Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:08:08 (8633)

2004-05-19 10:08:08# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Stuðningur við hernaðarlega íhlutun í Írak byggðist ekki á einni afgerandi ástæðu heldur mörgum samverkandi þáttum, eins og þingheimi er vel kunnugt um. Grunur um gereyðingarvopn írakskra stjórnvalda réð auðvitað miklu. Fleira kom þó til.

Ítrekaðar ályktanir öryggisráðs SÞ voru virtar að vettugi og Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni og vopnaeftirlitsmönnum samtakanna torvelduð störf. Svívirðileg og kerfisbundin mannréttindabrot voru framin þar til ógnarstjórn Saddams Husseins féll og þá er verið að tala um tugi eða hundruð þúsunda myrtra. Haft var í hótunum við nágrannaríki og neitað að upplýsa um örlög fjölda fólks frá Kúveit og Íran sem týndist í innrásum Íraka.

Íslensk stjórnvöld studdu aðgerðir til að koma Saddam Hussein frá völdum. Það hefur nú tekist. Hann ríkti yfir þjóð sinni sem grimmur harðstjóri og miskunnarlaus böðull en það eru nöturlegar kveðjur til hinnar nýfrjálsu íröksku þjóðar að ákvæði Genfarsáttmálans séu ekki virt af herjum vestrænna lýðræðisríkja. Það eru ekki þau skilaboð sem írakska þjóðin á skilið og ekki þau skilaboð sem við Íslendingar viljum senda frá okkur.

Þau voðaverk sem lýst hefur verið á undanförnum vikum og hafa verið framin má á engan hátt verja né þá sem standa fyrir slíku. Ég hef afdráttarlaust lýst þeirri skoðun minni að það sé skylda yfirstjórnar herliðsins í Írak að láta þegar í stað fara fram opinbera rannsókn á þeim alvarlegu ásökunum sem fram hafa komið. Fyrir utan yfirlýsingar í fjölmiðlum, þar sem íslensk stjórnvöld hafa mótmælt illri meðferð bandarískra hermanna á írökskum föngum afdráttarlaust, vil ég geta þess að sendiherra Bandaríkjanna var boðaður til fundar í utanrrn. þar sem mótmælum íslenskra stjórnvalda var komið á framfæri með formlegum hætti. Hann kvaðst mundu koma þeim sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda á framfæri við stjórnvöld í Washington.

Það blasir við hverjum manni að ástandið í Írak nú er ekki eins og best verður á kosið, mannfall er mikið og róstur víða. Þessir erfiðleikar valda heimsbyggðinni allri þungum áhyggjum en viðleitni til uppbyggingar hefur þó borið umtalsverðan árangur. Skoðanakannanir í Írak benda til þess að ekki vilji margir hverfa til þess ástands sem ríkti fyrir íhlutunina.

Vissulega veldur miklum áhyggjum að svo virðist sem upplýsingar fremstu leyniþjónusta heims hafi ekki verið á rökum reistar. Vissulega er það umhugsunarefni að ógnin sem SÞ voru sammála um á sínum tíma virðist hafa verið ofmetin. Það hlýtur að hafa umtalsverð áhrif til lengri tíma litið, t.d. í aðdraganda svo afdrifaríkra ákvarðana í framtíðinni. Þar er enginn undanskilinn.

Hins vegar hljóta flestir að geta tekið undir þá skoðun að nú í aðdraganda valdatöku bráðabirgðastjórnar og lýðræðislegra kosninga væri óábyrgt að eftirláta öfgaöflum stjórn í Írak eða í hluta landsins. Þar er allt of mikið í húfi. Íslensk stjórnvöld hafa lengi talað fyrir því að SÞ eigi með beinum hætti að koma að pólitísku og efnahagslegu endurreisnarstarfi og telja mikilvægt að öryggisráðið samþykki sem fyrst ályktun í þeim tilgangi.

Hvað varðar síðasta lið spurningarinnar var það ekki auðveld ákvörðun sem íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir í mars 2003 þegar það var ákveðið að styðja hernaðaríhlutun bandalagsríkjanna í Írak. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar var hvort tveggja pólitísk og jafnframt byggð á grunni alþjóðalaga. Sagan ein getur dæmt um það hvort hún var rétt en eitt er víst og það er að hún var í fullu samræmi við utanríkisstefnu okkar Íslendinga á umliðnum áratugum. Hún var pólitísk vegna þess að trúverðugleiki SÞ var í húfi og hún var lögleg vegna þess að stjórn Saddams Husseins hafði ítrekað brotið ályktanir samtakanna. Ég tel að ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi verið rétt vegna þess að ólíðandi var að stjórn Saddams Husseins færi ekki að ályktunum og vilja alþjóðasamfélagsins.