Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 16:57:29 (8596)

2004-05-18 16:57:29# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að staðfesta það sem kom fram hjá hv. þm. þannig að enginn velkist í vafa um það atriði að það má ekki henda hv. þm. Guðjóni Hjörleifssyni úr bæjarstjórn Vestmannaeyja eða neinum öðrum, enda kemur það nokkuð skýrt fram í þeirri brtt. sem hv. þm. fór í gegnum en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn getur hvenær sem er á kjörtímabili ákveðið að skipta um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sem hún kýs eða skipar ef ekki er um það ágreiningur innan sveitarstjórnar eða málefnalegar ástæður mæla með slíkri breytingu, svo sem ef nefndarmaður, án lögmætra forfalla, mætir ekki á fundi nefndar eða brýtur gegn þagnarskyldu`` o.s.frv.

Hins vegar í málum sem þessum, a.m.k. er það mín skoðun, eiga hlutirnir sérstaklega hvað þetta varðar alltaf að vera eins skýrir og mögulegt er. Farið var nokkuð vel yfir þetta ákvæði því það skiptir öllu máli að það sé skýrt og enginn velkist í vafa um út á hvað það gengur. Ef menn eru með hugmyndir um betra orðalag eða eitthvað slíkt finnst mér sjálfsagt að menn skoði það á milli umræðna. En bara svo því sé haldið til haga þá var hugmyndin ekki að koma slíku ákvæði á að menn gætu af einhverjum ómálefnalegum ástæðum tekið sig til og hent einhverjum fulltrúa úr sveitarstjórn eða ráðum og nefndum viðkomandi sveitarfélags.