Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:28:22 (8641)

2004-05-19 10:28:22# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:28]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er orðið æ erfiðara að reyna að réttlæta stríðið í Írak og það er hrein skömm fyrir orðspor Íslendinga að vera á lista yfir hinar staðföstu og viljugu þjóðir sem tóku þátt í árásinni á Írak. Það er óumdeilt að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson fóru á svig við lög þegar ákvörðun var tekin um að vera á listanum yfir hinar viljugu og staðföstu þjóðir. Í 24. gr. þingskapa segir:

,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.``

Þá er spurningin: Hvað lá á? Hvers vegna var ekki farið eftir lögum í þessu máli? Ríkisstjórnin skuldar þjóðinni svör við spurningunni um hvers vegna það var ekki gert. Hæstv. utanrrh. er orðinn æ skömmustulegri þegar verið er að ræða stríðsreksturinn í Írak en þó átti hann skammvinna gleði og nánast sigurstund þegar íslenska landhelgisgæslan fann meint efnavopn sem reyndust vera gamalt brotajárn. Þær bombur hafa verið nefndar sinnepsbombur. Auðvitað ber þeim að biðja íslensku þjóðina afsökunar og ekki síður íröksku þjóðina. Íraksmálið er ævarandi smánarblettur sem stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., hafa sett á þjóð sína og ef ég heyrði rétt fyrr í umræðunni kom fram í máli hæstv. utanrrh. að uppbyggingarstarfið væri árangursríkt. Mér varð hins vegar litið inn á fréttavef BBC og þar kemur fram og er haft eftir fulltrúum Alþjóðabankans að uppbyggingarstarf í Írak sé langt að baki öllum áætlunum. Ég hafna alfarið þeim orðum að þeir sem hafa verið andvígir stríðsrekstrinum, eins og gefið var í skyn af hæstv. forsrh., hafi stutt óbreytt ástand. Eitthvað má á milli vera.