Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 19:57:00 (8630)

2004-05-18 19:57:00# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[19:57]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gangast við því einu sinni enn að ég er mjög sammála hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni og sérstaklega varðandi það að það verður að vera hreint hvar verkefnin liggja. Þau eiga annaðhvort að liggja hjá sveitarfélögunum eða ríkinu. Allt sambland býður upp á að menn takist á. Sömuleiðis varðandi kostnaðinn og mér finnst mjög gott að taka eigi öll frumvörp og meta kostnaðinn af þeim fyrir sveitarfélögin og þó fyrr hefði verið.

Hins vegar verða alltaf deilur. Ef ég tek t.d. minn góða vin og félaga í borgarstjórn og formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, þá er hlutverk hans að sjá til þess að gæta hagsmuna sveitarfélaga gagnvart ríkinu. Skárra væri það nú ef menn kæmu bara og segðu: Hér er allt í góðu lagi. Menn hljóta alltaf að gæta þeirra hagsmuna sem þeir eru kosnir til. Sama á við um sveitarfélögin. Ég efast ekkert um að menn séu almennt sáttir við það í Fjarðabyggð að bæjarstjórinn í Fjarðabyggð, Guðmundur Bjarnason, eigi að gæta hagsmuna þess sveitarfélags. Ég held að menn kjósi hann m.a. út af því og menn í bæjarstjórn þar af því að þeir vilja sjá til þess að menn komi sem best út á því svæði í samskiptum hvort sem það er við ríkið eða aðra aðila. Það er ekkert óeðlilegt við það en auðvitað þurfa menn að gæta hófs og sanngirni, það er lykilatriði. En svo sannarlega eru menn kosnir til þess alveg eins og við sem gætum hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Það er hlutverk okkar og það er eitthvað sem við eigum að gera og það sama á við um þá sem eru í sveitarstjórnum hjá Reykjavíkurborg eða bæjarfélögum um landið.

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þm. Einar Már Sigurðarson séum sammála um þetta eins og svo margt annað og með þeim orðum lýk ég ræðu minni.