Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:16:57 (8621)

2004-05-18 19:16:57# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. minntist á að þegar væri komið eða a.m.k. væri ætlað að koma í gang þeim þætti í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga að frumvörp eða stjórnvaldsákvarðanir af hálfu félmrn. og að mig minnir líka umhvrn. yrðu kostnaðarmetin áður en þau kæmu til framkvæmda. Það átti að koma til framkvæmda á yfirstandandi ári eða a.m.k. á árinu 2004. Það er mér vitanlega ekki enn komið í gang. Það samkomulag er ekki enn orðið virkt hvað þá að taka frumvörp og stjórnvaldsaðgerðir annarra ráðuneyta og kostnaðarmeta þau áður en þau verða virk. Að að koma betri skikk bara á þetta eina tilvik í samskiptum ríkis og sveitarfélaga er því afar brýnt.

Ég tek undir með hv. þm. að skattheimtuvaldið á bara að vera hjá einum aðila, a.m.k. í þeirri stjórnskipan sem við búum við. Það yrði þá að taka upp einhvers konar fylkjaskipulag eða eitthvað slíkt sem réttlætti það að fara að deila skattheimtunni. Hins vegar vil ég spyrja hv. þm. að því hvort hann telji í ljósi tekjustöðu margra sveitarfélaga og einmitt þessara samskiptaþátta milli ríkis og sveitarfélaga, rétt og eðlilegt að keyra nú áfram sameiningu sveitarfélaga og yfirfærslu verkefna til þeirra áður en tekið hefur verið á samskiptum ríkis og sveitarfélaga og tekjuskiptingu og verkefnaskiptingu við núverandi aðstæður. Deilir hann þar áhyggjum og skoðunum flokksbróður síns og formanns Sambands sveitarfélaga sem sagði í blaðaviðtali nýlega að hann teldi það algera forsendu fyrir áframhaldandi viðræðum um yfirfærslu á frekari verkefnum frá ríki til sveitarfélaga að samkomulag næðist um verka- og tekjuskiptingu við núverandi aðstæður áður en áfram væri haldið?