Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 18:47:41 (8611)

2004-05-18 18:47:41# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[18:47]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu eru til öll gögn um þróun launa hjá kjararannsóknarnefnd og þar liggur þetta allt fyrir. Laun hjá sveitarfélögunum hafa hækkað 10% meira en laun hjá ríkinu og ef menn leggja það saman, launakostnaðinn og 10% ofan á, þá er komin stóra summan sem við vorum að tala um og ef hv. þm. hefur áhuga, eins og ég veit að hann hefur, á vandamálum sveitarfélaga þá er rétt að tala um stóru tölurnar. Þetta er stóra talan.

Ég vil líka benda á að það eru sveitarfélögin sem semja reglur sín á milli um það hvernig þau skipta framlögum í jöfnunarsjóðnum, það eru samningar þeirra á milli. Ríkið gefur þeim engin fyrirmæli um hvernig það skuli gert. Og það er rangt að við höfum minnkað framlögin til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, við höfum aukið þau. Síðustu þrjú árin hafa verið lagðar í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga 2.500 millj. umfram það sem samið var um.

Hins vegar tók ég mjög skýrt fram í andsvari mínu að það er rétt að sum sveitarfélög sem hafa orðið fyrir tekjuskerðingu hafa orðið fyrir fólksfækkun, sérstaklega sveitarfélögin þar sem landbúnaður og sauðfjárrækt eru stór þáttur og sveitarfélögin sem eiga mjög undir sjávarútvegi þar sem hefur orðið gríðarlegur samdráttur. Þær aðgerðir sem við höfum notað hingað til hafa ekki dugað. Það er alveg rétt. Ég sagði það áðan og ég get endurtekið það aftur að við þurfum að grípa til sértækra aðgerða en það á ekki við sveitarfélögin í heild og það má ekki fjalla um vandamál sveitarfélaganna eins og þau séu ein samfelld heild. Það er himinn og haf milli stöðu þeirra.