Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:39:03 (8602)

2004-05-18 17:39:03# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. um að við eigum að hafa góða þjónustu úti á landi og að hún eigi að vera sem sambærilegust við það sem best gerist. En ég ætlaði að vekja athygli á því að menn horfa alltaf út á land þegar verið er að tala um að sameina sveitarfélög. Ég tel að ef menn skoði það hvar árangur næst í hagræðingu ættu menn fyrst og fremst að skoða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að ég tel að þar séu tækifærin til þess að sameina og ná fram raunverulegri hagræðingu og að þeir fjármunir sem sparist þar mætti jafnvel hugsa sér að koma til sveitarfélaga sem standa höllum fæti. Ég tel að menn eigi einmitt að einblína á höfuðborgarsvæðið, þar eru sveitarfélög eins og Seltjarnarnes, Garðabær og Hafnarfjörður og þar mætti skoða ýmsar sameiningar sem gætu sparað stórfé.

Í allri þeirri vinnu verðum við líka að skoða hvernig sameiningin hefur komið við þau sveitarfélög sem hafa gengið inn í sameiningu svo sem eins og Þingeyri, Bíldudal, Hofsós og fleiri staði sem hafa sameinast nýlega. Hver árangurinn er á þeim stöðum og t.d. hvort fólk þar sé betur sett nú en fyrir sameiningu. Ég held að við ættum að skoða það með gagnrýnum hætti og þora að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort sameiningin hafi í raun skilað þeim árangri sem til er ætlast.