Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:05:43 (8675)

2004-05-19 15:05:43# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu sinni nefndi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu tekið pólitíska U-beygju í málinu. Frú forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson --- hann hefur farið í marga hringi í þessu máli og í raun farið mjög illa með trúverðugleika sinn sem stjórnmálamaður á sínu fyrsta ári á hinu háa Alþingi --- eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi studdi hv. þm. frv. í upprunalegri mynd. Engu að síður segir hann í ræðu sinni nú að frv. hafi tekið grundvallarbreytingum, verulegum breytingum hefur hann orðað líka. Þá spyr ég: Studdi hann ekki frv. í upphaflegri mynd eða styður hann það bara núna eða öfugt?

Í öðru lagi vil ég tala um lýðræðið innan stjórnarflokkanna og mun kannski gera það í seinna andsvari mínu, en það lýtur að því hvernig málið hefur verið unnið innan stjórnarflokkanna. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson staðfesti hér í ræðu að honum þætti það mjög aðfinnsluvert hvernig málið hefði verið unnið, ekki eru til neinar samþykktir í sögu Framsfl. um hvernig taka eigi á þessum málum. (Forseti hringir.) Ég mun koma betur að því á eftir.