Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:03:54 (8652)

2004-05-19 12:03:54# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:03]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Það var ánægjulegt að sjá hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, formann Framsfl., hér í ræðustóli að verja fjórðu útgáfuna af frv. þeirra félaga, hans og hæstv. forsrh., og gaman að heyra að hann er nú algjörlega sannfærður, eins og hann reyndar var í öll hin fyrri skiptin, þau sem af fréttist, um ágæti þessa frv.

Við hæstv. utanrrh. eigum fátt sameiginlegt en eitt af því er að við sitjum hér báðir sem þingmenn Reykvíkinga í fyrsta sinn. Erindi mitt þessa mínútu sem ég hef til umráða í ræðustóli er að spyrja hann hvernig hann taki þeirri ósk meiri hlutans í Reykjavíkurborg fyrir hönd allra Reykvíkinga, undir leiðsögn Alfreðs Þorsteinssonar borgarfulltrúa, og í liðinu er Anna Kristinsdóttir borgarfulltrúi, að þetta frv. fái ekki framgang hér á þinginu og að hugað verði að atvinnumálum fjölmiðlamanna í Reykjavík í þessu sambandi.