Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 11:07:31 (8650)

2004-05-19 11:07:31# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[11:07]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Hæstv. forseti. Ekki þurfti að hafa mörg orð um þessar brtt. hv. meiri hluta allshn. frekar en hinar sem hafa komið fram á fyrri stigum málsins. Verður það að segjast eins og er að málsmeðferðin og framganga hv. meiri hluta allshn. er farin að verða honum lítt til virðingar. Ég mun fara nánar út í það á eftir.

Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti minni hluta hv. allshn. en undir það skrifa auk mín hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Sigurjón Þórðarson. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hún samþykk áliti þessu.

Það er rétt að geta þess hér í upphafi, virðulegi forseti, að sá vandræðagangur sem einkennt hefur þetta mál í hv. allshn. hélt áfram á milli 2. og 3. umr. Það var búið að hafna því að málið yrði þar formlega tekið fyrir. Því var lýst yfir að málið ætti ekki að kalla til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. Það er síðan tekið til umræðu undir liðnum önnur mál. Síðar er það komið á dagskrá og auðvitað endar það þannig að hv. meiri hlutinn sér sér ekki annað fært en að taka málið þá formlega fyrir og afgreiða brtt. sínar í gegnum nefndina. Það er svo sem ekki öðruvísi en einkennt hefur alla þessa málsmeðferð.

Virðulegur forseti. Það er skemmst frá því að segja að þær breytingar sem meiri hlutinn hefur ítrekað reynt að gera á frv. breyta ekki þeirri skoðun minni hluta allshn. og stjórnarandstöðunnar hér í þinginu að málið er ónýtt og því verður ekki bjargað. Þau rök sem komu fram í nefndaráliti minni hlutans við 2. umr. eiga enn við og ef eitthvað er hefur umræðan leitt það enn frekar í ljós að þetta frv. er sértækt, því er beint enn þá gegn einu fyrirtæki. Það mun að öllum líkindum fela í sér aukna fábreytni á fjölmiðlamarkaði og ganga þannig þvert gegn markmiðum sínum. Líkur eru á að það stangist enn á við stjórnarskrá lýðveldisins. Það tekur á engan hátt tillit til EES-réttar. Verð ég nú að segja, virðulegi forseti, að þar átti ég einna helst von á því að kæmu brtt. frá hv. meiri hluta nefndarinnar. Það er þó viðurkennt af hálfu þeirra sem sömdu frv. að það gleymdist hreinlega að taka tillit til EES-réttarins. Eigi að síður er að mati meiri hlutans engin ástæða til að taka það hér upp í brtt.

Frumvarpið felur enn í sér alvarlega íhlutun í fjölmiðlamarkaðinn. Það gengur enn þá mun lengra en nauðsynlegt er til að bregðast við þeim meinta vanda sem því er ætlað að leysa. Það gæti reynst samkeppnishamlandi og dregið úr aðgengi fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni. Svo hafa stjórnarliðar, þá einkum ráðherrar, innan þings og utan, sýnt okkur svart á hvítu að undirliggjandi markmið með frv. er að kveða niður óþægilega umræðu tiltekinna fjölmiðla, fjölmiðla sem ,,skaprauna stjórnvöldum með umfjöllun sinni`` svo notuð séu orð hæstv. dómsmrh. úr umræðunum hér, Björns Bjarnasonar.

Þeir sem ekki kaupa þetta frv., sem eru ansi margir, virðulegur forseti, eru í ,,Baugsliðinu``. Þeir ganga erinda auðhringsins sem Davíð Oddsson, riddari réttlætis og lýðræðis, er í hatrammri baráttu gegn. Það er ekki nema von að hæstvirtum forsrh. sé orðið um og ó yfir því hversu margir eru í raun í því sem hann kallar Baugsliðið. Þar er öll stjórnarandstaðan. Þar er lungi þjóðarinnar. Þar eru eigendur Morgunblaðsins. Þar er stór hluti lögfræðingastéttarinnar í landinu. Þar eru stéttarfélögin og sambönd þeirra. Þar er Samkeppnisstofnun. Verslunarráð. Sigurður Líndal, okkar ágæti stjórnlagaspekingur. Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík. Eiríkur Tómasson, prófessor. Svo mætti lengi áfram telja og síðast hefur bæst í lið okkar sem eigum að heita Baugsliðið sjálfur forseti lýðveldisins.

Í þessu andrúmslofti og með þeim aðdraganda sem málið hafði, þar sem sjónir stjórnvalda höfðu lengi beinst að því að koma böndum á tiltekna aðila í íslensku viðskiptalífi, er það ljóst að það er alveg sama hvað ríkisstjórnin reynir að kítta í sprungurnar á þessu máli, það verður aldrei úr því trúverðug lagasetning sem hefur lýðræði og fjölbreytni í fjölmiðlum að leiðarljósi. Það er einfaldlega búið að segja of margt, virðulegi forseti.

Við sjáum hér þriðju útfærsluna á fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar en í reynd er um þá fjórðu að ræða. Eins og öllum er ljóst ræddu forustumenn ríkisstjórnarflokkanna enn eina tillögu á fundum sínum sem lýðum hefur ekki enn verið gerð ljós að því er ég best veit. Við urðum þess áskynja í fréttum nýverið að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna komu enn eina ferðina í fyrradag, keikir og brosandi, reyndar kannski svolítið af þeim dregið eftir allt samningaþófið undanfarna daga, boðandi hina miklu sátt, hina einu sönnu útfærslu á því hvernig tryggja megi fjölbreytni á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Fyrir þá sem eru farnir að ryðga í skrykkjóttri sögu þessa máls er rétt að rifja upp að markmið frv. er sagt vera það að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Það hefur svo margsinnis komið í ljós í umræðum að fyrir þessu markmiði brenna stjórnvöld ekki eins heitt og þau vilja vera láta. Eitthvað annað hangir á spýtunni, virðulegi forseti. Auk þess hélt einn þáttur þessa máls þjóðfélaginu í heljargreipum um nokkurra daga skeið og er það sá þáttur sem lýtur að mögulegu málskoti forseta lýðveldisins til þjóðarinnar. Það ætlaði allt um koll að keyra hjá ríkisstjórninni þegar forsetinn tók upp á því að fara ekki af landi brott í brúðkaup Danaprins á dögunum og höfðu stjórnarliðar uppi stór orð um það að forsetinn væri með óeðlileg afskipti af þinginu. Forsætisráðherra sá sérstaka ástæðu til að benda á að forsetinn væri vanhæfur vegna tengsla sinna við forstjóra Norðurljósa og vegna þess að dóttir hans vinnur hjá Baugi. Hæstv. forsrh. sá ástæðu til að gefa út opinbera skýringu og skoðun framkvæmdarvaldsins á því máli öllu. Hann tjáði sig við fréttamann Ríkisútvarpsins, sjónvarpsins, Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur. Spurningunni hvers vegna hann teldi að forsetinn hefði ekki farið í brúðkaupið og hvað væri að gerast svaraði hæstv. forsrh. með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

,,Það hefur engin fyrirspurn komið frá forsetaskrifstofunni um þessi lög, enginn áhugi þar hvaða lög hafi verið staðfest. Þannig að þetta er eitthvað allt óskiljanlegt, óskiljanleg vitleysa. Og ég trúi ekki að hann sé kallaður heim af einhverjum aðilum úti í bæ. Það er reyndar búið að segja það, ekki við okkur, ekki við mig, ekki við utanríkisráðherra, ekki við forseta þingsins, að forsetinn sé að hugleiða að staðfesta ekki lög frá þinginu, en það virðist vera búið að segja það við Dagblaðið og Stöð 2 og Fréttablaðið`` --- ég vek athygli á því hvaða miðlar það eru sem hæstv. forsrh. vísar hér til --- ,,því þar kemur þetta allt saman fram, en ekki við réttkjörin stjórnvöld í landinu. Þetta er allt saman óskiljanlegt. Forsetinn getur ekki verið að ganga erinda eins auðhrings, hann er forseti allrar þjóðarinnar, það gefur augaleið.``

[11:15]

Forsetinn getur ekki verið að ganga erinda eins auðhrings. Hér er hæstv. forsrh. að gefa það í skyn og fullyrða að forseti lýðveldisins gangi erinda eins auðhrings með því að fara ekki í brúðkaup Danaprins.

Virðulegur forseti. Ég held að þetta síðasta og sterkasta dæmi sem hér er nefnt um þá sem eiga að vera í Baugsliðinu segi kannski mest um þann málflutning sem hæstv. forsrh. hefur haft á lofti í þessu máli.

Hæstv. forsrh. fór mikinn í þessu viðtali. Hann hélt áfram, þegar hann var spurður hvort ástæðan fyrir því að forsetinn hefði ekki farið í brúðkaupið gæti verið sú að hann þyrfti svigrúm til að skoða og íhuga hvort hann staðfesti lögin, og svaraði þessu til, með leyfi forseta:

,,Hann hlýtur að geta íhugað slíka hluti hvar sem hann er. Ef Dagblaðið er búið að tilkynna það í heilli opnu án þess að forsetinn láti þingið vita, ríkisstjórnina vita, að hann sé í Mexíkó að hugsa um að staðfesta ekki lög þar sem hann hefur ekki einu sinni séð breytingartillögurnar þá er eitthvað að gerast sem enginn maður botnar í.``

Reyndar er viðtalið allt með ólíkindum, virðulegur forseti. Hæstv. forsrh. segir síðar í því, með leyfi forseta:

,,Ekkert gerist hér næstu 10--12 daga. Þetta er eitthvað algjörlega óskiljanlegt. Hann talar ekki við neinn`` --- þ.e. forsetinn -- ,,þá nema Dagblaðið og Baug og kosningastjóra sinn, forstjóra Norðurljósa.``

Hér er hæstv. forsrh. að tala um forseta lýðveldisins.

Síðan er hæstv. forsrh. spurður hvort hann haldi að forsetinn muni staðfesta lögin. Forsrh. heldur því fram að forsetinn geti ekki annað, í fyrsta lagi sé þessi málskotsréttur ekki til staðar og í öðru lagi, væri hann talinn vera til staðar væri forseti Íslands talinn vanhæfur í málinu.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvort forsetinn hefði átt að fara í þetta tiltekna brúðkaup. Ég ætla ekki heldur að hafa skoðun á því hvort hann eigi að synja þessu frv. staðfestingar. Það verður hann að eiga við sig og samvisku sína. Ég ætla hins vegar að hafa þá skoðun að þessi málskotsréttur er til staðar í íslensku stjórnarskránni. Það er að mínu mati almenn og viðurkennd skoðun í stjórnskipunarrétti og ég veit ekki til þess að hún hafi verið vefengd af nokkrum prófessor í þeirri fræðigrein í gegnum tíðina.

Þór Vilhjálmsson setur fram kenningu sína í afmælisriti Gauks Jörundssonar fyrir nokkrum árum og einhverjir fleiri hafa síðan dregið þennan málskotsrétt í efa en á mismunandi forsendum þó. Ég tel þær kenningar vera fullveikburða til að ýta úr vegi ótvíræðum bókstaf stjórnarskrárinnar. Í Stjórnskipunarrétti Gunnars G. Schrams segir um þetta að þótt forsetinn sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum öllum gildi það ekki um synjun til staðfestingar hans á lögum enda væri þetta ákvæði með öllu óskiljanlegt ef það ætti að túlka það þannig að forseti léti ráðherra bera ábyrgð á þeirri ákvörðun eins og öðrum. Hér er um að ræða öryggisventil. Þjóðin hefur rétt á að leggja mat á mál í tilteknum tilvikum og það er forseta að meta það hvenær slíkt málskot á við. Hæstv. forsrh. verður bara að lúta því að stjórnarskrárgjafinn setti þennan öryggisventil inn í stjórnarskrána á sínum tíma. Ef hann hefur áhuga á að breyta því getur hann reynt að beita sér fyrir því hér í krafti meiri hluta síns en þessi málskotsréttur er til staðar og hæstv. forsrh. verður að lúta því þótt hann eigi vissulega mjög erfitt með að lúta því að það kunni að vera einhverjir til staðar í þessu þjóðfélagi sem geta sett völdum hans einhver takmörk.

Virðulegur forseti. Þessu ákvæði um málskotsréttinn hefur ekki verið beitt óhóflega eins og alþjóð veit þótt oft hafi vaknað spurningar um beitingu þess. Þótt oft hafi komið upp í umræðunni sú spurning í tengslum við lög og umræðu úr þessum ræðustól að málskotsrétturinn kunni að verða virkur man ég ekki eftir því fyrr að fjölmargir fræðimenn, bæði á sviði stjórnskipunarréttar og stjórnmálafræði, hafi lýst því yfir að það sé tvímælalaust um að ræða slíkt mál eins og nú er. Nú hefur það verið sagt. Því má segja að þeir séu fleiri en nokkru sinni áður sem hafa sagt að í þessu tiltekna tilviki gætu þessar aðstæður verið uppi. Ég veit ekki til þess að nokkur, fyrir utan hæstv. forsrh., hafi síðan leyft sér að kveða upp úr með það hvort forseti ætti að nota þennan rétt eða ekki. Það hafa a.m.k. flestir fræðimenn látið liggja milli hluta og sagt að það sé að sjálfsögðu í valdi forsetans að meta það. Við erum með mál þar sem uppi er vafi um stjórnarskrá, um EES-rétt, um grundvallarmannréttindi eins og tjáningarfrelsið sem er til skoðunar í þessu máli og fleiri mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það er mikil andstaða við málið á meðal fólksins í landinu. Enn ein röksemd fyrir því að hér gæti hugsanlega verið um að ræða mál sem málskotsrétturinn ætti við er sú staðreynd að framkvæmd þessara laga er ekki á dagskrá fyrr en eftir tvö ár. Hún mun ekki hefjast fyrr en eftir tvö ár sem segir það, virðulegur forseti, að það er ekkert stórtjón af því þótt forsetinn mundi nota þessa málskotsheimild og veita þjóðinni þann rétt sem hún hefur samkvæmt stjórnarskrá. Oft hafa verið færð rök fyrir því þegar umræða hefur hafist um þennan málskotsrétt að ef forseti skjóti málinu til þjóðarinnar kunni það að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar, efnahagslegar afleiðingar eða einhverjar aðrar fyrir þjóðina, en það er ekki í þessu tilviki. Við erum að tala um lög sem liggur engin ósköp á að afgreiða hér frá þinginu. Framkvæmd þeirra á ekki að hefjast fyrr en eftir tvö ár.

Ég vil ítreka enn og aftur það sem ég sagði áðan, ég ætla ekki að meta það hvort forsetinn eigi að beita þessari heimild eða ekki, það verður hann að eiga við sjálfan sig og sína samvisku, en ég tel fráleitt að halda því fram að ákvæðið sé dautt.

Um þá miklu lögskýringu sem hæstv. forsrh. lagði fram um það að forsetinn væri vanhæfur, m.a. í mikilli grein í Morgunblaðinu og víðar, ætla ég ekki að hafa mörg orð. Ég held að hún hafi dæmt sig sjálf í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á hana og verið í raun og veru jarðsett af fjölmörgum lögfræðingum. svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Víkjum aðeins að forsögu málsins, virðulegur forseti. Í tiltölulega knappri meðferð allshn. á málinu á milli 1. og 2. umr. komu fram fjölmargar athugasemdir um að málið færi að öllum líkindum gegn nokkrum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þar var minnst á atvinnufrelsið, tjáningarfrelsi, eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu. Það var bent á að frv. fæli í sér alvarlega íhlutun á fjölmiðlamarkaðnum og bryti í bága við meðalhófsreglu íslenskra laga, gæti reynst samkeppnishamlandi í stað þess að tryggja samkeppni og mundi draga úr aðgengi fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni og nýrra aðila að markaðnum, því væri beint gegn einni tiltekinni sjónvarpsstöð og lögin væru þannig sértæk ef þau yrðu samþykkt. Það var bent á EES-skuldbindingar, einkum reglur um staðfesturétt, þjónustufrelsi, fjármagnsflutninga og reglur um lögfræðilega vissu og bann við afturvirkni. Líka hefur verið bent á það að ekki hafi gefist nægilegt svigrúm í meðferð málsins fyrir t.d. efh.- og viðskn. og menntmn. til að ljúka athugun sinni á málinu á milli 1. og 2. umr. Það var gagnrýnt hversu skamman tíma umsagnaraðilar fengu. Það var líka gagnrýnt, sem er mjög alvarlegt mál að mínu mati, að ekki skuli hafa farið fram nein skoðun á rekstrarumhverfi, á heildarumhverfi fjölmiðlunar og dreifingu sjónvarps- og útvarpsefnis eða áhrifum frv. á rekstrarumhverfi starfandi fjölmiðla.

Það er auðvitað vítavert, virðulegur forseti, af hæstv. ríkisstjórn að leggja hér fram illa ígrundað frv., koma fram með breytingar á því aftur og aftur, jafnilla ígrundaðar og frv. var upphaflega og nánast án nokkurs rökstuðnings eins og ræða hv. formanns allshn. benti til hér áðan. Þetta er algjörlega óviðunandi undirbúningur lagasetningar, virðulegur forseti, og ég lýsi allri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni yfir því hvernig þetta mál hefur allt verið unnið frá upphafi.

Breytingartillögurnar sem nú hafa litið dagsins ljós breyta litlu um þá gagnrýni sem minni hlutinn lagði fram við 2. umr. Það var ekki vilji til þess að leita umsagna um þessa tillögu frekar en um aðrar brtt. sem forustumenn stjórnarflokkanna hafa verið að kynna okkur í fjölmiðlum. Þeir hafa kynnt okkur hugmyndir sínar í fjölmiðlum --- það segir heilmikið um vinnubrögð stjórnarinnar. Svo höfum við þurft að leita eftir að fá að sjá þær hjá fjölmiðlafólki frekar en að þær hafi birst hér á borðum þingmanna. Sömu vinnubrögð eru tíðkuð eins og áður. Tilskipanir berast frá forsrn. sem fá stimpil formanns Framsfl., eftir nokkurt þref að vísu, en það er ekki ætlast til mjög ítarlegrar skoðunar eða umræðu.

Framsóknarflokkurinn hefur reyndar látið ólíkindalega í þessu máli. Hann lætur það spyrjast út að óánægja sé í röðum sínum um málið og aðdraganda þess en þrátt fyrir það lítur út fyrir að í mesta lagi einn þingmaður flokksins muni greiða atkvæði á móti því. Hvar eru þá allir tilburðirnir til að streitast á móti málinu? Hvar er þá staðfesta þessa ágæta flokks, virðulegi forseti? Ná hugsanirnar ekki lengra en til þess að láta ólíkindalega, vera óþekk og geta sagst hafa reynt að stöðva málið, það hafi bara ekki tekist?

Virðulegur forseti. Ég lýsi fullkominni ábyrgð á hendur Framsfl. og Sjálfstfl. fyrir að hafa í upphafi lagt þetta óvandaða og illa ígrundaða mál fram og fyrir málsmeðferðina. Stjórnarliðum verður tíðrætt um að við séum alltaf að tala um málsmeðferð og komum okkur ekki að efni málsins. Þetta er alrangt. Efnisumræða um málið fór hér fram þegar skýrsla fjölmiðlanefndarinnar var kynnt og hún hefur farið fram aftur og aftur síðan þá. Hins vegar verður meiri hlutinn að skilja að þegar við erum að tala um tjáningarfrelsið skiptir málsmeðferð og undirbúningur einfaldlega afar miklu máli. Þegar setja á lög sem fela í sér alvarlega íhlutun í málefni einnar tiltekinnar atvinnustarfsemi og þegar setja á lög sem eiga að brjóta upp eitt fjölmiðlafyrirtæki og stefna starfsöryggi fjölda fólks í voða skiptir málsmeðferð miklu máli. Það skiptir máli að undirbúa svoleiðis lög vel, vinna þau þannig að þau gangi ekki lengra en nauðsyn krefur, gera skoðun á því hver raunveruleg áhrif þeirra verða á fjölmiðlamarkaðinn, gefa þeim sem lögin bitna á tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á undirbúningsstigi og á síðari stigum o.s.frv. Þetta skiptir engu máli í hugum hæstv. ríkisstjórnarinnar, málinu skal þröngvað í gegnum Alþingi á nokkrum vikum þrátt fyrir að ekkert, nákvæmlega ekkert, kalli á að þau verði samþykkt strax.

Líklega standa forustumenn ríkisstjórnarflokkanna í þeirri trú að þjóðin verði fljót að gleyma, virðulegur forseti, að þjóðin verði fljót að gleyma þessari málsmeðferð, öllum þessum hraðsoðna undirbúningi og lagasetningunni sjálfri. En mér segir svo hugur um, virðulegur forseti, að svo verði ekki í þetta sinn. Að sjálfsögðu mun tíminn leiða það í ljós.

Ég lýsi líka ábyrgð á hendur báðum þessum flokkum fyrir þær afleiðingar sem þetta mál kann að hafa í för með sér, fyrir rekstur fjölmiðlafyrirtækja í landinu og þar með fyrir tjáningarfrelsið. Ég er þess jafnfullviss og ég var í upphafi að þetta mál er ekki nægilega undirbúið til þess að verða grundvöllur góðrar lagasetningar og það er aldrei ljósara en nú að málinu verður ekki bjargað, alveg sama hvaða breytingar verða gerðar á því. Kappið var meira en forsjáin og ummæli forustumanna stjórnarflokkanna í tengslum við þetta mál hafa sannað það sem stjórnarandstaðan hefur bent á, að tilgangurinn með þessari lagasetningu var ekki að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði, hann var fyrst og síðast sá að koma böndum á tiltekið fjölmiðlafyrirtæki og koma böndum á fjölmiðla sem stunda það ,,að skaprauna stjórnvöldum`` svo að notuð séu þeirra eigin orð.

Meiri hlutinn treystir sér ekki til þess að fá lögfræðiálit óháðra aðila á borð við Lagastofnun Háskóla Íslands og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík til að leita leiða til að eyða allri óvissu um það hvort frv. stæðist stjórnarskrá og EES-reglur. Nei takk, við erum með svo góða lögfræðinga í meiri hluta allshn., við gerum þetta bara sjálf.

Það má segja að meiri hlutanum hafi verið vorkunn hvað þetta varðar því enn hefur ekki fyrirfundist sá sérfræðingur í stjórnskipunarrétti sem vill gefa þessu frv. heilbrigðisvottorð gagnvart stjórnarskrá. Meiri hlutinn klárar sig á þessum hlutum þrátt fyrir að umsagnir séu nánast ein samfelld útreið hvað varðar fjölmörg ákvæði stjórnarskrár og EES-réttar. Sértæk lög, afturvirkni, stríða gegn markmiðum sínum. Alltaf hefur meiri hlutinn komið keikur í ræðustól, fyrst eftir útgáfu eitt, svo aðra útgáfu og svo núna við útgáfu þrjú og sagt: Nú er þetta alveg klárt. Eytt hefur verið allri óvissu. Komið hefur verið til móts við gagnrýnina og engar frekari breytingar verða gerðar.

Virðulegi forseti. Heldur meiri hluti allshn. og heldur ríkisstjórnin að einhver lifandi maður trúi þeim núna þegar þeir koma úr enn einni sendiferðinni úr Stjórnarráðinu og segja: Nú er þetta orðið ansi gott? Sama fólk og varði hér í upphafi þá meðferð að gefa Bylgjunni sex mánaða aðlögunarfrest til þess að aðlaga sig að nýju umhverfi sem hefði þýtt að eigur fyrirtækisins hefðu verið settar á brunaútsölu. Jú, jú, þetta átti allt að standast og vera nauðsynleg aðgerð til þess að bregðast við þeirri miklu vá sem kvaddi dyra hjá íslensku þjóðinni. Sama fólk kemur nokkru síðar og segir að það sé rétt að líklega hafi þetta verið fullbratt, Bylgjan fái tvö ár í aðlögunartíma, það fái allir, en eigi að síður sé nauðsynlegt að afturkalla leyfi þeirra sem eiga þau lengur en til tveggja ára. Það er gagnrýni sem beinist að því að ekki sé heimilt að setja afturvirk lög og að hugsanlega kunni þetta að fela í sér brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og henni er kirfilega svarað með því að gengið hafi verið úr skugga um að þetta standist allt saman. Allt í góðu lagi. Engin ástæða til þess að hlusta á hræðsluáróður um að þetta standist ekki.

[11:30]

Nú skyndilega, í þriðju útgáfu, kemur þetta sama fólk og segir: Allt í lagi, líklega er þetta nú rétt hjá ykkur. Við vorum í fyrstu útgáfu og í þeirri annarri að ganga of nærri stjórnarskránni. Ætli það sé ekki best að við leyfum leyfunum að renna út hægt og bítandi?

Þetta fallast þau á eftir að vakin hefur verið athygli á því í hvaða umhverfi atvinnulífið íslenska býr ef það er háð geðþótta stjórnvalda hverju sinni um hvenær leyfisskyld starfsemi missir leyfin sín. Ríkisstjórnin þarf ekki, virðulegur forseti, annað en það að vakna í vondu skapi og leyfin eru afturkölluð, áður útgefin leyfi kölluð til baka. Það sér hver heilvita maður að svona aðgerðir eru ekki aðeins algerlega óþarfar, heldur eru þær fullkomlega ólíðandi í lýðræðissamfélagi. Sem betur fer hefur hæstv. ríkisstjórn meira að segja séð að sér hvað þetta varðar.

Við getum haldið svona áfram, virðulegur forseti. Í upphafi átti að banna markaðsráðandi fyrirtækjum með öllu að eiga nokkurn skapaðan hlut í ljósvakamiðli. Algerlega nauðsynleg ráðstöfun til þess að bregðast við þeim vanda og þeirri vá sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Reyndar fengust aldrei nein svör þegar ríkisstjórnarliðið var spurt hvar annars staðar í veröldinni slíkt ákvæði væri að finna. Því var heldur ekki mótmælt þegar erlendur sérfræðingur í fjölmiðlarétti fullyrti að slíkt ákvæði þekktist hvergi nokkurs staðar í heiminum. Ekki var gerð úttekt á því hvaða afleiðingar þetta ákvæði eða önnur ákvæði þessa frv. mundu hafa á rekstrarumhverfi fjölmiðlanna á þeim örsmáa markaði sem hér er. Og enn hefur hún ekki verið gerð, virðulegur forseti. Tilgangurinn helgar meðalið, lögin skyldu í gegn og þau skyldu í gegn á þessu þingi. Sama fólk og varði með kjafti og klóm nauðsyn þess að banna með öllu fjárfestingar markaðsráðandi fyrirtækja í ljósvakamiðli kom skömmu síðar með nýja hugmynd sem virtist líka hafa fallið af himnum ofan: Við ætlum að leyfa markaðsráðandi fyrirtækjum að eiga pínulítið í ljósvakamiðlum, 5%. Þegar bent var á hversu mjög þetta ákvæði mundi þrengja að möguleikum fjölmiðlafyrirtækjanna til aðgangs að fjármagni þrátt fyrir breytingarnar var hafist handa við að setja nýjar reglur. Sett var inn ákvæði um að þessi regla ætti bara við um fyrirtæki með tveggja milljarða veltu eða meira. Af hverju tveggja milljarða króna veltan er sett inn er enn óljóst en það var a.m.k. ljóst að menn sáu að sér eftir að bent var á að annað hvert fyrirtæki í landinu, ef ekki meira, gæti verið skilgreint markaðsráðandi. Það mundi fela í sér að Kántríbær á Skagaströnd mætti ekki reka útvarp áfram, Nói -- Síríus mætti ekki eiga í ljósvakamiðli vegna þess að fyrirtækið er skilgreint markaðsráðandi undir vissum kringumstæðum og svo mætti lengi telja.

Sama fólk og taldi enga nauðsyn á því í upphafi að taka á skipan útvarpsréttarnefndar þrátt fyrir að henni væri falið mikið vald taldi nú að líklega væri það rétt. Kannski var það ákveðið eftir að formaður útvarpsréttarnefndar og framkvæmdastjóri Sjálfstfl. kom fyrir allshn. og lýsti því yfir að hann mundi biðjast undan því að starfa í nefndinni með þetta nýja hlutverk. Eitthvað réði a.m.k. þessum snöggu sinnaskiptum hinna knáu talsmanna meiri hluta allshn. sem hér hafði varið málið af fullri hörku í sinni fyrstu mynd.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við allar þær kúvendingar sem hafa orðið í þessu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar frá því það kom fyrst fram. Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd eru nægileg til þess að draga fram hversu illa ígrundað þetta mál er í upphafi og það er það í raun og veru enn. Hæstv. ríkisstjórn hefur í raun ekki hugmynd um hvað þessar tillögur munu þýða. Hún veit það eitt að ef þær verða að lögum mun Norðurljósum verða skipt upp. Kannski það sé tilgangurinn sem helgi meðalið, enn og aftur. Áhrifin á viðkvæman fjölmiðlamarkaðinn til lengdar hafa ekki verið skoðuð.

Í hv. efh.- og viðskn. komu fram ýmsar áhyggjur varðandi þennan þátt málsins. Vísa ég þar til álits meiri hluta efh.- og viðskn. sem fylgir með minnihlutaáliti hv. allshn. í fylgiskjali. Þar kemur m.a. fram, með leyfi forseta:

,,Atvinna fjölmargra starfsmanna í greininni er því sett í uppnám að ástæðulausu, þar sem hægt er að vinna gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar með öðrum og mildari hætti en lagt er til í frumvarpinu. Enn fremur upplýstu Norðurljós að lífeyrissjóðir ættu veðlaus lán hjá fyrirtækinu að upphæð 1 milljarði kr. sem við gjaldþrot gætu alfarið tapast.

Samtök banka og sparisjóða töldu að lögfesting frumvarpsins mundi leiða til þess að fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði gætu að öllum líkindum ekki skráð sig hjá Kauphöllinni. Samtökin lýstu jafnframt þeirri skoðun að slík lög mundu leiða til þess að bankar og fjármálastofnanir gætu ekki lagt til tímabundna aukningu á eigin fé fjölmiðla sem augljóslega takmarkar verulega möguleika fjölmiðlafyrirtækja til að endurskipuleggja rekstur sinn á tímum erfiðleika. Í ljósi þess að rekstrarerfiðleikar hafa verið tíðir hjá fjölmiðlafyrirtækjum á síðustu árum má ætla að þetta feli í sér verulega skerðingu á starfsgrundvelli þeirra.``

Virðulegur forseti. Hér eru áhyggjur sem hafa vissulega komið fram, bæði fyrir hv. allshn. og ekki síður fyrir hv. efh.- og viðskn. Þetta hefur ríkisstjórnin ekkert viljað gera með, virðulegur forseti. Ég lýsi ábyrgð af áhrifum þessarar löggjafar enn og aftur á hendur ríkisstjórninni.

Í fylgiskjali með nefndaráliti minni hluta hv. allshn. er líka að finna álit hv. menntmn. og þar koma líka fram áhyggjur. Ég legg á það áherslu að við sáum ástæðu til að láta fylgja með í þessu fylgiskjali álit bæði meiri og minni hluta því að ella hefðu þau ekki komist í þingskjöl. Meiri hluti allshn. hafði ekki af því miklar áhyggjur en í umsögn minni hluta menntmn. koma fram verulegar áhyggjur af því að verði þetta frv. að lögum geti það haft mjög miklar afleiðingar á fjölmiðlamarkaðinn og þá ekki síst á menningarlega fjölbreytni á fjölmiðlamarkaðnum. Auðvitað bitnar það fyrst á innlendri dagskrárgerð og menningartengdu efni ef þrengir verulega að rekstrargrundvelli fjölmiðla. Þetta er rökstutt mjög vel í áliti minni hluta menntmn. Alþingis sem fylgir með sem fylgiskjal með framhaldsnefndaráliti minni hluta allshn.

Það er líka rétt að rifja það upp hér, virðulegur forseti, að hv. efh.- og viðskn. og menntmn. fengu ekki tíma til þess fyrir 2. umr. að ljúka umsögnum sínum um málið, svo mikið lá á að koma málinu frá allshn. Af hverju lá svona mikið á? Af hverju fengu umsagnaraðilar svo knappan tíma til að skila umsögnum? Af hverju mátti ekki skoða fram á haust þær alvarlegu athugasemdir sem fram komu um málið? Þessari spurningu hefur ekki enn verið svarað. Kannski getur hæstv. utanrrh. sem hér situr og hlýðir á mál mitt svarað því hvað olli því að ekki mátti bíða með lagasetningu þessa fram á haust og skoða hana þá betur þannig að öllum vafa í málinu væri eytt.

Flýtirinn er óskiljanlegur, virðulegur forseti, einkum í ljósi þess mikla vandræðagangs sem hefur einkennt málið og greinilegs ósættis innan a.m.k. Framsfl. Hvers vegna mátti ekki klára að hnýta þá hnúta sem út af stóðu í rólegheitunum og leggja málið fram að nýju að hausti? Það skyldi þó aldrei tengjast því að hæstv. forsrh. verður þá ekki lengur í forsæti ríkisstjórnarinnar, heldur formaður Framsfl.? Getur það verið, virðulegur forseti, að honum sé ekki treyst til að fylgja málinu eftir þegar þar að kemur? Það lítur einna helst út fyrir að þar sé komin skýringin og að hæstv. forsrh. unni sér ekki hvíldar fyrr en búið verður að koma böndum yfir Norðurljósin.

Virðulegur forseti. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni ef þannig er í pottinn búið en ég verð að segja að ég sé ekki neina aðra líklega skýringu á þeim flýti sem þetta mál hefur þurft að hafa hér í þinginu.

Ég hef áhyggjur af því, virðulegur forseti, ef þessu er þannig farið. Ég hef þó meiri áhyggjur af því, virðulegur forseti, að ekki skuli vera meira lýðræðislegt aðhald innan ríkisstjórnarinnar, innan Sjálfstfl. eða af hálfu samstarfsflokksins en raun ber vitni. Að undanskildum, a.m.k. hefur það verið þannig hingað til, skeleggum málflutningi eins hv. þm. framsóknarmanna hefur ekkert heyrst frá Framsfl. nema veikburða uml og kvartanir --- síðan er vilji forsrh. uppfylltur. Þannig lítur þetta út, virðulegur forseti. Ætla ég ekki að hafa um það fleiri orð.

Ég ætla að víkja hér aðeins að þeim breytingum sem nú eru komnar fram hjá meiri hlutanum. Önnur þeirra sem gengur út á að leyfa áður útgefnum útvarpsleyfum að renna út er augljós í ljósi framkominnar gagnrýni á frv. Heimildin til að afturkalla áður útgefin leyfi fól svo augljóslega í sér afturvirkni og brot gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár að meira að segja ríkisstjórnin sá það að lokum þótt það hafi tekið nokkurn tíma. Ég geri ráð fyrir að ríkisstjórnin fallist nú á það sem stjórnarandstaðan benti á strax í upphafi, að fyrirkomulagið eins og það var stæðist ekki stjórnarskrá. Breytingin sem snýr að því að breyta 25% í 35% er lítt rökstudd og kalla ég hér eftir frekari rökum fyrir þeirri breytingu. Telur ríkisstjórnin nú að 25% hafi falið í sér of miklar takmarkanir? Telur ríkisstjórnin nú að hún hafi verið hættuleg stjórnarskránni eða hver er ástæðan fyrir því að þessar breytingar eru gerðar? Því er svarað til, virðulegur forseti, að í greinargerð með þessari brtt. sé verið að koma til móts við þá gagnrýni sem felist í því að hugsanlega kunni þessar reglur að leiða til of mikilla þrenginga og skorts á aðgangi að fjármagni fyrir fjölmiðlana. Virðulegur forseti. Ég vil þá vekja athygli hæstv. ríkisstjórnar á því að gagnrýnin hefur gegnumgangandi gengið út á það að málið verði kallað til baka og skoðað betur. Ef það er vilji fyrir því af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma til móts við þá gagnrýni sem hefur komið fram á málið ætti hún að gera það eitt og vanda sig betur við undirbúning lagasetningarinnar.

Ég vil líka inna eftir því, virðulegur forseti, hvort ekki hafi komið til umræðu á milli stjórnarflokkanna að fella niður bann við krossmiðluninni. Það var a.m.k. fullyrt af fjölmörgum fjölmiðlum að það væri eitt þeirra ákvæða sem Framsfl. vildi fella niður. Svo virðist sem þetta hafi verið einhver misskilningur. Í staðinn birtist hér ný regla um 35% í stað 25%. Ég spyr: Hvað er verið að fara með þessari breytingu? Hver eru rökin fyrir henni?

Virðulegur forseti. Það sem ríkisstjórnin féll á í þessu máli var í raun heimatilbúið tímahrak, tímahrak sem snýst um þá einföldu staðreynd að fram undan eru stólaskipti í forsrn. og þau hafa í för með sér hræringar í ríkisstjórninni. Ef traustið hefði verið nægt og eindrægni hefði ríkt í stjórnarliðinu hefði ekki komið til þess að nauðsynlegt hefði talist að afgreiða málið áður en skipt verður um forsrh. Það hefði einfaldlega nægt að ákveða að lögin skyldu unnin áfram þar til ljóst væri hverjar afleiðingar þeirra yrðu og þar til skýrara yrði hvort þau stæðust stjórnarskrá og EES-reglur. Að sjálfsögðu hefði verið eðlilegt eftir alla þá gagnrýni sem kom fram á frv. í umsögnum að setjast aftur yfir málið og leggja það fram í nýjum og vandaðri búningi, að taka með inn í þann pakka ýmislegt er lýtur að Ríkisútvarpinu eins og fjölmiðlanefndin lagði til, að sjá til þess að gagnsæi á eignarhaldi væri tryggt, að leita leiða til þess að koma á raunverulegu ritstjórnarlegu sjálfstæði og að vernda starfsumhverfi blaðamanna þannig að þeim verði gert kleift að vinna sjálfstætt og án íhlutunar eigenda sinna. Þetta eru brýnustu verkefnin í íslensku fjölmiðlaumhverfi, virðulegur forseti.

Það hefði líka verið rétt að hyggja að því hvort samkeppnislögin mætti ekki skoða til að ná betur fram því markmiði að koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum. Það hefði líka verið gott ef ríkisstjórnin hefði verið tilbúin að skoða tilmæli Evrópuráðsins um útvarp í almannaþágu og tryggja Ríkisútvarpinu sjálfstæði frá ríkisstjórninni í takt við þær hugmyndir sem lagðar hafa verið til hjá Evrópuráðinu. Þar á bæ er formaður útvarpsráðs sjálfstæðismaður. Útvarpsstjóri er sjálfstæðismaður. Formaður útvarpsréttarnefndar er framkvæmdastjóri Sjálfstfl. Hefur Sjálfstfl. eða hefur Framsfl. engar áhyggjur af því að hugsanlega kunni að eiga sér stað einhver óeðlileg afskipti stjórnenda á þessum ágæta miðli? Þarf ekki að tryggja fjölbreytni á þeim miðli, virðulegur forseti?

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Í stuttu máli vil ég segja að þetta frv. ætti að senda aftur til föðurhúsanna. Því verður ekki bjargað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að klastra í sprungur þess. Ég lýsi yfir ábyrgð á hendur ríkisstjórnarflokkunum báðum, Framsfl. og Sjálfstfl., fyrir að bjóða þingi og þjóð upp á þetta frv. og gildir þá einu hvort sjónum er beint að efni þess eða málsmeðferðinni sjálfri.