Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:54:51 (8629)

2004-05-18 19:54:51# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:54]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að það er afar eðlilegt að við ræðum málefni höfuðborgarinnar, að sjálfsögðu, því að höfuðborgin er auðvitað stór hluti af landi okkar og ég held að það sé svo sem enginn skortur á því að við ræðum málefni höfuðborgarinnar því hún tengist meira og minna öllum málum.

Það er einnig rétt sem kom fram í ræðu hv. þm. að það er ekkert nýtt að deilur séu á milli ríkis og sveitarfélaga. Það hefur fylgt okkur kannski allt of lengi. Þess vegna lagði ég mikla áherslu á það að núna þegar verið væri að vinna þetta átak, væri reynt að ná því fram að ekki væri verið að blanda saman verkefnum. Verkefnin væru algerlega hrein og klár, annars vegar hjá sveitarfélögunum og hins vegar hjá ríkisvaldinu vegna þess að reynslan sýnir okkur að sveitarfélögin lenda yfirleitt undir þegar deila stendur.

Dæmið sem hv. þm. tók um deilur milli ríkisins og Reykjavíkurborgar varðandi einhverja skuld sem ég kann ekki að rekja, enda skiptir það kannski ekki meginmáli af hverju skuldin var en hún var til komin, og ef ég man rétt var hún búin að standa í deilu nokkuð lengi. Það vildi svo til að það voru þeir menn sem hv. þm. nefndi, þ.e. þáv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson og þáv. borgarstjóri Davíð Oddsson, sem leystu þá deilu og það er auðvitað það sem við eigum að hafa til fyrirmyndar. Þegar deilur koma upp á að leysa þær. En það er auðvitað miklu betra að haga málum þannig og hafa löggjöfina með þeim hætti að hægt sé að koma í veg fyrir deilurnar. Við eigum að fækka þeim tilefnum sem verða til þess að deilur koma upp á milli þessara aðila og ég held að við gerum best með því t.d. að tryggja verkaskiptinguna á milli þeirra. Eins það dæmi sem hv. þm. nefndi, um að meta öll frumvörp sem tengjast á einhvern hátt fjárhag sveitarfélaganna og hvað þau komi til með að kosta, að menn viti alltaf hvað það muni þýða fyrir sveitarfélögin þegar eitthvað fer hér í gegn og að reynt verði að jafna það á sem einfaldastan hátt.