Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:01:24 (8599)

2004-05-18 17:01:24# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EMS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:01]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Sú umræða sem átt hefur sér stað hefur um margt verið merkileg og upplýsandi og það er ekkert sérkennilegt að hér bresti á töluverð umræða þegar rætt er um málefni sveitarfélaganna í landinu sem gegna veigamiklu hlutverki í stjórnsýslunni.

Það er rétt í upphafi að taka undir með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni varðandi það sem hann benti á í 34. gr. sveitarstjórnarlaganna. Það segir okkur auðvitað og er dæmi um það að nauðsynlegt er að endurskoða sveitarstjórnarlögin með reglulegu millibili og það er ábyggilega mjög þarft að fara yfir þau í heild sinni og skoða hvað þar má bæta. En meginhluti þessa frv. stendur raunverulega sjálfstætt, þ.e. það markmið að efla sveitarstjórnarstigið sem er meginmarkmið frv., og ég held að það sé rétt í upphafi að fara jákvæðum orðum um það markmið hæstv. félmrh. að efla sveitarstjórnarstigið og ég vil bæta því við að mér þykir nálgun hæstv. ráðherra í raun og veru vera sú eina rétta í málinu á þessu stigi.

Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. félmrh. kemur hingað eiginlega beint úr forustusveit Sambands íslenskra sveitarfélaga og er þar af leiðandi með býsna gott veganesti inn í svona mál. Hæstv. ráðherra verður auðvitað að taka mið af þeirri ríkisstjórn sem hann situr í og ég held að það sé nokkuð ljóst að lengra hefur hann ekki komist í þessu skrefi og ég held að hægt sé að segja að það skref sé býsna mikilvægt og þess vegna enn mikilvægara að það takist sem allra best.

Sú nálgun sem ég var að nefna og ég tel vera býsna skynsamlega er auðvitað sú að skoða allt í samhengi, verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga, tekjustofna sveitarfélaga og síðan stærð sveitarfélaga. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að skoða þetta allt í samhengi. Ef ég hef skilið átakið rétt er litið þannig á að fyrst þurfi niðurstaðan að vera komin nokkuð gróflega, a.m.k. varðandi verkefnin, og þar af leiðandi tengist það auðvitað tekjustofnunum beint því ef það fylgir ekki þá er auðvitað tómt mál um að tala og síðan þurfi að taka mið af þeirri niðurstöðu með stærð og sameiningu sveitarfélaga, þ.e. að sveitarfélagið sem eining sé fært um að taka við þeim verkefnum sem menn komast að niðurstöðu um að eigi frekar heima hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu og ég held að það sé afskaplega margt sem þarf að hugleiða og skoða í því samhengi sem eigi frekar heima hjá sveitarfélögunum en ríkinu.

Áður en ég fer út í þá sálma vil ég nefna svo það fari ekki á milli mála að ég lít raunverulega á verkefnið sem byggðamál, að það sé eitt af hinum stærri byggðamálum, þ.e. að efla sveitarstjórnarstigið og fá þangað verkefni flutt, störf flutt og fjármagn flutt. Við höfum nefnilega horft upp á það ansi lengi að oft hafa verið uppi fögur fyrirheit um að flytja ýmislegt af störfum ríkisins og verkefnum ríkisins og dreifa þeim um landið en því miður hefur árangurinn á því sviði verið býsna lítill. Hins vegar höfum við séð miklar breytingar verða á ákveðnum verkefnum þegar þau hafa verið flutt til sveitarfélaganna. Þrátt fyrir að sveitarfélögin séu eins og þau hafa verið lengst af og eru mörg hver enn býsna veikar einingar hefur samt tekist með því að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna að efla mjög starf á ákveðnum sviðum. Ég vil að gefnu tilefni nefna eitt dæmi þar um.

Því hefur verið haldið fram lengi af mjög mörgum að flutningur grunnskólans hafi á margan hátt verið fjárhagslegt slys fyrir sveitarfélögin. Það vill svo til að þegar sá flutningur átti sér stað var ég starfandi á því sviði og tel mig því þekkja málið nokkuð vel. Ég held að þetta sé einn versti misskilningur sem átt hefur sér stað meðal sveitarstjórnarmanna sem halda þessu fram. Það kom hins vegar fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni áðan þegar hann vitnaði til kennara í þessu sambandi og þá væntanlega grunnskólakennara og það getur vel verið að einhver hópur þeirra haldi þessu fram en ég hef aldrei séð nein rök sem hafa staðfest þær skoðanir manna. Ég kynnti mér hins vegar eins og ég sagði áðan á árum áður málið nokkuð vel og niðurstaða mín þá var sú að þetta væri líklega einn besti samningur sem sveitarfélög hafa nokkurn tíma gert við ríkisvaldið, þ.e. þegar grunnskólinn var fluttur yfir. Hann hafi skilað sveitarfélögunum því fjármagni sem menn gerðu ráð fyrir. Hins vegar held ég að sveitarfélögin mörg hver, og það verður að tala um hlutina eins og þeir eru, hafi gert ákveðin mistök þegar þau tóku grunnskólana yfir, fyrst og fremst vegna þess að þau treystu sér ekki nógu vel til þess faglega, þ.e. þegar fræðsluskrifstofur voru lagðar af og víða voru stofnaðar svokallaðar skólaskrifstofur þá voru þær mjög víða sprengdar upp, eins og ég vil orða það, vegna þess að sveitarfélögin ætluðu að taka allt upp í litlu einingarnar án þess að hafa þann faglega bakstuðning og styrk sem þau þurftu mjög á að halda. Það hefur í mörgum tilfellum haft þau áhrif að sveitarfélögin hafa ekki haft eðlileg tök á þróun þessara mála og þess vegna hefur ýmislegt í þeim þáttum vaxið fjárhagslega meira en hefði kannski orðið ella.

En við megum ekki gleyma því að þetta hefur líka þýtt það, og ég held að allir séu sammála um það, að grunnskólinn í dag er miklu betri en hann var áður en hann var fluttur yfir. Það hefur auðvitað kostað sitt. Ég get hins vegar haft mínar skoðanir á því hvort það hafi allt verið nákvæmlega rétt sem fjármagnið fór í og menn geta haft mismunandi skoðanir á því en meginniðurstaðan er sú að sveitarfélögin hafa tryggt betri grunnskóla en áður og það er auðvitað stærsta málið. Hins vegar hafa samskipti sveitarfélaga og ríkisins á þessum árum verið með sama hætti og áður, þ.e. að látlaust hafa verið sett á lög sem hafa íþyngt sveitarfélögunum og tekjur sveitarfélaganna hafa ekki haldið í tekjuþróun ríkisins. En mér finnst ekki rétt að setja það yfir á flutning grunnskólans, það er miklu víðfeðmara mál. En það er kannski um leið grunnurinn að því sem við erum að tala um vegna þess að í raun og veru er allt það verkefni sem hér liggur undir tómt mál um að tala ef ekki er hægt að ná trausti milli sveitarfélaga og ríkisvaldsins, fjárhagslegu trausti, þ.e. sveitarfélögin geti treyst því að þau standi jafnvíg fyrir og eftir lagasetningar eða verkefnaflutning. Það er auðvitað algert grundvallaratriði.

Ég tók eftir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom nokkuð inn á tekjustofna sveitarfélaga og benti á hlut sem ég held að sé hárréttur, þ.e. að sveitarfélögin þurfa að fá fleiri stoðir undir tekjustofna sína og þau þurfa að fá hlutdeild í óbeinum sköttum. Þau þurfa í raun og veru að vera betur tengd tekjuþróun ríkisvaldsins þannig að það sé meira jafnvægi á milli þeirrar þróunar. Við höfum horft upp á tímaskeið þar sem tekjur ríkissjóðs hafa vaxið gífurlega á meðan tekjur sveitarfélaganna hafa ekki hækkað neitt í líkingu við það. Það er auðvitað ekki þróun sem er æskileg, ég tala ekki um þegar forkólfar ríkisvaldsins notfæra sér síðan slíkt ástand til að setja ofan í við sveitarstjórnir og tala um að fjármálastjórn þeirra sé ekki í lagi sem sé nú allt annað hjá ríkisvaldinu. Það eru auðvitað hlutir sem ekki ganga og verður að segjast eins og er að oft og tíðum hefur mönnum þótt umburðarlyndi forustumanna Samtaka íslenskra sveitarfélaga vera eiginlega með ólíkindum þegar sá málflutningur hefur glumið hvað hæst. En traust er auðvitað grundvöllurinn að því að menn geti staðið að þessum flutningi og ég ætla að endurtaka það, að fullt traust sé milli aðila. Ég leyfi mér því miður að efast um að það traust náist meðan núverandi ríkisstjórn situr. Hún hefur ekki sýnt sveitarfélögunum það traust að hún geti vænst þess að fullt traust geti myndast. Þess vegna er auðvitað afskaplega mikilvægt að um það skref sem stigið verður núna við eflingu sveitarstjórnarstigsins náist mikil samstaða og reynt verði að byggja upp þetta traust en eins og ég sagði hef ég ekki trú á því að núverandi ríkisstjórn geti það. Ég styð hins vegar að þetta átak sé gert vegna þess að ég trúi því og treysti að allt önnur ríkisstjórn muni taka við fyrr en seinna í landinu og þá er mikilvægt að búið sé að taka þetta skref þannig að hægt sé að meta niðurstöðu þess hvernig það hefur tekist fyrir næsta skref.

Af hverju segi ég að það sé mikilvægt að efla sveitarstjórnarstigið? Jú, ég færði rök fyrir því áðan að það væri í mínum huga eitt stærsta byggðamálið en það er síðan auðvitað ekki eins einfalt að segja hvernig eigi að efla það. Ég hef í gegnum tíðina tekið þátt í margs konar umræðu um það. Minnisstæðust er mér umræða um hið svokallaða þriðja stjórnsýslustig þar sem hugmyndir gengu út á það að myndað yrði stjórnsýslustig á milli ríkisins og sveitarfélaganna þar sem ýmis verkefni sem eru hjá ríkinu nú færu yfir á hið þriðja stjórnsýslustig og önnur verkefni frá sveitarfélögunum líka. Í raun og veru stoppaði sú umræða meira og minna vegna þess að ekki náðist samstaða hjá sveitarfélögunum um að láta frá sér einhver verkefni til þriðja stjórnsýslustigsins en eins og við vitum er það sú aðferð og sú staða sem er í nágrannalöndum okkar og við þekkjum auðvitað fylkin á Norðurlöndunum þar sem menn hafa náð að þróa þetta áfram.

Menn notuðu líka mjög oft þau rök að við værum ekki svo fjölmenn í stóru og erfiðu landi að við gætum byggt upp þriðja stjórnsýslustigið, það væri nægjanlegt fyrir okkur að hafa tvö. Ég held að það viðhorf í bland hafi í raun og veru gengið frá þeirri umræðu. Mér sýnist hins vegar umræðan vera að þróast mikið í þá átt að menn telji nauðsynlegt að gera sveitarfélögin miklu stærri þannig að þau geti í raun og veru tekið við mun stærri verkefnum en menn hafa áður rætt um. Það komu einmitt fram fróðlegar hlutfallstölur sem liggja fyrir varðandi mismuninn hjá okkur og í nágrannalöndum okkar hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni sem benti á þá staðreynd að hér eru 70% af verkefnunum hjá ríkinu á móti 30% hjá sveitarfélögunum. Þessu er yfirleitt öfugt farið í nágrannalöndum okkar en til þess að við getum náð svipaðri stöðu og nágrannalöndin þurfum við auðvitað að stækka sveitarfélögin mjög mikið þannig að þau geti sannarlega tekið við þeim verkefnum sem nefnd hafa verið, eins og heimahjúkrun og heilsugæslu, málefni fatlaðra og framhaldsskólann og hluta af samgöngum. Til þess að það geti gengið þurfa sveitarfélögin auðvitað að vera eining sem ræður fyllilega við þau verkefni vegna þess að menn eru væntanlega að tala um að hægt sé að sinna þessum verkefnum meira og minna án þess að vera með mjög flókna samvinnu sveitarfélaga með byggðasamlögum eða einhverjum öðrum slíkum útfærslum.

Þá lendum við auðvitað í þeim vanda sem hefur líka verið nefndur í umræðunni, og ef ég man rétt var það hv. þm. Birkir J. Jónsson sem nefndi það að hann sé nú búsettur í Grafarvogi, sem er hverfi í okkar ágætu höfuðborg, og þar kvarti nágrannar hans yfir því að þeir séu orðnir býsna langt frá stjórnsýslunni. Ég held að það sama muni gerast úti um land, þ.e. ef verulega stórar sameiningar verði í sveitarfélögunum muni ýmis minni þorp telja sig vera býsna langt frá stjórnsýslunni og þá á auðvitað að framkvæma hana þannig að við útbúum það sem menn kalla væntanlega í borginni hverfastjórnir en ég kann betur við að kallaðar séu hreppstjórnir úti um land. Þar gætum við ná því nafni aftur inn sem er fornt og gott og þar sé hægt að setja ákveðin verkefni. Við gætum séð t.d. í ákveðnum einingum í dreifbýlu sveitarfélagi að fjallskil gætu tilheyrt þeirri hreppstjórn, jafnvel gæti skólanefnd verið þar undir, þ.e. ein eining sem er skóli, og svo mætti áfram telja. Útfærslurnar eru auðvitað ótal margar en ég geri mér grein fyrir því að í því átaki eða því skrefi sem hér er verið að tala um verður ekki farið svona langt. En ég held að það sé samt sem áður nauðsynlegt að við nýtum okkur það tækifæri sem hæstv. félmrh. hefur greinilega metið að væri mögulegt í því stjórnarsamstarfi sem nú er við lýði að ná fram.

[17:15]

Við skulum hins vegar ekki gera lítið úr því að þetta er kannski ekki síst komið til vegna þrýstings frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég nefndi áðan að hæstv. ráðherra kom auðvitað úr forustusveit þess sambands þegar hann settist í ráðherrastólinn og hefur væntanlega tekið svolítið nesti með sér úr þeim samtökum. Hvaða þrýstingur er það þá sem ég er að tala um? Ég held að það sé þrýstingurinn frá hinum stærri sveitarfélögum um að þau vilji fá fleiri verkefni og þau vilji eflast.

Það er líka togstreita um fjármuni sem renna til sveitarstjórnarstigsins og það er líka togstreita um reglur jöfnunarsjóðs. Þarna eru auðvitað átök á milli stærri og minni sveitarfélaga og ég held að þau átök muni magnast þegar fram líða stundir vegna þess að stærri sveitarfélögin munu auðvitað ekki láta bjóða sér að minnstu sveitarfélögin takmarki það á móti hvaða verkefnum þau geti tekið.

Það er auðvitað til önnur leið en sú sem ég var að nefna áðan og hæstv. félmrh. nefndi dæmi um í ræðu sinni við 1. umr. þegar hæstv. ráðherra velti fyrir sér stærð sveitarfélaga og nefndi þá að einhver hópur úr ráðuneytinu væri nýkominn úr ferð frá Tékklandi þar sem í ljós hefði komið að sveitarfélögin væru mjög misjafnlega stór og þar hefðu menn engar áhyggjur af því af því að þar leystu menn þessi mál með allt öðrum hætti og það væri bara með því að hafa mismunandi verkefni hjá sveitarfélögunum. Það væru ekki sömu verkefni hjá öllum sveitarfélögum. Þá leið hafa menn viljað varast í lengstu lög, að taka upp mismunandi sveitarfélög, því þá er svo stutt í það að menn fari að tala um fyrsta flokks sveitarfélög og annars flokks sveitarfélög og menn sjá ekki fyrir endann á slíku. Ég held því, svo ég komi enn á ný að því, að sú leið sem hér er boðuð sé vænleg en hún er ekki endanleg. Það verður auðvitað að meta það þegar þessu átaki er lokið hver niðurstaðan verður, hve langt hefur náðst og hver eiga að vera næstu skref. Það sem ég var að tala um áðan, að við stefndum að því að verða með mjög stór sveitarfélög og síðan hreppsstjórnir sem tækju að sér ákveðin verkefni innan þeirra, held ég að hljóti að vera það sem við stefnum að og við eigum að reyna að gera það sem einfaldast og gera það þannig að það verði sem augljósast fyrir fólkið hvaða kostir fylgja þeirri útfærslu. Það er nefnilega brýnt eins og ég hef áður sagt að koma verkefnum frá ríkisvaldinu og nær fólkinu. Síðan á að halda áfram ekki að taka stjórnsýsluna sem þarf að vera sem næst fólkinu frá því, heldur halda henni hjá fólkinu í minni einingum innan hinna stóru sveitarfélaga. Sú útfærsla á ekki að vera mjög flókin en ég held að hún sé í raun og veru tímabær þegar því átaki sem nú stendur yfir er lokið.

Ég nefndi áðan að hæstv. félmrh. hefði fjallað um stærð sveitarfélaga í ræðu sinni og velt upp ýmsu merkilegu í því sambandi, m.a. frá Tékklandi. Það hefur auðvitað líka verið rætt meðal manna í dag og ýmsir lagt svolitla áherslu á að það væri mikilvægt að fjarlægja úr lögunum hið sérkennilega ákvæði um 50 íbúa markið. Ég get alveg tekið undir það að 50 íbúa markið er náttúrlega út í hött. Það er engin veginn í samhengi við nútímann sem slíkt því að í lögunum er auðvitað annað ákvæði sem vegna landfræðilegra aðstæðna o.s.frv. getur tryggt minni sveitarfélög þannig að þetta ákvæði á auðvitað ekki heima þarna. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að sú nefnd sem á að gera tillögur fyrir sameiningarkosningarnar á út af fyrir sig að taka mið af allt öðru en hausatölu einhverra einstakra svæða. Ég held að það sé rétt að nálgast það mál út frá allt öðru en endilega hausatölunni þó að hún geti auðvitað skipt máli þegar við erum að velta því fyrir okkur að menn geti sinnt ákveðinni þjónustu. En í frv. segir nefnilega að nefndin eigi að gera tillögur og þær skuli vera eftirfarandi:

,,Tillögur skulu miða að því að hvert sveitarfélag verði heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði.``

Þetta er að mínu mati hárrétt nálgun, heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði. Það getur hins vegar orðið nokkuð strembið að meta það en þetta er auðvitað sú eining sem menn eiga að horfa á. Þegar tillögurnar hafa verið gerðar er síðan kosið um þær eftir ákveðnum reglum sem bent er á. Gert er ráð fyrir að greitt verði atkvæði um þær þann 23. apríl 2005 sem útilokar hins vegar ekki að ýmsar aðrar kosningar geti farið fram ef sveitarstjórnir hafa ákveðið það og það eru nú þegar nokkur dæmi um það að kosið verði um sameiningu sveitarfélaga áður og það er engin hindrun í slíku. Hins vegar er nefndinni sett það verkefni að gera tillögur út frá þessum grunni sem ég tel afskaplega mikilvægan og það verður síðan kosið um þær tillögur og talning og annað fer síðan eftir þeim reglum sem hér eru settar.

Það er augljóst mál að þarna er margs konar vandi á ferðinni. Það vill svo til að ég hef fengið að sitja nokkra fundi hjá sameiningarnefndinni vítt og breitt um landið þar sem ég er varamaður í nefndinni og það er auðvitað augljóst að viðhorf fólks vítt og breitt um landið eru mjög misjöfn eftir því í hvaða sveitarfélagi það er. Menn hafa talað um tilfinningalegar hindranir og ég efast ekkert um að þær eru til staðar og sú framtíðarmynd sem ég var að draga upp áðan held ég að sé lausn á því vegna þess að þá fá menn að halda í þau málefni sem þeim eru kærust og það kemur yfirleitt fram þegar þessi mál eru rædd að eining eins og skóli er sú eining sem fólk horfir mjög mikið á í hinum dreifðu byggðum, það er eitthvað sem menn vilji ekki missa frá sér og ég held að það sé eðlilegt. Ég held að fólk eigi að halda utan um slíkar einingar. Það eigi ekki að stýra þeim á of stóru svæði þannig að ég sé ekkert því til hindrunar að útfæra það á þann hátt sem ég lýsti áðan.

Varðandi það hversu stór sveitarfélögin eigi að vera þá er mér mjög minnisstæð umræða á fundi sem nefndin átti með sveitarfélögum úr Norður-Þingeyjarsýslu á Þórshöfn fyrir nokkru. Þar var það viðhorf talsvert uppi að það að fara að sameina nokkur sveitarfélög á því svæði mundi í raun og veru engu skila. Það þyrfti þá að verða miklu stærri sameining til þess að hún skilaði einhverju og ég held að það sé hárrétt viðhorf. Ég held að við þurfum að taka það í skrefum að við náum verulegum árangri í sameiningu sveitarfélaga þannig að einingarnar verði það burðugar að þær geti t.d. tekið við rekstri framhaldsskóla þannig að það er stofnun sem er mjög auðvelt að færa rök fyrir að eigi heima hjá sveitarfélögum. Það er nærþjónusta, áherslan á það að sinna slíku er miklu nær sveitarstjórnunum heldur en að því sé meira og minna stýrt úr ráðuneyti í höfuðborginni. Þannig má áfram telja dæmi eins og ég hef nokkur nefnt.

Hvað varðar nefndirnar sem hér hafa nokkuð verið nefndar, en ég sagði áðan að ég teldi nálgun hæstv. ráðherra vera rétta að skipa málum á þennan hátt, þá er auðvitað hægt að velta því fyrir sér hvort skipan nefndanna sé nákvæmlega eins og eðlilegast getur talist. Það er t.d. ljóst að verkefnisstjórnin sem á að velta fyrir sér verkaskiptingunni er afar fáliðuð miðað við t.d. sameiningarnefndina. Ef athugasemdir hv. þm. Ögmundar Jónassonar varðandi sameiningarnefndina hafa átt við um sameiningarnefndina þá væri hægt að hafa enn stærri orð um verkefnisstjórnina vegna þess að þar hefur þess verið vandlega gætt að í henni sitji eingöngu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og það er auðvitað býsna óheppilegt að svo sé vegna þess að þetta er auðvitað þess háttar verkefni að það á að ná langt yfir flokkslínur og þannig er það líka um þá nefnd sem á að sjá um tekjustofna sveitarfélaga að þar er ekki alveg gætt pólitísks jafnræðis. Ef hv. þm. Ögmundur Jónasson hefði tekið allar þessar nefndir þá trúi ég því að hann hefði fengið enn sterkari niðurstöðu varðandi þær tvær nefndir sem þarna eru á ferðinni vegna þess að það er augljóst mál að það eru tvö stærstu sveitarfélögin í landinu sem eiga fulltrúa í tekjustofnanefndinni og síðan eru fulltrúar úr fjmrn. og félmrn. þannig að ef það hefði verið virkilegur áhugi þá hefðu menn væntanlega skoðað allar þessar stjórnir og nefndir í samhengi og reynt að komast að einhverri niðurstöðu um hvernig eðlilegast væri að skipa þessum málum. Síðan gæti auðvitað verið ákveðinn samnefnari á milli þessara nefnda sem er reyndar til staðar þótt það komi ekki fram í þessari nefndaskipan að það er auðvitað eðlilegt upplýsingastreymi þar á milli.

Ég ætla ekki að fara út í þá sálma meira en vek aðeins athygli á að þarna hefði auðvitað mátt standa betur að málum. Ég tel hins vegar að þar sem ég þekki til úr setu minni sem varamaður í sameiningarnefndinni þá hafi það starf gengið býsna vel og menn séu nokkuð á veg komnir í að móta tillögurnar. Ég ítreka að þetta starf er það mikilvægt að þrátt fyrir þessa annmarka tel ég að því þurfi að sinna af fullri einurð og við verðum að reyna að ná sem allra mestum árangri í þessu skrefi og ítreka enn og aftur að það er að sjálfsögðu ekkert lokaskref í þessum efnum.

Það mætti líka fara yfir fleiri þætti sem tengjast eflingu sveitarstjórnarstigsins og sveitarstjórnarmálum sem slíkum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi atvinnumálin og það er auðvitað augljóst mál að það er ekki hjá því komist að þau spili ákveðna rullu varðandi það hversu öflug sveitarfélög eru vegna þess að það er nátengt, íbúafjöldinn og atvinnuástandið. Það er auðvitað hægt að nefna dæmi um það hvernig efling sveitarfélaga getur skilað sér í atvinnumálum og þó að það sé ekki beint hlutverk sveitarstjórna sem slíkra að vera með puttana í þeim þá vill svo til að mitt heimasveitarfélag, Fjarðabyggð, varð til við sameiningu þriggja sveitarfélaga og efldist við það og ég held að það velkist ekki nokkur maður í vafa um að sú sameining skipti auðvitað sköpum í því að fá það mikla átak sem nú er komið í gang varðandi byggingu álvers við Reyðarfjörð. Ég er sannfærður um það og er ekkert einn um þá skoðun mína að það verkefni hefði ekki náð fram að ganga ef sú sameining hefði ekki átt sér stað þannig að þar höfum við konkret dæmi um hvernig efling sveitarfélaga eða sveitarfélags getur skilað sér á ýmsum sviðum.

Að lokum, frú forseti, er nauðsynlegt að koma örlítið inn á samgöngumál vegna þess að það hefur líka verið áberandi á þeim fundum sem ég hef náð að sitja varðandi þessi mál að samgöngumálin koma eðlilega alltaf við sögu því þegar færð eru rök fyrir því að eitthvert svæði sé heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði þá skipta samgöngur auðvitað gríðarlegu máli. Þá komum við aftur að því grundvallarstefi sem málið snýst að mínu mati meira og minna allt saman um og það er að það náist fullt traust milli aðila, milli ríkisvaldsins og sveitarstjórnarstigsins. Það verður auðvitað að segjast eins og er að það traust er ekki til staðar og það eru allt of mörg dæmi um að því miður hafi ríkisvaldið ekki verið traustsins vert. Það liggur við að hægt sé að segja að það sé regla að ef upp koma deilur á milli ríkis og sveitarfélaga þá halli á sveitarfélögin. Eðlilega eru sveitarfélögin veikari aðilinn í því samstarfi, t.d. þar sem eru sameiginleg verkefni og við þekkjum mýmörg dæmi um það. Nýlegt dæmi sem kemur upp í huga minn er t.d. varðandi viðbyggingu við Menntaskólann á Egilsstöðum þar sem eru klár hlutföll um í hvaða hlutfalli á að byggja slíkt húsnæði en ríkisvaldið setur síðan til hliðar reglur um normkostnað við byggingar og þegar dæmið er síðan gert upp og skoðað hefur ríkisvaldið með þessu einfalda trikki náð því að snúa hlutföllunum við þannig að 60% fara yfir á sveitarfélagið en ekki 40% eins og gert var ráð fyrir í upphafi og sveitarfélagið hefur enga stöðu í málinu. Í þessu tilfelli þurfti sveitarfélagið hreinlega að stoppa framkvæmdina þegar búið var að bjóða verkið út vegna þess að það var mat sveitarstjórnarinnar, sem vildi sýna fjárhagslega ábyrgð, að sveitarfélagið gæti hreinlega ekki staðið að framkvæmdinni á þennan hátt og fór síðan þá einföldu leið að bjóða ríkisvaldinu að sjá um framkvæmdina en sveitarfélagið var þó tilbúið að standa við sinn hlut af framkvæmdinni en það gekk auðvitað ekki upp. Menn sitja því bara í pattstöðu og þar með er það farið að bitna á starfsemi þeirrar stofnunar. Svona eru því miður þessi samskiptamál og það er þess vegna alveg lykilatriði að menn nái í þessari atrennu að koma með skýr mörk í verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og helst þarf auðvitað að ná því sem lágmarkskröfu að þar sé búið að útrýma öllum blönduðum verkefnum milli aðila.

Frú forseti. Vegna þess að ég nefndi samgöngur áðan og ég nefndi að ríkisvaldið nyti ekki trausts meðal sveitarstjórna og ég nefndi líka Fjarðabyggð og sameininguna þar þá erum við með eitt mjög glöggt dæmi þar vegna þess að þegar sú sameining átti sér stað þá voru vilyrði fyrir því hjá yfirvöldum samgöngumála að það yrði mjög fljótlega á dagskrá að tengja byggðakjarnana í Fjarðabyggð með nýjum jarðgöngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Þetta reyndust því miður staðlausir stafir. Önnur göng hafa verið sett í gang á undan, þessi göng eru að vísu inni í hinum svokallaða athugunarpakka sem þýðir að þau eiga að koma inn í næstu umferð ef að líkum lætur en eitthvað hafa áherslur breyst miðað við þær heimildir sem ég heyri vestan af fjörðum því þar er mér sagt að hæstv. samgrh. hafi boðað það á fundum, að vísu þegar var töluverð taugaveiklun fyrir kosningar, að næstu jarðgöng yrðu vestur á fjörðum. Nú er sú yfirlýsing hæstv. ráðherra að vísu ekki í samræmi við samþykktir Alþingis og hið sama má segja um yfirlýsingar þáverandi yfirvalda samgöngumála varðandi það hvernig ætti að bæta samgöngur við sameiningu í Fjarðabyggð, að ekki hafi legið fyrir neinar samþykktir í Alþingi um það, og það segir okkur auðvitað að hlutirnir þurfa að vera klárir og samþykktir til að hægt sé að taka mark á þeim. Það þarf því þegar þessu átaki lýkur að fara yfir allan lagabálkinn sem tengist sveitarfélögum og reyna að negla sem allra mest niður og hafa skilin á milli algerlega skýr. Síðan hljóta auðvitað að vakna ótal spurningar þegar því verkefni er lokið og við höfum fengið, væntanlega um svipað leyti, eða það styttist þá a.m.k. mjög í að það komi ný ríkisstjórn og ég sé fyrir mér að þegar mynduð verður ný ríkisstjórn þá verði í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar býsna öflugur pakki um það hvernig efla eigi sveitarstjórnarstigið á raunhæfan hátt og þar verði markað og tímasett hvernig að því verði staðið þannig að tryggja megi sveitarstjórnarstiginu aukin verkefni og aukinn styrk og þannig mundum við að sjálfsögðu um leið stórefla landsbyggðina.