Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:06:56 (8676)

2004-05-19 15:06:56# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Gunnar Örlygsson spurði tveggja spurninga og velti því fyrir sér hvort ég hefði stutt frv. í upprunalegri mynd. Það lá fyrir þegar frv. var afgreitt úr þingflokki mínum að ekki lágu fyrir efnislegar athugasemdir varðandi frv. Ég hygg því að það hafi legið fyrir strax í upphafi málsins hver hugur þingflokks Sjálfstfl. var til málsins. Það þýðir hins vegar ekki að ég eða aðrir þingmenn höfum ekki haft athugasemdir við efnisatriði frv. Það þýðir ekki að frv. eins og það var í upphafi hafi verið nákvæmlega eins og ég hefði viljað hafa það ef ég hefði samið það og hefði sjálfur ráðið hvernig það átti að vera. Ég tel að sú meðferð sem málið fékk í mínum höndum og annarra þingmanna sýni að við höfum haft vilja til að ganga lengra til þess að leyfa meira frelsi og gera minni takmarkanir í þessum atvinnurekstri. (Forseti hringir.) Ég tel því að afstaða mín sé alveg ljós að þessu leyti.