Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:13:03 (8619)

2004-05-18 19:13:03# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:13]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að Alþingi á að hafa burði til þess að tryggja sveitarfélögunum nægilega tekjustofna til að standa undir verkefnum sínum og láta þau ekki fá önnur verkefni en þau ráða við. Einnig á Alþingi að hafa burði til að grípa inn í og rétta hag einstakra sveitarfélaga eða hóps sveitarfélaga við erfiðar aðstæður. Það á ekki að þurfa að fara í gegnum Samband sveitarfélaga með slíkt. Ég hef í sjálfu sér ímugust á stöðugri útþenslu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga án þess að því fylgi þá nánar tilgreind markmið.

Það sem ég vildi spyrja hv. þm. um er hvort honum finnist hið einhliða boðvald og ákvörðunarvald ríkisins eðlilegt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, að geta einhliða ákvarðað með lögum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsaðgerðum, gengið frá og samþykkt verkefni á sveitarfélögin án þess að því fylgi neinir tekjustofnar eða neinir beinir samningar við sveitarfélögin um það. Við upplifum þetta bæði í lagasetningum og reglugerðarsetningum, að ég tali nú ekki um í yfirfærslu á svokölluðum Evróputilskipunum sem Alþingi hefur eins og afgreiðslustofnun milligöngu um að varpa áfram á sveitarfélögin. Er það eðlilegt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að annar aðilinn sé eins gersamlega undirorpinn geðþótta eða einhliða ákvörðunum ríkisvaldsins og Alþingis og raun ber vitni?