Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 10:58:37 (8648)

2004-05-19 10:58:37# 130. lþ. 120.18 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar á heildina er litið getum við stutt þetta frv., með undantekningum þó. Við höfum ákveðna fyrirvara á. Almennt erum við fylgjandi því að styrkja sveitarstjórnarstigið. Fyrirvari okkar lýtur í fyrsta lagi að því að við teljum mikilvægt að hyggja að fjárhagslegri hlið mála, tekjustofnum sveitarfélaganna, að þeim verði ekki falin verkefni án þess að fá samsvarandi tekjur til að rísa undir tilkostnaðinum við þau.

Varðandi þetta frv. lýtur fyrirvari okkar fyrst og fremst að lýðræðislegri aðkomu sveitarfélaganna. Það er kveðið á um það í 7. gr. frv. Þótt við styðjum aðrar greinar frv. getum við ekki stutt þá grein og munum sitja hjá við hana.

Látum liggja á milli hluta það sem við höfum gert að umræðuefni við umræðuna, að tveimur stjórnmálaflokkum, Frjálslynda flokknum og þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, var meinuð aðkoma að sameiningarnefnd sveitarfélaga þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir okkar um að fá aðgang og setu í nefndinni á jafnræðis- og jafnréttisgrundvelli á við aðra fulltrúa í nefndinni. Hæstv. félmrh. stóð í vegi fyrir því að við fengjum þessu framgengt. En látum það liggja á milli hluta.

Það sem við gerum fyrst og fremst athugasemd við hér, ástæðan fyrir því að við getum ekki stutt 7. gr. frv., er að hér er óhóflega þrengt að lýðræðislegu sjálfstæði sveitarfélaganna í landinu.