Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:17:15 (8684)

2004-05-19 15:17:15# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf að byrja á því sem sagt var síðast. Það er náttúrlega algjörlega fráleitur málatilbúnaður hjá hv. þm. að halda því fram að verið sé að setja lög til þess að koma í veg fyrir að stjórnvöld í landinu þurfi að vakna upp við það á morgnana að verið sé að flytja einhverjar fréttir í blöðum sem eru þeim ekki að skapi. Frumvarpið gengur ekki út á ritskoðun. Alls ekki. Frumvarpið kemur ekki í veg fyrir að hver og einn sem vill koma sjónarmiðum sínum á framfæri geti stofnað blað og presenterað skoðanir sínar þar. Það mun ekkert breytast hvað það varðar. Ég hafna því líka að verið sé að lengja í svokallaðri hengingaról þessa tiltekna fyrirtækis og það sé gert af umhyggju fyrir starfsmönnum Norðurljósa. Hv. þm. Einar Karl Haraldsson var ekki staddur á fundum allshn. þegar starfsmenn Norðurljósa komu þangað á fundi. (Forseti hringir.) En hver var krafa þeirra? Hún var sú að útvarpsleyfin fengju að renna út og við þeirri kröfu hefur verið orðið.