Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 12:21:44 (8668)

2004-05-19 12:21:44# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Nú erum við komin í 3. umr. þessa frv. sem við höfum meira eða minna verið pínd til að fjalla um á þessum vettvangi. Við sem hér höfum tekið hvað virkastan þátt í umræðunni höfum haldið því fram að henni sé ritstýrt af formönnum ríkisstjórnarflokkanna og það sé sett á hana lok, henni sé ekki heimilað að þroskast á eðlilegan, lýðræðislegan hátt. Það er tímanna tákn og tákn um það sem ég hef sagt hér að nú skuli hundruð manna standa úti á Austurvelli og veifa rauðum spjöldum hingað, í átt til þeirrar ríkisstjórnar sem lagt hefur fram þetta frv., sem pínt hefur þessa umræðu áfram af óbilgirni, óðagoti og offorsi. Þetta fólk stendur hér úti og það er beygt undir valdboð að ofan, að því er sagt er frá lögregluyfirvöldum. Þeim er bannað að nota hljóðkerfi á mótmælafundi þeim sem boðað hefur verið til og stendur yfir hér fyrir utan gluggann þessa stundina.

Alþingishúsið var girt af eldsnemma í morgun til að íbúar landsins, fólk sem vill láta ríkisstjórnina heyra í sér, kæmist ekki of nálægt Alþingishúsinu. Síðan var hljóðkerfinu þeirra kippt úr sambandi eða þeim bannað að þau fengju að nýta tæknina til þess að koma máli sínu til skila til þess hóps sem stendur á Austurvelli. Þessi vinnubrögð eru til marks um það sem hér hefur verið gagnrýnt í umræðu um nákvæmlega þetta mál, skort á lýðræðislegum vinnubrögðum. Það er skortur á viljanum til að hlusta á málefnalega umræðu, málefnaleg rök. Ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að hlusta á stjórnarandstæðinga hér í þessum sal og hún er heldur ekki tilbúin til að hlusta á fólkið í landinu sem reynir nú að ná eyrum hennar úti á Austurvelli. Það er ekki skrýtið þó að manni renni í skap við þessa umræðu alla sem hefur verið með þeim hætti að sannarlega er ekki sómi að fyrir ríkisstjórnina.

Nú höfum við, gagnrýnendur þessa frv., fengið að heyra það í umræðunni hvað eftir annað að við höfum verið ómálefnaleg í ræðum okkar, það hafi skort á málefnaleg rök í umfjöllun okkar um þetta efni. Ég vil, frú forseti, mótmæla því harðlega. Ég vil vísa slíkri gagnrýni á bug og held því fram með fullum rétti og fullri sannfæringu að þær ræður sem fluttar hafa verið af hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar í þessu máli við 1. og 2. umr. hafi allar meira eða minna byggst á málefnalegum rökum, á málefnum sem tengjast beinlínis inn á það frv. sem hér er um rætt. Ég vil lýsa því yfir að það var auðvitað til skammar við 2. umr. að stjórnarliðar hér í þingsal skyldu ekki koma til umræðunnar fyrr en á elleftu stundu, þegar hún var búin að standa í þrjá eða fjóra daga, og þá gagnrýna okkur fyrir að hafa haft uppi málþóf. Að þeir væru tilbúnir til að svara gagnrýni okkar og svara málefnalegum rökum okkar í umræðunni meðan við höfðum yfir einhverjum ræðutíma að ráða var af og frá.

Ég held að ég muni það alveg rétt að einungis einn þingmaður Framsfl. hafi tekið til máls í þeirri umræðu, 2. umr., en ég vona svo sannarlega að mælendaskráin nú, þó að ég hafi ekki athugað það, sé fjölbreytt og að við getum fengið að takast hér á um þessi sjónarmið við stjórnarliðana, við hv. þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl., svo að við þurfum ekki að standa á eintali við okkur sjálf, stjórnarandstæðingarnir. Ég treysti því að hér fari fram skoðanaskipti um málefnin í dag meðan þessi umræða, 3. umr., stendur yfir.

Frú forseti. Ég hef sagt það hér áður og ætla að leyfa mér að endurtaka það í örstuttu máli að í mínum huga skipta fjölmiðlar verulegu máli í lýðræðislegu tilliti og þeir skipta verulegu máli í menningarlegu tilliti. Þess vegna skiptir það máli að við fjöllum um fjölmiðlana í lýðræðislegri umræðu, bæði meðal stjórnmálamanna, meðal fræðimanna, úti á akri fjölmiðlanna sjálfa og meðal almennings. Fjölmiðlar eru áhrifamikið afl í samfélagsumræðunni og þeim er hægt að beita sem valdatæki. Þess vegna skiptir vald yfir fjölmiðlum máli. Þess vegna skiptir eignarhald yfir fjölmiðlunum líka máli. Þess vegna höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ævinlega verið tilbúin til að ræða um umhverfi fjölmiðla, starfsumhverfi fjölmiðla og lagaumhverfi þeirra, jafnvel með það í huga að sett yrðu lög eða reglur um starfsemi þeirra. Til marks um það hefur verið dregin hér fram í þessari umræðu till. til þál. um könnun á starfsumgjörð fjölmiðla sem hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Álfheiður Ingadóttir, var 1. flm. að og flutti ásamt með öðrum þingmönnum úr öllum flokkum, nema að vísu Samf. Sú tillaga var lögð hér fram í nóvember, fékk ekki brautargengi, en til hennar hefur verið vitnað í þessari umræðu. Ég lýsi enn og einu sinni yfir að sú tillaga gekk út á það að lýðræðisleg umræða yrði sköpuð, henni yrði skapaður jarðvegur til að eiga sér stað, og hefði verið betur ef ríkisstjórnarmeirihlutinn hefði viljað líta til þeirrar umræðu þegar hann síðan fór af stað óundirbúið og að því er virtist í offorsi. Allar þær hugmyndir sem tillagan okkar gerir ráð fyrir, þessi þáltill. sem ég hér dreg inn í umræðuna, hafa meira eða minna verið sniðgengnar og alls ekki til þeirra horft af ríkisstjórninni þegar hún hefur farið fram með málið á sínum nótum.

Hér hefur verið farið fram með valdboði í stað samtals. Eins og ég segi er fólkið á Austurvelli til marks um það að brot gegn valdstjórninni sé ríkisstjórnarmeirihlutanum verulegur þyrnir í augum. Ríkisstjórnin hefur komið þannig fram í hverju málinu á fætur öðru að almenningi er nóg boðið og hefur nú ákveðið að safnast hér saman og mótmæla framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu tilliti, ekki bara í því máli sem við hér fjöllum um heldur í fleiri málum sem nefnd hafa verið í fréttatilkynningu frá hópnum sem stendur að mótmælunum.

Við stjórnarandstæðingar sem höfum andmælt frv. höfum fyrst og síðast sagt við ríkisstjórnina: Hvers vegna hefur ekki verið veitt svigrúm fyrir umræðuna? Hvers vegna má ekki gefa málinu lengri tíma? Við því hafa engin svör komið. Hæstv. utanrrh. stóð hér í pontu á undan mér og lagði verulega áherslu á að málinu yrði lokið á Alþingi hratt og örugglega. Hann segist ekki hafa neinar áhyggjur af því þótt skoðanir um málið séu skiptar, jafnvel ekki hjá meiri hlutanum í borgarstjórn, Reykjavíkurlistanum, sem hefur nú ályktað um þetta mál og biður ríkisstjórnina að fara sér hægt og skoða t.d. atvinnuöryggi fólks á Reykjavíkursvæðinu. Hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., segist ekki hafa neinar áhyggjur af atvinnuástandinu í Reykjavík, um málið séu einfaldlega skiptar skoðanir og umfram allt þurfi að ljúka því á Alþingi.

[12:30]

Virðulegi forseti. Ljúka því hvernig? Á forsendum ríkisstjórnarinnar. Eingöngu á forsendum ríkisstjórnarinnar. Hæstv. utanrrh. vill halda umræðunni áfram en bara á forsendum ríkisstjórnarinnar, ekkert annað má koma þar að til að trufla ekki, og alls ekki má gefa tíma eða aukið svigrúm fyrir frekari skoðun.

Þetta er auðvitað ekki til sóma, frú forseti. Þótt umræðan hafi verið löng og ítarleg og margt hafi komið fram í henni er samt sem áður hrópleg sú staðreynd að rökum okkar og spurningum til ríkisstjórnarinnar hefur ekki verið svarað. Menn fara í herbúðir sínar eftir hverja umræðu hér og gera breytingar á frv. til þess, eftir því sem manni virðist, að þeir geti sagt að þeir taki tillit til umræðunnar. Þeir þykjast vera að betrumbæta frv. milli umræðna sem segir okkur hversu hrikaleg hrákasmíð það hefur verið þegar það kom fyrst fram í þeim búningi sem hæstv. forsrh. lagði það fram í þegar greinargerð fjölmiðlanefndarinnar var til umfjöllunar í ríkisstjórninni. Síðan er búið að gera í þrígang verulegar breytingar á hugmyndinni. Engar af þessum breytingarhugmyndum hafa fengið nægilegt svigrúm til umfjöllunar, hvorki í nefndum þingsins né inni í þessum sal eða meðal fræðimanna, almennings eða fjölmiðlamanna sjálfra.

Eftir allar þessar brtt. standa enn óbreyttar og óhaggaðar þær ávirðingar sem umsagnaraðilar þessa frv. hafa komið fram með í nefndavinnunni, spurningar sem lúta að því hvort markmið frv. náist í raun og veru, spurningar um hvort meðalhófsreglunni sé fylgt og hvort farið sé að Evrópurétti og þá ekki hvað síst mannréttindasáttmála Evrópu.

Varðandi meðalhófsregluna er rétt að hér sé enn einu sinni tíundað að hún er lögð til grundvallar íslenskum dómum. Ég hygg að hér hafi áður verið nefnt í umræðunni að við höfum a.m.k. tvo mjög fræga dóma, nýlega kvótadóma, sem ganga út frá meðalhófsreglunni þar sem henni eru gerð góð skil. Dómaframkvæmdin íslenska er að verða sú að meðalhófsreglan er við lýði og hennar verður auðvitað að gæta í þeim dómum sem eflaust eiga eftir að falla á grundvelli þess máls sem við hér fjöllum um, sem ríkisstjórnin er að reyna að koma í gegnum þingið.

Sú sem hér stendur á sæti í menntmn. þingsins og er að auki áheyrnarfulltrúi í allshn. Ég vil gera að sérstöku umfjöllunarefni þá umsögn sem minni hluti menntmn. skilaði til allshn. eftir nokkra skoðun í þeirri nefnd og birt er núna á þskj. 1724 með framhaldsnefndaráliti minni hluta allshn. Það segir auðvitað sína sögu að meiri hluti allshn. var ófáanlegur til að líta svo á í gærkvöldi á fundi nefndarinnar að málið hefði verið tekið aftur inn til umfjöllunar í nefndinni. Þó að málið væri formlega á dagskrá hennar, tíundað sem 2. liður í útgefinni dagskrá, og þó svo að verið væri að kynna brtt. meiri hluta nefndarinnar með greinargerð fyrir nefndarmönnum þverskölluðust hv. þm. stjórnarliðsins við að viðurkenna að málið væri formlega á dagskrá nefndarinnar, þ.e. hefði verið tekið inn í hana til frekari umfjöllunar. Hvers vegna var þessi tregða í hv. stjórnarliðum í allshn.? Það er ósköp einfalt, frú forseti. Auðvitað vegna þess að þeir vildu ekki láta greiða hér afbrigði um einhver þingskjöl og brtt. sem væru komin inn í þingsal. Eftir að umfjöllun nefndar lýkur þarf ákveðinn tími að líða áður en taka má mál á dagskrá til þess að þingmenn fái ráðrúm til að kynna sér þau þingskjöl sem nefndirnar skila. Þeir voru að reyna að forðast að einhver dráttur gæti orðið á málinu svoleiðis að það var formlega ekki tekið inn í nefndina aftur heldur kynntu hv. þm. eingöngu plagg sem hafði að geyma brtt. sem auðvitað hver og einn þingmaður getur lagt fram hvenær sem er í umræðunum og þarf svo sem ekki nein sérstök afbrigði til að koma slíkum gögnum í dreifingu. Hefði málið verið tekið formlega inn til nefndarinnar tel ég að ekki hefði verið hægt að taka nefndarálitið og brtt. á dagskrá fyrr en að afloknum ákveðnum fresti. Þetta er enn eitt dæmið um flýtimeðferðina sem er til staðar í málinu hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins.

Þessu er lýst í nokkrum orðum í því framhaldsnefndar\-áliti sem ég hef hér farið yfir og við í minni hlutanum lýsum vanþóknun á þessum viljaskorti meiri hlutans til að skoða í alvöru efnisþætti málsins. Við áteljum stjórnarliðana í allshn. fyrir það að hafa ekki tekið formlega á dagskrá þær umsagnir sem meiri hluti efh.- og viðskn. og minni hluti menntmn. komu með til nefndarinnar þar sem lýst er efasemdum um að frv. nái markmiðum sínum.

Það er ekki annað að sjá en að með brtt. meiri hlutans, þessum brtt. sem koma nú í fjórðu útfærslu málsins, sé staðfest hversu illa ígrundað og óvandað málið er eins og við í minni hlutanum, hv. þm. stjórnarandstöðunnar, höfum bent á allan tímann. Þar sem ég átti sæti í menntmn. þegar fjallað var um málið þar er rétt að ég reifi í örfáum orðum þau sjónarmið sem þar komu fram. Minni hlutinn leit svo á að allshn. hefði sent málið til skoðunar í menntmn. á þeirri forsendu að útvarpslögin sem hér er breytt, nr. 53/2000, heyrðu undir málasvið nefndarinnar og þess vegna hefði verið ætlast til þess að nefndin skoðaði sérstaklega þau mál sem heyrðu til þeim lögum.

Það er mat okkar í minni hluta menntmn. að þörf hafi verið á því að beina sjónum sérstaklega og vandlega að menningarlegu og lýðræðislegu hlutverki fjölmiðla og skoða frá því sjónarhorni hvort yfirlýst markmið frv. um að tryggja æskilega fjölbreytni í íslenskum fjölmiðlum og hlúa að því lykilhlutverki sem fjölmiðlum er ætlað næðist. Við teljum að skoðun á þessum atriðum hefði átt heima í menntmn. og eðlilegt að hún færi ofan í saumana á þessum málum til að tryggja að hér væri á ferðinni mál sem gæti nálgast það að ná markmiðum sínum.

Að aflokinni umfjöllun í rúma tvo tíma hjá menntmn. var málið tekið út úr nefndinni og minni hlutanum heimilað að gefa sérumsögn því ekki fannst meiri hluta menntmn. neitt athugavert við málið og sendi inn afar jákvæða umsögn sem gengur bara út á það að málinu er fagnað, framkomnum brtt. er fagnað sem þá lágu fyrir frá allshn., og taldi meiri hlutinn að eftir samþykkt þeirra yrði ekki frekari breytinga þörf. Nú hefur aldeilis annað komið á daginn því nú liggja fyrir nýjar breytingar frá allshn. eins og kunnugt er.

Það var mat minni hluta menntmn. að brtt. allshn. breyttu í engu því mati minni hlutans að ekkert benti til þess að markmið frv. um æskilega fjölbreytni í fjölmiðlun á Íslandi mundi nást yrði þetta frv. að lögum. Minni hlutinn tekur einnig undir þá fullyrðingu sem fram kemur í athugasemdum við frv. að það sé mikilvægt að fjölmiðlar standi undir þeirri kröfu að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttum, sjálfstæðum og öflugum fjölmiðlum. Við vekjum athygli á því að forsenda þessarar kröfu er sú að á Íslandi séu til slíkir fjölbreyttir, sjálfstæðir og öflugir fjölmiðlar. Við getum þess líka í umsögn okkar að í fjölda umsagnanna sem við fengum hafi verið bent á hættuna af því að aðgerðirnar sem frv. kynnir gætu orðið til þess að veikja þá fjölmiðla sem nú starfa, mögulega leggja suma þeirra að velli. Sömuleiðis gerum við athugasemdir við það að þessi fyrirhugaði lagarammi skerði rekstrargrundvöll fjölmiðlanna svo til frambúðar að hætt sé við því að mjög dragi úr framlagi þeirra til íslenskrar menningar, m.a. með innlendri dagskrárgerð, í ljósvakamiðlum. Við teljum einnig og getum um það í umsögn okkar að slík þróun veiki stöðu íslenskrar tungu á fjölmiðlavettvangi en við athugun málsins er í mikilvægum umsögnum bent á það að íslenskir fjölmiðlar séu nú í samkeppni við erlenda að því marki að aldrei hafi þekkst annað eins í þjóðarsögunni.

Frú forseti. Minni hluti menntmn. heldur því fram að flest bendi til þess að ekki skorti einungis á að frv. nái yfirlýstum markmiðum sínum ef að lögum verður heldur sé einnig sennilegt að ákvæði frv. vinni beinlínis gegn þessu markmiði, beinlínis gegn því að markmið þess náist og að með samþykkt þessa frv. muni beinlínis stuðlað að aukinni fábreytni í efnisframboði, dagskrárgerð og lýðræðislegri umfjöllun.

Verði niðurstaðan sú bitnar frv. ekki einungis á fjölmiðlunum, starfsfólki þeirra og aðstandendum starfsfólksins heldur bitnar það beinlínis á margvíslegu menningarstarfi sem tengist fjölmiðlum á Íslandi og verður hreinlega til þess að þrengja að vaxtarmöguleikum íslenskrar menningar og takmarka á alla lund. Þetta eru röksemdir minni hluta menntmn. varðandi það að það séu veruleg áhöld um að frv. nái markmiðum sínum. Enn hefur ekki heyrst neitt sem heitið getur í hv. þingmönnum stjórnarliða sem hrekur þessi sjónarmið og þær staðreyndir sem við höfum velt upp í áliti minni hlutans í menntamálanefndinni.

Við teljum í minni hluta menntmn. að til þess að ná þessum markmiðum sem við höfum í sjálfu sér ekki lýst neinni andstöðu við þurfi að fara aðrar leiðir, leiðir þar sem meðalhófsreglu er gætt, þar sem það er tryggt að fjölmiðlar veikist ekki og þar sem það er tryggt að lýðræðissamfélaginu og íslenskri menningu verði unnið gagn með lagasetningunni en ekki verulegt ógagn eins og bendir til að hér geti verið upp á teningnum verði þetta frv. að lögum. Leiðir þær sem nefndar eru í áliti minni hluta allshn., sem er mikið að vöxtum, eru að skapi minni hluta menntmn. og við teljum að þær þurfi að skoða sérstaklega. Við bendum sérstaklega á eitt atriði sem kemur helst til greina, einmitt það að efla þjóðarútvarpið okkar, Ríkisútvarpið. Það erum við búin að segja í þessari umræðu. Þegar verið er að ræða um fjölmiðlamarkaðinn í stóru samhengi þurfum við auðvitað að skoða gaumgæfilega hlutverk Ríkisútvarpsins og tryggja að því verði mótað glöggt forustuhlutverk og það verði viðurkennt sem einn af máttarstólpum íslenskrar menningar. Það verður að segjast eins og er að sú staðreynd að málefni Ríkisútvarpsins hefur ekkert borið á góma í umræðunni, þ.e. af hálfu stjórnarliðanna, þó að við höfum verið að reyna að nefna það til sögunnar, stjórnarandstæðingar, segir sína sögu, sérstaklega þegar yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna eru skoðaðar. Þegar fjölmiðlaskýrslan var nýútkomin og frv. forsrh. hafði litið dagsins ljós sáu þeir ástæðu til að vega að Ríkisútvarpinu, vil ég segja, á þeim nótum sem ósæmilegt er í mínum huga, með því að halda því fram að afnotagjöldin af Ríkisútvarpinu væru úrelt og það þyrfti að finna því eitthvert nýtt fyrirkomulag.

Það að slengja fram fullyrðingum af þessu tagi í viðkvæma umræðu þegar hún er á frumstigi er beinlínis ábyrgðarhluti og það hefur gert okkur nánast ókleift að fjalla af nokkru viti um málefni Ríkisútvarpsins tengt þessu frv., jafnvel þó að í greinargerð fjölmiðlanefndarinnar sé um það getið að hægt sé að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar á miklu mildari hátt en frv. gerir ráð fyrir, jafnvel eingöngu með því að efla stöðu Ríkisútvarpsins. Þegar við höfum spurt hvers vegna sú leið hafi ekki verið farin, hvers vegna ekki hafi verið skoðaður sá möguleiki, er fátt um svör.

Minni hluti menntmn. tekur undir allar ábendingar minni hluta allshn. sem koma fram í yfirgripsmiklu áliti þeirrar nefndar, t.d. varðandi það að enn hafi ekki verið skorið úr um alvarleg álitamál um það hvort frv. standist ýmis mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar okkar verði það að lögum og þessar spurningar hvort það skerði tjáningarfrelsi Íslendinga. Það er einnig óljóst um stöðu þess gagnvart Evrópurétti og minni hluti menntmn. átelur það. Hann átelur líka málsmeðferðina sem viðhöfð hefur verið við umfjöllunina og afgreiðslu þessa máls á öllum stigum og hefur mótmælt vinnubrögðum meiri hluta menntmn. sem ákvað að ljúka umfjöllun um málið eftir þann rúmlega tveggja tíma fund með sex gestum sem lýst er í umsögn minni hluta nefndarinnar.

[12:45]

Að lokum segir í umsögn minni hlutans orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er mat minni hlutans að eðlilegt sé að þroska umræðuna um stöðu fjölmiðla á Íslandi á opinn og lýðræðislegan hátt, án núverandi tímapressu og pólitísks þrýstings frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Í tengslum við slíka umræðu þyrfti líka að athuga rækilega tiltæk fræðileg gögn um fjölmiðlun á Íslandi og gera sérstakar rannsóknir, en verulegur skortur er á fjölmiðlarannsóknum hér á landi. Af framansögðu má ljóst vera að minni hluti menntamálanefndar telur málið vanreifað og ótækt til afgreiðslu. Minni hlutinn tekur því undir þá tillögu minni hluta allsherjarnefndar að frumvarpinu verði vísað frá.``

Eins og kunnugt er hefur sú tillaga verið felld í atkvæðagreiðslu á hinu háa Alþingi, því miður, samkvæmt valdboði frá formönnum stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., auðvitað við talsvert mikla óánægju og sérstaklega áberandi óánægju þingmanna Framsfl.

Í kjölfar þeirra brtt. sem nú liggja fyrir á þskj. 1723 hafa komið upp ýmsar spurningar. Ég vil gera eina spurningu hér sérstaklega að umfjöllunarefni, frú forseti, en hún varðar spurningar og vangaveltur sem koma fram í máli Hróbjarts Jónatanssonar hæstaréttarlögmanns í fréttaviðtali á Stöð 2 þann 18. maí sl. Vangaveltur Hróbjarts og fyrirvarar lúta að brtt. sem gerð er grein fyrir í 1. tölul. brtt. meiri hluta allshn. þar sem talað er um hlutfallstölurnar 35% og 25%, þ.e. að nú verði fyrirtæki sem er í markaðsráðandi stöðu gert kleift að eiga allt að 35% í ljósvakamiðli sé ársvelta viðkomandi fyrirtækis undir tveimur milljörðum kr. Síðan er afleiðing af þessari brtt. sú að ef ársveltan fer yfir tvo milljarða mun fyrirtækið ekki geta átt nema 5% í ljósvakamiðli.

Þetta hefur vakið spurningar hjá téðum hæstaréttarlögmanni og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kom lauslega að þessu máli í andsvari við hæstv. utanrrh. áðan. Þessi brtt. mun gera það að verkum að fyrirtæki sem má segja að sé blómlegt og vaxi og dafni gæti átt það á hættu að þurfa að losa sig við útvarps- eða sjónvarpsstöð sem það hefur átt hlut í, eða á, af því að rekstur þess hefur gengið of vel, það hefur stækkað umfram þessi mörk sem gert er ráð fyrir í brtt. Segir Hróbjartur að þetta ákvæði brtt. geti þess vegna dregið úr áhuga margra fyrirtækja á að fjárfesta í fjölmiðlum, auk þess sem það geti haft lögfræðilegar flækjur í för með sér. Hann segir orðrétt í fréttinni, með leyfi forseta:

,,Nú er gert ráð fyrir því að fari veltan upp fyrir tvo milljarða þá missi fyrirtækið hæfið til þess að eiga í ljósvakamiðlinum og verður annaðhvort að laga sig að skilyrðunum eða selja. Og það er ekki líklegt að fyrirtækið lagi sig að skilyrðunum með því að minnka veltuna. Það gefur augaleið. Þannig að þá er eftir að selja og útvarpsréttarnefnd getur skikkað viðkomandi aðila að selja sinn hlut á einum mánuði. Takist það ekki þá er gert ráð fyrir því að viðskiptaráðherra fái til sín söluumboð og feli verðbréfafyrirtæki að selja hlutinn. En það sem ég set spurningarmerki við er það að ekki er gert ráð fyrir því við hvaða verði hluturinn er seldur. Og þá er það spurningin, verður viðkomandi eigandi að sætta sig við þá verðlagningu sem viðskiptaráðherra og verðbréfafyrirtækið ákveður?``

Ég er ekki hissa þó að hæstaréttarlögmaðurinn segi að þetta ákvæði frv. komi sér ankannalega fyrir sjónir. Hann segir það beinlínis afbrigðilegt að þarna sé manni gert að láta frá sér eign án þess að geta raunverulega haft um það að segja, og það er auðvitað mjög óvenjulegt. Hverju svarar hv. formaður allshn. þessum spurningum hæstaréttarlögmannsins? Er það eðlilegur framgangsmáti að eignaupptaka fari fram með þeim hætti að viðskrh. geti selt eignir fyrirtækja og einstaklinga úti í bæ við því verði sem viðskrh. sjálfum þykir henta án þess að eigandinn hafi nokkuð um það að segja? Mér finnst hér uppi afar stórt álitamál sem ég trúi ekki öðru en að einhver svör komi við þó að sannfæring mín sé kannski ekki mjög mikil þegar ég horfi yfir salinn og sé að sem fyrr situr enginn ráðherra á ráðherrabekkjunum.

Nú spyr ég hæstv. forseta: Ætla hæstv. ráðherrar að láta sig vanta í húsið við þessa 3. umr. eins og þeir gerðu megnið af tímanum sem við ræddum málið við 2. umr.?

(Forseti (JóhS): Forseti getur að vísu ekki svarað því en það eru nokkrir ráðherrar hér í húsinu ef hv. ræðumaður óskar eftir að kallað verði í þá.)

Ég held að það væri rétt að hæstv. forseti segði hæstv. forsrh., hæstv. menntmrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. samgrh. að þingmenn geri ráð fyrir því að þeir séu hérna við umræðuna. Þau voru hér ekki við 2. umr. og það er fjöldinn allur af spurningum sem þarf að beina til þessa fólks, m.a. sú sem ég hér hef orðað varðandi þátt viðskrh. í þessu máli, þannig að ég held að þessir fjórir ráðherrar ættu að fá að vita að hér sé óskað eftir viðveru þeirra. Ég nenni samt ekki að bíða eftir því að þeir drusli sér hingað inn.

(Forseti (JóhS): Því verður komið áleiðis til ráðherranna.)

Takk, og afsakið orðbragðið.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt mjög langt núna, frú forseti, en ég get þó ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um það sem mér verður alltaf hugleikið þegar ég fer að hugleiða þetta, þ.e. hverjir eru þeir sem hafa skapað jarðveginn fyrir fjölmiðlana í dag? Hverjir eru þeir sem hafa skapað þann jarðveg sem stjórnarliðar og stjórnarflokkarnir telja nú lífsnauðsyn að plægja upp? Það eru auðvitað fyrst og síðast sjálfstæðismenn. Hverjir hafa setið í menntmrn. nær óslitið frá 1983? Það er auðvitað Sjálfstfl. Hver ber þá ábyrgð á því umhverfi sem fjölmiðlum hefur verið búið eftir að frelsið á ljósvakamarkaðnum hélt innreið sína? Það eru, virðulegi forseti, sjálfstæðismenn fyrst og síðast.

Það er nokkuð írónískt að útvarpsstjóri, Markús Örn Antonsson, skuli skrifa grein í Morgunblaðið á mánudaginn, þann 17. maí, þar sem hann átelur og fellir nánast áfellisdóm yfir þessum stjórnvöldum sem hingað til hafa verið afar fálát varðandi ástandið og þróunina á fjölmiðlamarkaði. Þar átelur útvarpsstjóri stjórnvöld fyrir ástandið. Hann segir að ljósvakamiðlar ,,í einkaeigu á Íslandi [hafi] verið óháðari opinberum reglum og eftirlitslausari en nokkurs staðar í þeim löndum, sem Íslendingar bera sig helst saman við``. Þetta, með eftiráleyfi forseta, var bein tilvitnun í grein Markúsar Arnar Antonssonar, sem sagt að ljósvakamiðlar ,,í einkaeigu á Íslandi [hafi] verið óháðari opinberum reglum og eftirlitslausari en nokkurs staðar í þeim löndum, sem Íslendingar bera sig helst saman við``. Hann segir líka í þessari sömu grein, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ábendingar um að þessi gífurlega samþjöppun leiddi til afskræmingar á samkeppni í ljósvakamiðlun og sívaxandi fákeppni, ef ekki eindregið ráðandi markaðsstöðu, var ekkert um þetta skeytt af hálfu opinberra yfirvalda.``

Útvarpsstjóri átelur stjórnvöld fyrir það að hafa setið sofandi, horft á samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og ekkert aðhafst hingað til. Ég get tekið undir þetta en það breytir því ekki að núna er vaðið af stað með stórvirkum vinnuvélum, riggað upp frv. sem er allsendis óásættanlegt, tekur til aðeins lítils hluta þessa stóra fjölmiðlamarkaðar okkar sem þó er ekki stór á alþjóðlegan mælikvarða en stór miðað við þann sem við bjuggum við hér bara fyrir rúmum 20 árum. Mér finnst eðlilegt að taka undir orð Markúsar Arnar Antonssonar útvarpsstjóra þar sem hann átelur stjórnvöld fyrir skeytingarleysi og fyrir það að hafa ekki verið opin fyrir því sem var að gerast. Ef við hefðum verið að fjalla um þessi mál hér í samfélaginu síðustu 2--4 árin værum við kannski komin á þann stað að vera tilbúin til að fara að setja löggjöf um fjölmiðla. Eins og málum er háttað núna erum við ekki tilbúin vegna þess að umræðan er ekki þroskuð.

Eitt af því sem við höfum ekkert fjallað um í umræðunni sem heitið getur er hlutir eins og ný tækni og nýir miðlar. Eða hverju svara stjórnvöld gagnrýni Markúsar Arnar Antonssonar á það að í júnímánuði í fyrra hafi Norðurljós fengið úthlutun fyrir afnotarétti á 64 stafrænum sjónvarpsrásum á Faxaflóasvæðinu án þess að stjórnvöld hefðu nokkra mótaða stefnu um uppbyggingu og innleiðingu stafræns dreifikerfis sjónvarps sem marka mun mikilsverð kaflaskil í þróun fjölmiðlunar á landinu? Hver er stefna íslenskra stjórnvalda í uppbyggingu stafræns dreifikerfis sjónvarps á landinu? Ég get alveg fullyrt að hún er ekki til staðar. Hún er engin. Ekki hafa stjórnarliðar hleypt umræðunni um uppbyggingu stafræna dreifikerfisins inn að þessu sinni. Þetta frv. hér fjallar ekki baun um það.

Það fjallar heldur ekki um þá staðreynd sem íslenskir fjölmiðlar standa frammi fyrir, og það í æ ríkara mæli, að samkeppni þeirra kemur kannski fyrst og síðast erlendis frá. Það er þáttur í þessari umræðu sem við eigum enn eftir að taka, hluti af því að þroska umræðuna hlýtur að vera sú samkeppni sem erlendir aðilar veita íslenskum ljósvakamiðlum og íslenskum miðlum almennt.

Við höfum ekkert fjallað um vefmiðlana. Þeir heyra ekki undir þetta frv., koma alls ekki við sögu. Ekki heldur um fjölmiðlarannsóknir. Það er kannski alvarlegast af öllu því það skiptir okkur verulegu máli að fjölmiðlarannsóknir fari fram hér á landi. Ég vil enn grípa niður í grein Markúsar Arnar Antonssonar frá því á mánudaginn var í Morgunblaðinu þar sem hann tekur undir þetta sjónarmið mitt og segir, með leyfi forseta:

,,Innan Háskóla Íslands t.d. mætti efla rannsóknir á starfsemi íslenskra fjölmiðla og gera reglulega úttekt á eignarhaldi, svo og umfjöllun og túlkun þeirra á tilteknum fréttum og álitamálum í almennri umræðu og varða t.d. óhlutdrægni í aðdraganda almennra kosninga. Með slíku starfi yrði einnig hægt að afhjúpa óeðlileg hagsmunatengsl eða misbeitingu eigenda á fjölmiðlum sínum varðandi fréttaumfjöllun, dagskráratriði eða auglýsingar. Slíkar rannsóknir og opinber birting á niðurstöðunum myndi móta almenningsálit og fæli í sér mjög sterkt aðhald fyrir fjölmiðlana og eigendurna.``

Undir þessi orð útvarpsstjóra tek ég heils hugar. Auðvitað ættum við að vera að fjalla hér um fjölmiðlarannsóknir í tengslum við þá umræðu sem hér er komið af stað. Eins og ég orðaði það í einhverri atkvæðaskýringu um daginn erum við sett um borð í rússíbana. Það eru allir hér eins og þeir séu með rakettu í rassinum við að fjalla um bara ákveðinn hluta af þessu. Ég sé nú að þingmenn eru farnir að koma í salinn með rauða spjaldið sem afhent var þingmönnum á Austurvelli á þeim fundi sem ég gerði að umræðuefni í upphafi máls míns. Það er sannarlega ekki vanþörf á því að veita stjórnarliðum rauða spjaldið í þessari umræðu.

(Forseti (JóhS): Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hún treysti sér til að ljúka máli sínu á næstu einni til tveim mínútum eða hvort hún vilji fresta því.)

Já, frú forseti, ég ætla að ljúka máli mínu á 1--2 mínútum. Ég er rétt komin að niðurlagi.

Ég ítreka það sem ég hér hef sagt. Umræðan er ekki þroskuð. Það eru gífurlega veigamiklir þættir þessa máls sem alls ekki hafa komið inn í umræðuna og hljóta að skipta verulegu máli þegar á heildina er litið.

Við höfum ekki fjallað um opinberan stuðning almennt við fjölmiðla. Við höfum ekki tekið Ríkisútvarpið fyrir og skoðað í þessu sambandi. Við höfum ekki heldur fjallað á neinn yfirgripsmikinn hátt um aðferðir, reglur eða möguleika á að tryggja sjálfstæði ritstjórna og blaðamanna. Þó að stjórnarandstæðingar hafi hafið máls á slíkum hugmyndum hafa þær ekki fengið nein svör eða neinir mótleikir verið settir fram af hálfu stjórnarliða í þessum sal.

Sannleikurinn er auðvitað sá að þetta frv. er hápólitískt mál og hefur kannski þegar öllu er á botninn hvolft sáralítið með lagasetningu að gera. Kannski er það bara mergurinn málsins. Hér er verið að ryðjast fram á völlinn með hápólitískt mál sem er ýtt í gegn með sama offorsi, sömu óbilgirni og sama óðagoti og við þekkjum hér í öðrum málum sem hafa verið nefnd. Auðvitað verður í þessu sambandi að fjalla um sjálfstæði fjölmiðlanna. Það verður að tryggja sjálfstæði Ríkisútvarpsins, tryggja sjálfstæði útvarpsréttarnefndar, sjálfstæði Hæstaréttar og eftirlitsstofnana samfélagsins. Allt eru þetta mál sem ég gerði sérstaka grein fyrir við 2. umr. þannig að ég fer ekki nánar út í það hér.

Frú forseti. Hér er mál á ferðinni sem allur þorri almennings vill taka þátt í að ræða. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sannarlega ekki legið á liði sínu. Við viljum ræða þessi mál en við viljum bara ekki gera það sitjandi í rússíbana hæstv. forsrh. eða með rakettu hæstv. utanrrh. í rassinum.