Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:17:09 (8664)

2004-05-19 12:17:09# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki hefur hæstv. utanrrh. tekist að útskýra af hverju svona gríðarlega mikið liggi á að leggja þetta frv. fram.

Nú er reglum þessa frv. þannig háttað að fjölmiðlafyrirtæki þurfa að hafa af því miklar áhyggjur að eigendur þeirra njóti ekki of mikillar velgengni í viðskiptalífinu. Ef velta þeirra fer yfir tvo milljarða verður 5% reglan virk og þar af leiðandi þurfa menn að losa sig við 30% eignarhlut í fjölmiðlafyrirtækinu. Þetta er ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, virðulegur forseti, að þarna sé velgengni eigendanna ein stærsta ógnin við fjölmiðlafyrirtækin, eins og ég skil þessa reglu. Ég hlýt að spyrja hæstv. utanrrh., af því að hann er líka endurskoðandi, hvort hann telji ekki mikið óöryggi fylgja þessari reglu og mikið óöryggi fyrir rekstrarumhverfi fjölmiðlafyrirtækjanna, að þurfa sífellt að hafa áhyggjur af því að þeim fyrirtækjum sem eiga í hlut gangi ekki of vel.