Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:46:24 (8624)

2004-05-18 19:46:24# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:46]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir málefnalegt og gott andsvar. Hann spyr mig um atriði sem ég, alveg rétt, fór svona á hlaupum yfir sem tengist þeirri kröfu Vinstri grænna að fá sinn fulltrúa í viðkomandi nefnd. Ég hlustaði bæði á hv. þm. Ögmund Jónasson og hv. þm. Mörð Árnason takast á um þetta fyrr í dag og svona út frá spurningunni um lýðræði o.fl. væri gaman að velta þessu upp. Ég verð að segja alveg eins og er að það kom mér nokkuð á óvart að Vinstri grænir skyldu ekki fallast á að vera með áheyrnarfulltrúa í nefndinni og ég met það eiginlega bara af þeirri reynslu að nú sit ég í nefnd, félmn., þar sem, ég held að ég fari rétt með það, hv. þm. Ögmundur Jónasson er áheyrnarfulltrúi. Það er hins vegar eitthvað sem maður finnur aldrei fyrir því í rauninni er það svo að í slíku starfi eru menn ekki með merkimiða á enninu, það fer bara eftir því hver framganga manna er í viðkomandi málum. Og þó að ég sé kannski ekkert sérstaklega oft sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni í skoðunum þá er alveg á hreinu að hann fylgir sínum málum eftir, alveg sama hvort um er að ræða eitthvað sem heitir að vera fullgildur meðlimur eða áheyrnarfulltrúi. Það er oft sagt á vettvangi sveitarstjórnarmála að í slíkum málum séu engin flokkatengsl þegar sveitarstjórnarmenn eru annars vegar, þeir séu allir eins og séu að gæta hagsmuna sveitarfélaga sinna. Að sjálfsögðu er það ekki alls kostar rétt en í nefnd eins og þessari skiptir auðvitað fyrst og fremst máli að starfið sé skilvirkt að því leytinu að við verðum að fá niðurstöðu. Ég er ekkert sérstaklega hrifinn af mjög stórum nefndum, ég gengst við því, virðulegur forseti. Þess vegna, þrátt fyrir að ég sé oft sammála hv. þm. Ögmundi Jónassyni um ýmislegt sem tengist ekki pólitík, finnst mér kannski skynsamlegt að hafa skilvirka stjórn og það kom mér nokkuð á óvart að þeir skyldu ekki þiggja að hafa áheyrnarfulltrúa því ég efast ekki um að þeir gætu sett mark sitt á starfið með þeim hætti.