Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:17:50 (8636)

2004-05-19 10:17:50# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:17]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Á vordögum á síðasta ári gengu Íslendingar í bandalag hinna staðföstu þjóða með yfirlýstum stuðningi sínum við Bandaríkjamenn um innrás herliðs á hendur íröksku þjóðinni. Hinn yfirlýsti stuðningur Íslendinga við innrásina var ákveðinn af einungis tveimur Íslendingum, tveimur persónum, þrátt fyrir yfirlýsta stefnu íslenskrar þjóðar um að fara aldrei með ófriði á hendur annarri þjóð.

Forsenda innrásarinnar var í upphafi byggð á ásökunum Bandaríkjamanna um að gereyðingarvopn væri að finna í Írak. Frá fyrsta degi innrásarinnar og til dagsins í dag hefur ekkert bólað á umræddum gereyðingarvopnum. Að þessum forsendum brostnum beindu ráðamenn hinna staðföstu þjóða spjótum sínum að einræðisstíl fyrrum leiðtoga Íraka og hans meintu mannréttindabrotum gagnvart írakskri þjóð á undanförnum árum.

Á undanförnum vikum hafa fréttir borist frá Írak sem lýsa ótrúlegum harmleik og viðbjóði. Upp hefur komist um hryllilega meðferð hjá herliði Bandaríkjamanna á írökskum föngum. Sjálfskipaðir siðapostular alheimssamfélagsins, hinar staðföstu þjóðir, hafa nú brotið eigin forsendur fyrir innrásinni í Írak með grófum mannréttindabrotum á hendur írökskum þegnum. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson verða að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir skömm og hneykslan minni á framferði umræddra ráðherra og krefst þess sem Íslendingur að þeir biðji íslensku þjóðina afsökunar.