Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 17:43:17 (8604)

2004-05-18 17:43:17# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[17:43]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson fór um víðan völl í þeim málum sem lúta að rekstri sveitarfélaganna og verkaskiptingu þar á milli, enda gjörþekkir hann málaflokkinn eftir áralangt starf í sveitarstjórnum austur á fjörðum og við grunnskólann o.fl. Hann kom inn á marga mjög athyglisverða þætti sem er freistandi að inna hann frekar eftir og dró upp mynd af nokkuð fögru framtíðarlandi sem orðið gæti. En það sem hann kom inn á í sambandi við fyrirhugaða stækkun sveitarfélaganna, sameiningu þeirra og aukinn verkefnatilflutning og þar af leiðandi útþenslu þeirra í leiðinni er ákveðin fjarlægð frá ýmsum kjörnum innan byggðarlaganna. Ef maður hugsar sér t.d. og tekur eitthvert dæmi af handahófi eins og Árnessýslu, ef hún væri eitt sveitarfélag, þá væri þar fjöldinn allur af byggðakjörnum frá því að vera 100--200 manna byggðakjarnar upp í að vera eins og sá stærsti tæplega 6.000 manna, 5.700, og þá væri augljóst að menn þyrftu að huga að stjórnsýslunni. Hann talaði um hverfa- og hreppstjórnir, að þær yrðu stofnsettar og fengin ákveðin verkefni, og mig langaði þá að spyrja hann sérstaklega að því hvort hann teldi forsendur fyrir verulegri stækkun sveitarfélaganna, að við færum að feta okkur í áttina að því að stofna sérstakt stjórnsýslustig, þriðja stjórnsýslustigið, hvort það stjórnsýslustig sé í raun og veru þegar allt kemur til alls forsenda þess að veruleg sameining sveitarfélaga geti orðið að veruleika og verði til góðs og þess vegna sé það nauðsynlegt.