Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:19:47 (8637)

2004-05-19 10:19:47# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:19]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þegar innrásin var gerð í Írak sagði hæstv. utanrrh. Íslands, Halldór Ásgrímsson, að hann þakkaði guði fyrir að Ísland væri ekki með her þannig að hann þyrfti ekki sjálfur að taka ákvörðun um að senda íslenska hermenn til Íraks. En hann bætti því við að hann dáðist að mönnum eins og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem gæti tekið slíka ákvörðun með yfirveguðum hætti.

Nú er á tvennt að líta, annars vegar að með svokölluðum staðföstum stuðningi Íslands við hernám Íraks erum við meðábyrg í ákvörðunum um að senda hermenn til Íraks og hins vegar hefur komið í ljós að ákvörðun um að ráðast á Írak var ekki tekin með yfirveguðum hætti. Gereyðingarvopnin reyndust ekki fyrir hendi og Bandaríkjastjórn lýsir því nú yfir að írakski herinn verði að lúta stjórn bandaríska hersins. Sagði nýskipaður sendiherra Bandaríkjanna, John Negroponte, nýlega að írakski herinn væri svo lítt þjálfaður og illa vopnum búinn að hann væri einskis megnugur. Öðruvísi mér áður brá.

Hin ástæðan fyrir innrásinni, þ.e. þegar gereyðingar\-ástæðan dugði ekki lengur, var ógnin sem talin var stafa af illmenninu Saddam Hussein og ógnarstjórn hans. Nú hefur komið á daginn að hernámsliðið er ekki hótinu betra og beitir aðferðum sem líkja má við aðferðir nasista um miðja síðustu öld. Væru þeirra menn drepnir var gripið til stórfelldra hefndaraðgerða sem voru látnar bitna tilviljanakennt á saklausu fólki til að skapa skelfingu. Fjórir bandarískir hermenn voru drepnir í Falluja, 700 borgarar lágu í valnum þegar hernámsliðið hafði lokið sér af. Enginn velkist í vafa um að fjöldamorð bandaríska hernámsliðsins og skipulegar pyndingar í fangelsum eru brot á Genfarsáttmála um mannréttindi og nú hljótum við að krefjast þess að Íslendingar segi sig afdráttarlaust frá hernáminu og krefjist (Forseti hringir.) alþjóðlegrar rannsóknar á öllu þessi ferli, að allir sem reynast sekir verði látnir sæta (Forseti hringir.) ábyrgð samkvæmt niðurstöðum slíkra rannsókna og réttarhalda hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum, (Forseti hringir.) ekki aðeins fyrir pyndingar og voðaverk í fangelsum (Forseti hringir.) heldur einnig fyrir dauða hálfrar milljónar barna (Forseti hringir.) sem létu lífið af völdum viðskiptabannsins ...

(Forseti (BÁ): Heyrir ...?)

í Írak á tíunda áratugnum --- ég ætla að segja þetta undir bjölluhljóm.

Íslendingar verða að gangast við eigin ábyrgð. (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Ég áminni þingmenn um að virða þann ræðutíma sem gefinn er í þessari umræðu.)