Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:07:43 (8615)

2004-05-18 19:07:43# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:07]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan kveikti það í mér að koma upp andsvarið sem hv. þm. kom með um fjárhagsvanda sveitarfélaganna, sértækar aðgerðir og annað, og hann bætti nú um betur í ræðu sinni. Því vil ég leyfa mér að spyrja hv. þm.: Í hvaða sértæku aðgerðir eigum við að fara gagnvart sveitarfélögum í landinu sem berjast í bökkum og eiga, sem við erum vafalaust sammála um, í erfiðleikum fjárhagslega vegna ýmissa breytinga í atvinnuháttum, fólksfækkunar, fækkunar starfa o.s.frv.? Í hvernig aðgerðir eigum við að fara sem koma til góða þessum sveitarfélögum sem sannarlega eiga erfitt fjárhagslega og sem sannarlega eru líka með mjög mikinn aga á sínum fjárhag, eru jafnvel að segja upp fólki, loka stofnunum, draga úr þjónustu og annað slíkt? Það er agi þegar menn eru að láta enda ná saman, tekjur og gjöld. Hvernig er það hægt? Og þá bið ég hv. þm. að nefna annað en jöfnunarsjóðinn í þessu tilfelli vegna þess að við erum búin að ræða um hann. En sem dæmi um breytingar sem gerðar voru á jöfnunarsjóðnum þá var t.d. breytt um kerfi hvað varðar snjómokstur og það kemur þannig út í dag að jöfnunarsjóður, að mér skilst, greiðir jafnmikið til sveitarfélaga sama hvort það er Siglufjörður, þar sem getur stundum snjóað mikið, eða Selfoss eða Vestmannaeyjar, sá ágæti bær, þar sem snjóar ekki oft. En framlagið til snjómoksturs er reiknað út á sama hátt í þessum sveitarfélögum.

Virðulegi forseti. Hvernig eigum við að fara í þessar sértæku aðgerðir? Og síðast en ekki síst sem er kannski aðalatriðið: Hvenær má vænta þess að hæstv. ríkisstjórn fari að gera eitthvað til þess að hjálpa þessum sveitarfélögum áður en þau lenda algerlega á hausnum?