér minna við að afgreiða þann lagabálk og skoða betur orðalagið í þessari lagagrein því þetta gengur gegn niðurstöðu sveitarstjórnarkosninga og gengur gegn hlutfallskosningunum sem eru auðvitað grundvöllurinn í því fulltrúalýðræði sem við styðjumst við. Þess vegna er ég algerlega sammála því sem hér kemur fram að leggja til breytingar á þessum ákvæðum laganna í frv. og hefði reyndar viljað hafa það ákvæði öðruvísi en gert er ráð fyrir í frv. og mér til mikillar gleði sé ég að félmn. leggur til breytingu á 3. gr. frv. í þá veru sem ég tel að ætti að vera. Ég vil því lýsa yfir ánægju með þá niðurstöðu félmn. að hafa fyrirkomulagið með þeim hætti sem þar er lagt til því það er eiginlega sú framkvæmd sem ég tel að eigi að vera í þessum efnum þannig að það sé tryggt að menn njóti styrks síns í sveitarstjórn þegar kosið er til ráða og nefnda í sveitarfélagi. Þannig á það að auðvitað að vera. Það á ekki að vera svo að hægt sé að víkja mönnum úr pólitísku starfi í sveitarstjórn eða annars staðar vegna einhverra ómálefnalegra atriða. Ég lýsi því yfir stuðningi við það en spyr jafnframt framsögumann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að lokasetning 2. mgr. breyttrar 3. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Við framangreindar breytingar á skipan fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélags skal kjósa alla fulltrúa að nýju og fer þá um kjör skv. 2. mgr. 40. gr. nema enginn ágreiningur sé innan sveitarstjórnar um breytingarnar`` þýði það að þegar menn vilja breytingar þá fari þær fram ef ekki er ágreiningur um þær en ef einhver óskar eftir því þá fari fram hlutfallskosning um öll nefndarsætin. Er það ekki alveg ljóst að menn geta ekki verið að pikka út kosningu um eitt, tvö eða þrjú sæti í ágreiningi? Þannig að ef samkomulag er um breytinguna fari hún fram en ef ágreiningur er þá fari fram hlutfallskosning þar sem kosið er um alla fulltrúana að nýju eins og segir hér? Er þetta ekki rétt skilið hjá mér?

Ég vil jafnframt benda á annan hortitt í gildandi lögum sem ég rakst á þegar ég skoðaði þau nýlega. Ég veit að það er ekki getið um það í frv. og ég efast um að hv. félmn. hafi skoðað það ákvæði en ég vil vekja athygli félmn. á því og tekst vonandi að afla stuðnings fyrir því að breyta því, annaðhvort nú eða síðar, en það er ákvæði 34. gr. sveitarstjórnarlaga, 3. mgr., sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Nú er sveitarstjórnarmaður af einhverjum ástæðum sviptur fjárforræði og skal sveitarstjórn þá veita honum lausn frá störfum þann tíma er sviptingin gildir.``

Þetta þýðir að kjörinn sveitarstjórnarmaður missir rétt sinn til að sitja í sveitarstjórn ef hann missir fjárforræði, ef hann verður gjaldþrota persónulega eða eitthvað í þeim dúr. Þetta er atriði sem kom raunverulega upp í umræðum fyrir ekki svo löngu síðan og einmitt í Vestmannaeyjum. Ég ætla ekki halda því fram að menn hafi stefnt að því að koma málum svo fyrir að einn bæjarfulltrúinn þar yrði gerður gjaldþrota með það í huga að hann missti þar af leiðandi sjálfkrafa sæti sitt í bæjarstjórn og það mundi síðan leiða til þess að þar yrðu meirihlutaskipti. Þetta sá ég og las um í blöðum, öðru hvoru blaðinu í Vestmannaeyjum, a.m.k. var það raunverulega uppi á borðinu sem möguleiki þó að ég ætli ekki að halda því fram að menn hafi stefnt að því en kannski voru einhverjir aðrir sem héldu því fram.

Ég spyr: Er þetta virkilega þannig? Eigum við að hafa það í lögum að svipta menn þeim réttindum sem fylgja því sem þeir eru kosnir til? Það fyrsta sem mér kom í hug eftir að ég rak augun í þetta var hvort það væri svo með alþingismenn. Ef þeir verða gjaldþrota persónulega missa þeir þá sæti sitt á Alþingi? Það er ekki svo. Menn halda auðvitað þeim réttindum sem þeir eru kosnir til. Mér finnst þetta minna dálítið á eldgamalt ákvæði sem var eitthvað í þá veru að menn misstu kosningarrétt ef þeir urðu gjaldþrota. Það fór bara hrollur um mig þegar ég gerði mér grein fyrir því að þetta er svona í lögunum. Það hríslaðist eftir bakinu á mér kuldahrollur og ég spurði sjálfan mig: Á hvaða braut erum við?

Það sem er kannski dálítið skemmtilegt í þessu er að yfirmaður sveitarstjórnarmála, félmrh., missir ekki kjörgengi sitt sem ráðherra eða sem alþingismaður ef hann er það líka þó að hann yrði gerður gjaldþrota persónulega. Það er því uppi sú staða í gildandi lögum að sveitarstjórnarmanninum er hent út úr sveitarstjórninni en ráðherrann situr áfram á ráðherrabekknum og þingmaðurinn situr áfram á þingmannsbekknum. Er þetta ekki bara alveg galið, virðulegur forseti? Er þetta ekki eitthvað sem við eigum að taka út úr lögunum sem allra fyrst? Ég vildi biðja hv. félmn. að skoða þetta og vita hvernig þeim líst á þetta. Það kann að vera rétt að kynna sér þetta betur. Ég er búinn að gera það. Ég las frv. frá 1998 og umræðurnar og út af fyrir sig stóð ekki neitt um þetta, það voru mjög fátæklegar skýringar á þessu ákvæði og af hverju menn voru að setja það inn í lögin. En mér finnst það vera alveg út í hött. Ég hef ekki fengið rökin fyrir því að hafa þetta í lögunum. Einu rökin sem ég hef heyrt færð fram og tek ekki gild eru þau að menn hafa sagt sem svo að maður sem ekki getur passað sín persónulegu fjármál eigi ekki að hafa neitt um það að segja að ráðstafa peningum annarra eins og sveitarstjórnarmenn auðvitað gera með ákvörðunum sínum. Ég tek þau rök ekki gild vegna þess að ef maðurinn er ekki sveitarstjórnarmaður heldur alþingismaður heldur hann þeim réttindum og getur haldið áfram að taka þátt í að afgreiða fjárlög svo dæmi sé tekið. Enda eru það að mínu viti réttindi og jafnvel, liggur mér við að segja, mannréttindi að maður sem kjörinn er í almennum kosningum og treyst af fólki til ákveðinna verka, haldi umboði sínu til þeirra þó svo að hann missi fjárforræði sitt um einhvern tíma. Ég held að menn hafi verið á einhverjum villigötum þegar þetta ákvæði var sett inn í lögin og að menn eigi að kippa því út hið allra fyrsta alveg eins og menn gera núna með ágætri tillögu í frv. félmrh. og enn betri tillögu frá félmn. varðandi kjör eða endurkjör í ráð og nefndir.

Fleira ætla ég ekki að segja um málið, herra forseti, og læt nú staðar numið að þessu sinni.