Staða mála í Írak

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:34:57 (8644)

2004-05-19 10:34:57# 130. lþ. 120.96 fundur 585#B staða mála í Írak# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Íraksstríðið er umdeilt um allan heim. Það hefur verið umdeilt og það er það enn þann dag í dag. Það er líka umdeilt á Íslandi. Hvað sem því líður getum við ekki snúið til baka. Við hljótum að vinna út frá þeirri stöðu sem er í dag. Það er kominn tími uppbyggingar. Sá tími er kominn að hernámsliðið fari frá Írak og Írakar taki sjálfir stjórn í sínar hendur. Svo koma hv. þm. hér og segja að tveir einstaklingar hafi tekið ábyrgð fyrir hönd íslensku þjóðarinnar á þeim stuðningi sem var veittur á sínum tíma. Er það ekki skylda forsrh. og utanrrh. að taka afstöðu til viðkvæmra mála? (Gripið fram í.) Var það ekki skylda okkar að gera það? (Gripið fram í.)

Og það vill nú svo til að þeir flokkar sem stóðu að þessu gengust undir kosningar nokkrum vikum síðar og fengu umboð íslensku þjóðarinnar (Gripið fram í: Og réttlæta ...) til þess að vera áfram við völd. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þú fékkst ekki slíkt umboð. (ÖS: Heyrðu, en það ...) og við --- Það er alveg klárt að við verðum að sæta ábyrgð á gjörðum okkar. Við sætum pólitískri ábyrgð í kosningum. (RG: Nákvæmlega.) (Gripið fram í.) (ÖJ: Aumkunarvert mál.) Ég heyri að hv. þm. þola illa lýðræðið. (Gripið fram í.) Þeir þola ekki einu sinni lýðræði hér á Alþingi og geta ekki unnt mönnum þess að hafa málfrelsi. (ÖS: Þú ert með vonda samvisku.) (KolH: Skrumskæling.)

Herra forseti. Ég legg til að stjórnarandstaðan fái málfrelsi hér á nýjan leik og fái að vera í ræðustól. Ég ætla ekki að koma í veg fyrir það og hef lokið máli mínu.

(Forseti (HBl): Ég hef ekki hugsað mér að gefa þeim orðið í þessu máli.)