Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 15:22:01 (8688)

2004-05-19 15:22:01# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna þeirri framþróun sem orðið hefur í umræðunni í dag að stjórnarliðar, aðstandendur málsins, hafa þó látið svo lítið sem koma hér og tjá sig. Fyrst skal frægan telja hæstv. utanrrh. sem ræddi málin fyrir hádegi stuttlega og nú hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Það er að sjálfsögðu betra en var við 2. umr. þegar stjórnarliðar földu sig meira og minna í málinu. Framsfl. var bókstaflega gufaður upp og þingmenn Sjálfstfl., þeir fáu sem voru á mælendaskrá og stjórnarþingmenn yfirleitt, hröpuðu niður mælendalistann og létu færa sig aftar og aftar. (Gripið fram í: Eins og þú gerðir núna.) Eins og ég gerði ekki núna, hv. þm., ég er á sama stað á mælendaskránni. Hins vegar gekk næsti maður á undan mér úr skaftinu og þar af leiðandi kom röðin að mér fyrr en ég átti von á og ég var hérna á næstu grösum, en ég vona að hv. þm. þyki ekki verra að hafa fengið tækifæri til að flytja mál sitt á undan mér í staðinn fyrir á eftir. (SKK: Sannarlega ekki.)

Það er þó hægt að eiga orðastað við menn. Ég tel að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi haft uppi þó nokkra tilburði til málsvarnar af hálfu stjórnarliða en sú málsvörn var ákaflega brothætt í höndum hv. þm. Segja má að megininntak ræðu hans hafi verið það í fyrsta lagi að gera mikið úr breytingunum sem búið sé að gera eða til standi að gera á frv. (SKK: Að sjálfsögðu.) Hv. þm. lagði í raun og veru allt sitt undir í þeim efnum að breytingarnar væru svo miklar, þær væru að gera málið svo miklu betur úr garði að það væri að verða í lagi. Jahá. En hvað er hv. þm. þá að segja í leiðinni? Hann er að segja að stjórnarfrv. sem fór í gegnum báða þingflokkana án fyrirvara hafi verið handónýtt. Hann tekur algerlega undir málflutning okkar frá 1. umr. Hv. þm. er því að skjóta sjálfan sig talsvert í fótinn í leiðinni.

Í öðru lagi sagði hv. þm. og lagði mikið upp úr því að reyna að sanna það að þingmenn stjórnarandstöðunnar yfirleitt væru að taka einhverjar U-beygjur í málinu. Þeir hefðu orðið allt aðrar skoðanir í þessum efnum en þeir hefðu haft á undangengnum mánuðum eða missirum, sem auðvitað er ekki rétt og ég mun koma betur að síðar. En það er sérkennilegt að hér talar sá maður, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem hefur orðið að almennu athlægi í þjóðfélaginu ásamt með félögum sínum, nýjum þingmönnum Sjálfstfl., frjálshyggjudrengjunum sem komu hér undir gunnfánum frjálshyggju, skattalækkana, frelsis og nýfrjálshyggju í atvinnulífinu, ríðandi inn á þing fyrir réttu ári síðan. Það eru þeir menn sem þurfa auðvitað að útskýra fyrir kjósendum sínum hvernig í ósköpunum standi á því að þeir styðji það að slíkt frv. komi fram eins og hv. þm. hefur núna útlistað að var algerlega ótækt í byrjun og hefur því miður allt of lítið skánað. Það væri líka fróðlegt að ræða við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, út frá þeim frelsistrúarbrögðum sem hann hafði í veganesti inn á þing, um afstöðu hans til lítils frv. sem er einnig á borðum þingmanna, um breytingu á búvörulögum. Ég bíð spenntur eftir því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og þeir fleiri í frjálshyggjufélaginu mæti þar á fundi og útlisti fyrir félagsmönnum nauðsyn þess að taka búvörulögin út undan samkeppnislögunum, að leyfa mjólkuriðnaðnum að þróast í fullkominni verðstýringu og einokun óháð samkeppnislögum. Öðruvísi mér áður brá. Þetta er stjórnarfrv. Ég heyrði ekki að neinir fyrirvarar væru af hálfu þingmanna Sjálfstfl. við flutning þess.

Nú skal það tekið fram til að eyða misskilningi að ég leggst ekki gegn því frv. nema síður sé. Ég tel mjög margt mæla með því að leyfa t.d. áfram verðlagningu á heildsölu í mjólkurvörum þannig að menn lendi ekki í sömu ógöngunum þar eins og menn hafa gert á kjötmarkaði. Það kemur líka á daginn að kannski er það einhver mesti stuðningurinn við sjálfstæða aðila sem eftir eru í smásöluverslun í landinu í vörn þeirra gegn risunum að fá að halda þeirri verðlagningu, þannig að stóru aðilarnir geti ekki í krafti stærðar sinnar pínt út afslætti sem hinir ekki fá. Það segja mér margir sjálfstæðir kaupmenn, þeir fáu sem eftir eru í dag, að þeir gætu svo gott sem pakkað niður ef sá stóri vöruflokkur færi sömu leið og flest annað, að þeir yrðu píndir til innkaupa á lakari kjörum en stóru markaðsráðandi risarnir. En það er önnur saga.

Það væri fróðlegt að heyra hv. þm. útskýra fyrir kjósendum sínum, umbjóðendum sínum, að þetta sé ekki nein U-beygja, þetta sé ekki stefnubreyting. Nei, vandinn er auðvitað sá að það er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og félagar hans hér og auðvitað Sjálfstfl. allur eins og hann leggur sig sem eru í þeim mikla vanda að útskýra málið í samhengi við grundvallarstefnumið flokksins.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem ég vona að sé viðstaddur og tilbúinn til að taka gagnrýni á sitt mál sem hann flutti áðan, vitnaði mjög í ræður manna og greinar. Hann vitnaði í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, vitnaði í ræðu mína, vitnaði í skrif á vefritinu Múrnum og las þar upp alveg prýðilega samansetta texta, en því miður ekki í heild sinni frekar en hann gerði mönnum rétt til að vitna þá í orð þeirra í samhengi, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sýndi fram á áðan með því að lesa örlitla viðbót af þeirri ræðu sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vitnaði í. Hv. þm. féll nefnilega í þá gryfju að tína út úr máli manna, bæði ræðum og greinum, eingöngu það sem hentaði honum í því að reyna að sanna sitt mál. Sleppti öllu samhengi hlutanna. Kemst svo að þeirri kostulegu niðurstöðu eftir þær hlutdrægu ívitnanir að menn hljóti að vera sammála honum og skyldugir til þess að styðja frv. Þetta er sama áráttan og Morgunblaðið er haldið af sem skrifar í leiðara eftir leiðara: ,,Það eru víst allir sammála Morgunblaðinu hvað sem þeir segja.`` Allir. Össur, Steingrímur J. Allir. Þeir hljóta að vera sammála Morgunblaðinu af því Morgunblaðið hefur ákveðið að þannig sé það. Sigurður Kári Kristjánsson kemur hér, liggur yfir ræðum manna og finnur það sem hentar honum, tínir það út, vitnar í það og segir svo: ,,Þarna sjáiði. Mennirnir hljóta að vera okkur sammála.`` Nei, þetta er auðvitað ekki rismikill málflutningur og þarf auðvitað ekki að eyða tíma í að slá svona lagað niður.

Sú röksemdafærsla, sem hæstv. forsrh. hefur auðvitað gefið tóninn fyrir, gengur út á það að ef menn hafa leitast við að ræða málið á málefnalegum nótum og komist að þeirri niðurstöðu að það geti vissulega verið rök fyrir því að fara yfir það og skoða hvort setja beri einhverjar takmarkandi reglur til að hindra samþjöppun í eignarhaldi, þá séu þeir sammála frv. Alltsvo, þá skrifi menn upp á þetta eins og það er. Auðvitað er þetta fullkomlega ómálefnalegt. Menn fá falleinkunn fyrir röksemdafærslu af þessu tagi. Þetta er eins konar Heimdallarhundalógík sem maður var að vona að menn væru vaxnir upp úr þegar þeir væru komnir inn á þing, jafnvel þó tiltölulega ungir séu að árum.

[15:30]

Eða er það virkilega þannig að maður megi ekki hafa þá skoðun í friði að það geti verið ástæða til að fara yfir þetta og setja einhverjar reglur, þar með sé maður skyldugur til að skrifa upp á þetta allt, þetta frv., þessa hrákasmíð og þessi vinnubrögð? Nei, ég frábið mér það. Það er að sjálfsögðu ekki þannig. Þeir sem hafa reynt í gegnum allan þennan storm að ræða málið á málefnalegum nótum, hafa einmitt hafnað því að láta hrekja sig ofan í einhverjar skotgrafir öðru hvoru megin, neitað því að vera með einhverjum í liði, segja bara: Ég hef mína skoðun í þessu máli, mín sjónarmið og ég held þeim fram. Ég vil rökræða þau. Ég vil skoða þessa hluti.

Það er það sem þessir menn þola ekki. Þetta er í raun og veru aðferðafræði Bush Bandaríkjaforseta sem er sennilega ekki vel til þess fallin að standa í flóknum rökræðum. Þess vegna hentar að segja: Ef þú ert ekki með mér ertu á móti mér. Enginn millivegur. Það skal bara vera svart og hvítt í heiminum. Annaðhvort styður maður þessi ósköp og skrifar upp á þessi vinnubrögð eða maður er á mála hjá Baugi. Maður er handbendi þess fyrirtækis, gengur erinda auðhringsins. Þetta hafa þessir menn verið að segja. Þetta er auðvitað neðan við allar hellur. Ég er hvorki handbendi Baugs né á mála hjá þeim og þaðan af síður ræður Davíð Oddsson eða fótgönguliðar hans afstöðu minni til mála. Það skal vera alveg á hreinu. Ég frábið mér það að rökræða við menn á þessum nótum.

Auðvitað væri ástæða til að fara rækilega, frú forseti, yfir forsögu þessa máls. Það þarf í raun og veru að gera það mjög fljótt, áður en ryk fellur á þessa atburði, og greina allt þetta undarlega ferli, allt frá því að menntmrh. setti nefnd á laggirnar með ákveðnu erindisbréfi og henni var ætlað að fara yfir þetta svið. Því miður var að vísu nefndin ekki þannig saman sett að það væri nógu gæfulegt í byrjun. Það starf var þó að mörgu leyti ágætlega heppnað og skýrslan nokkuð góð. Svo var henni haldið leyndri í einhverjar vikur og starfshópurinn hafði fyrir fram það hlutverk að ef niðurstaðan yrði sú að þörf væri lagasetningar skyldi hann semja frv. Það var aldrei við hann talað meir um það, heldur skaut upp kollinum frv. ættað úr forsrn., samið þar af hæstv. forsrh., og flutt síðan af honum undir því yfirskini að um bandorm væri að ræða. Þar er augljóslega um yfirskin að ræða vegna þess að einni örlítilli setningu er skotið inn í samkeppnislögin. Að öðru leyti er þetta hreint menntamálaráðherramál sem varðar eingöngu breytingu á útvarpslögum. Það er tekið fram, sem auðvitað þurfti ekki að gera, að Samkeppnisstofnun skuli veita útvarpsréttarnefnd aðstoð við að finna út úr því hvað sé markaðsráðandi fyrirtæki. Hver annar átti annars að gera það? Prestafélagið? Ætli menn hefðu ekki hvort sem er leitað til Samkeppnisstofnunar? Og ætli opinber nefnd eins og útvarpsréttarnefnd hefði ekki sjálfkrafa fengið þjónustu frá opinberri stjórnsýslustofnun eins og Samkeppnisstofnun? Jú, auðvitað. Það þurfti ekkert að standa um það í lögum. Þetta er það sem Þórbergur hefði kallað ,,selvfölgeligheder``. Það er augljóslega eingöngu sett þarna til þess að hæstv. forsrh. geti flutt málið, það sé ekki á forræði menntmrh.

Síðan þekkja menn allan þennan kostulega aðdraganda. Frumvarpi hæstv. forsrh., þ.e. fyrsta eintakinu --- ég ætla rétt að vona að það hafi ekki farið í tætarann því það hlýtur að teljast með merkari skjölum á Þjóðskjalasafninu eftir svo sem 50 ár --- sem hæstv. forsrh. kynnti í ríkisstjórn var síðan breytt talsvert áður en þau ósköp komu til þingflokkanna, var þar samþykkt og varð þá útgáfa númer tvö. Núna segja þeir hins vegar að hún hafi verið alveg ómöguleg vegna þess að aðalatriðið er orðið þær miklu breytingar sem á því eru orðnar eða eru að verða. Síðan þekkjum við þetta, virðulegur forseti, sálarangist Framsfl. og innantökur allar sem því miður enduðu, eins og venjulega, á því að Framsókn fékk töflu og lét sig hafa þetta allt saman og ætlar að standa að því að gera þetta að lögum eins og við stöndum núna frammi fyrir.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór líka hér í sérkennilega málsvörn þegar hann ræddi um fyrirtækið Norðurljós. Hann hafði um það hin hörðustu orð, sagði að þar hefðu menn beitt fyrir sig starfsmönnum með ósæmilegum hætti, vitnaði í formann Starfsmannafélags Norðurljósa, íþróttamanninn Arnar Björnsson, og hefur eftir honum upplýsingar úr þingnefnd sem er ekki til siðs, þ.e. að orðtaka menn um það sem þeir segja á lokuðum fundum með þingnefndum. En gott og vel, þar á Arnar Björnsson að hafa sagt að starfsmenn Norðurljósa hafi í raun og veru verið neyddir til að taka afstöðu til frv. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir. Nú á þessi ágæti maður auðvitað kost á því að gera grein fyrir þessu opinberlega. Ég hef ekki orðið þess var að starfsfólki Norðurljósa væri mikil nauðung að koma fram og tjá hug sinn, senda okkur póst eða tala á fundum eða annars staðar. Ekki hef ég orðið þess var, m.a. í samskiptum við þennan nefnda mann, að ekki fylgi hugur máli af hans hálfu. Mér finnst mjög alvarlegt að láta að því liggja að menn séu á einhvern hátt þvingaðir af vinnuveitendum sínum til slíkra hluta. Hitt skilja allir sanngjarnir menn að það fólk sem þarna hefur unnið undanfarna mánuði og missiri, búið við atvinnuöryggi og jafnvel staðið frammi fyrir því að vinnuveitandi þeirra væri að komast í þrot, er eðli málsins samkvæmt viðkvæmt fyrir því þegar starfsöryggi þess er aftur ógnað.

Ég veit ekki hvað hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur til vitnis um að ekki verði af þeim alvarlegu áhrifum sem menn hafa talið að þetta gæti haft á rekstur téðs fyrirtækis, svo sem að lánasamningar verði gjaldfelldir eða annað í þeim dúr. Menn verða líka að hafa í huga að viðbrögð fyrirtækisins og viðbrögð starfsmanna voru eðlilega við málinu eins og það leit út í byrjun. Hvernig var það? Jú, það var auðvitað svo fáheyrt að fyrstu útvarpsleyfin áttu að falla úr gildi og hefðu ekki getað endurnýjast strax um næstu áramót, eftir rúmlega hálft ár. Þar með hefði fyrirtækið auðvitað frá fyrsta degi með hina yfirvofandi lagasetningu eða strax á næstu mánuðum orðið fyrir verulegum búsifjum og ekki getað starfað áfram í óbreyttri mynd sinni. Þetta var það sem ég m.a. vísaði til í ræðu minni við 1. umr. og sagði strax: Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum heilvita manni í hug að hafa gildistökuákvæði málsins eins og þau litu út í byrjun? Þeim hefur ríkisstjórnin síðan í tvígang reynt að breyta. Við 2. umr. var valin sú sérkennilega leið að láta lögin taka gildi 1. júní 2006, sem slík, en þá var enn óútkljáð hvað yrði um þau útvarpsleyfi sem féllu úr gildi á tímanum þangað til. Átti útvarpsréttarnefnd þá að gefa út bráðabirgðaframlengingu, eða hvað? Um það var ekkert sagt.

Nú er valinn sá kostur í brtt. að láta lögin taka strax gildi en heimila að framlengja útvarpsleyfi eða að menn eigi að fá framlengt útvarpsleyfi, þau sem úr gildi falla á tveggja ára tímabilinu fram til 1. júní 2006. Að sumu leyti má deila um það hvor gildistökuákvæðin eru betri fyrir fyrirtækið sem í hlut á og fyrst og fremst verður þarna fyrir áhrifum. Lögin eru þá gild frá byrjun og liggja fyrir með þessum skilmálum frá fyrsta degi. Þá er alveg á hreinu að þetta verður framhaldið en mönnum er a.m.k. tryggður þessi tveggja ára aðlögunartími. Síðan er hitt að ekki er heimild til að taka innan tveggja ára af útvarpsleyfi sem hafa lengri gildistíma. Vandinn er samt sá að þó að þetta sé lagatæknilega til mikilla bóta kann vel að vera að í reynd efnislega og praktískt skipti þetta engu máli. Fyrirtækið sem hér á í hlut verður ekki til staðar í núverandi mynd sinni til að njóta þessara leyfa af því að önnur ákvæði laganna koma í veg fyrir það, þ.e. 5% þakið á eignaraðild markaðsráðandi fyrirtækis og hinn algeri aðskilnaður milli ljósvaka- og dagblaðaútgáfu. Það þýðir sjálfkrafa að fyrirtækinu þarf að skipta upp og núverandi eigendur þess verða að hverfa að mestu leyti úr eigendahópnum.

Þegar betur er að gáð eru þetta kannski dálítið klókindalega útfærðar eða upphugsaðar brtt., þessar síðustu, sálrænu brtt. sem ég hef leyft mér að kalla svo af því að ég held að þær þjóni aðallega þeim tilgangi að vera liður í sálrænni meðferð Framsfl. til að búa hann undir það að láta sig hafa þetta (RG: Rétt.) og leka niður eins og venjulega. (RG: Rétt.) Þetta lítur út sem ívilnandi breytingar en hafa kannski ekkert praktískt gildi þegar upp er staðið miðað við stöðuna eins og hún er. Það sérkennilega er að fyrirvaralaust skýtur upp kollinum tillaga um breytingu á einu af örfáum ákvæðum frv. sem í sjálfu sér var enginn ágreiningur um, þ.e. að það gæti verið ástæða til að hafa u.þ.b. 25% þak á hámarkseign eins einstaks aðila. Er þar væntanlega átt við hvort sem er einstakling eða lögaðila. Það var takmarkandi ákvæði sem menn í sjálfu sér, held ég, settu ekkert sérstaklega hornin í og er miklu nær því að vera í samræmi við þær takmarkanir sem við höfum séð víða annars staðar og í nálægum löndum. Það er augljóst að þar er bara eitthvað valið til að breyta til þess að breyta, til að hægt sé að láta líta svo út sem þarna sé einhver viðbótarívilnun á ferðinni, málamyndabreyting sem bara þjónar þessum heimatilbúna tilgangi að vera liður í meðferð Framsfl., kannski einstöku sjálfstæðisþingmanna, ég veit ekki hvort þeim líður sömuleiðis betur.

Til að það misskiljist ekki, frú forseti, það er væntanlega skýrt af orðum mínum og mátti vera fyrir, vil ég taka fram að að sjálfsögðu eru gildistökuákvæðin sem gera ráð fyrir því að þegar útgefin útvarpsleyfi haldi sér til enda miklu betri en hin ósköpin sem til stóðu. En það er eiginlega erfitt að fá sig til að fagna slíku sérstaklega þegar um svo gjörsamlega sjálfsagða hluti er að ræða. Hitt var svo fráleitt og vitfirrt að maður skildi ekkert í því. Svo er það líka að ég er ekki viss um að mönnum gangi hér einsömul góðmennskan til eða lagaástin eða ástin á stjórnarskránni. Ætli ríkisstjórnin hafi ekki bara ósköp einfaldlega staðið frammi fyrir því að í málaferlum sem fram undan væru væri svo augljóst að málsástæður ríkisstjórnarinnar eða löggjafans væru algjörlega hrundar að óbreyttu frv. sem að lögum hefði orðið. Ég held að hvaða lögfræðingur sem er hefði bara beinlínis hlakkað til að sækja málið fyrir hönd þeirra fyrirtækja sem átti að rífa útvarpsleyfin af innan nokkurra mánaða, þótt það væri eftir tvö ár, starfsleyfi sem þegar höfðu verið gefin út á sviði atvinnurekstrar með gildistíma kannski til 2007, 2008, 2009. Það bara segir sig sjálft að til viðbótar öllu hinu styrkti þessi málsástæða mjög skaðabótakröfur og vinningslíkur manna fyrir dómi.

Að síðustu, út frá þeim atriðum sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ræddi hér um og ég hafði einmitt hugsað mér að koma inn á, er þessi spurning um sértæka löggjöf versus ekki sértæka. Nú er það rangt hjá hv. þingmanni að allir í stjórnarandstöðunni hafi gert það að einhverju stóru máli í málflutningi sínum. Það gerði ég a.m.k. ekki, þvert á móti. Það var kannski eitt af því sem menn hefðu getað greint ef þeir hefðu lagt eyrun við, að við í stjórnarandstöðunni nálguðumst málið með ólíkum hætti. Ég sagði: Auðvitað er ekki hægt að útiloka það ef menn ætla að setja almenna löggjöf af þessu tagi sem gildir um ókomin ár á einhverju sviði að sú löggjöf hafi fyrst og fremst áhrif á einn aðila. Þær aðstæður geta verið til staðar í einu landi. Ég nefndi frægt dæmi, stöðu fyrirtækisins Microsoft í tölvuheiminum. Menn hafa ekki talið að fyrirtækið Microsoft væri ósnertanlegt, hvort heldur væri með lögum eða málaferlum af þeirri einu ástæðu að það væri eitt og að áhrifin af þeim aðgerðum beindust að einu fyrirtæki. Veruleikinn er sá að eitt fyrirtæki hefur heimsyfirráð á ákveðnum sviðum. Ef menn ætla að gera eitthvað til að tryggja að þetta fyrirtæki misnoti ekki stöðu sína og ýti öðrum í burtu á aðliggjandi sviðum viðskipta, t.d. í sölu á tengdum búnaði, verða menn að fara í það að setja reglur eða taka á málunum þannig að það beinist að fyrirtækinu Microsoft. Og það er gert, bæði austan hafs og vestan. Þeir hafa verið dæmdir í himinháar sektir í Evrópu. Í Bandaríkjunum hafa menn verið í umfangsmiklum málaferlum til að setja þessum risa skorður, sérstaklega til að koma í veg fyrir að hann noti markaðsráðandi og tröllastöðu sína á sviði hugbúnaðarins til að pína menn til að kaupa svo viðbótarþjónustu af sér einnig. Þar hafa menn sagt: Nei, fyrirtækið hefur rétt á sínum lausnum en það má ekki gera þær þannig úr garði eða hafa reglurnar þannig í kringum þær að menn séu til viðbótar neyddir til að taka alls konar aukaafurðir frá þeim og versla við þá. Þá eru þeir í raun og veru farnir að misnota markaðsráðandi stöðu sína eða hafa óeðlilegan arð af tengdum viðskiptum út á hana.

[15:45]

Þetta er sem sagt í mínum huga ekki aðalvandamálið og endalaus ræðuhöld um SPRON-málið sem auðvitað er ekki sambærilegt eru alveg út í loftið. Að ráðast á stjórnarandstæðinga fyrir að hafa staðið að því máli er sérkennilegt í ljósi þess að þar var um stjórnarfrumvarp að ræða. Það studdu allir þingmenn stjórnarinnar nema sennilega þessi eini sem hér hefur talað mest um það, þ.e. Sigurður Kári Kristjánsson. Við erum þá a.m.k. ekki sekari í því máli en ríkisstjórnin sem flutti frv. og allir hinir þingmennirnir úr stjórnarliðinu sem studdu það, enda var það mál á flestallan hátt ósambærilegt. Þar var Alþingi að bregðast við til þess að lög sem það hafði sett yrðu ekki misnotuð eða farið á svig við þau, að menn næðu ekki að hafa óeðlilegan arð af forræði sínu yfir stofnfé, í raun og veru sjálfseignarfé, sem alls ekki var ætlunin með löggjöfinni. Menn voru að skjóta sterkari stoðum undir þingviljann og tryggja að lögin héldu gagnvart þeim markmiðum sem þeim var ætlað að ná. Þar við bætist að þar var ekki verið að grípa inn í þegar orðinn hlut, heldur var verið að stöðva með lagaaðgerðunum fyrirhugaðan gerning. (Gripið fram í: Voru allir sammála um það?) Tveir eða þrír þingmenn sátu hjá við málið ef ég man rétt, þar á meðal væntanlega hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hugsanlega frammíkallandi einnig, ég man það ekki. (Gripið fram í: Jú.) Jú. Gott. En þetta var stjórnarfrumvarp, hv. þingmaður, og það studdu allir hinir stjórnarþingmennirnir.

Nei, ég tel að vandinn sé ekki þessi og ég hef aldrei skrifað upp á þær formúleringar hér að það sé til einhver hrein skipting í lagasetningu af þessu tagi sem heitir sértæk versus almenn lög. Hvenær eru lög sértæk og hvenær almenn í þessum skilningi? Er nóg að lögin hafi áhrif á tvo aðila? Eru þau þá orðin almenn? Er það bara ef þau hafa áhrif á einn aðila sem þau eru sértæk? Ég held að þetta sé ekki góð nálgun. Það sem máli skiptir hér er hvernig lögin eru úr garði gerð. Hver eru þau áhrif sem þau hafa á viðkomandi, hvort sem hann er einn, tveir eða fleiri? Eru þau þannig sett að þau uppfylli skilyrði góðrar stjórnsýslu og góðrar lagasetningar? Eru þau ekki meira íþyngjandi en óumflýjanlegt er vegna þeirra almannahagsmuna sem menn ætla að tryggja og ná fram? Eru þau réttlætanleg íblöndun í réttindi manna á sviði atvinnurekstrarins? Uppfylla þau svokallað meðalhóf? Fá menn sanngjarna aðlögun að breytingunum? Það er það sem menn eiga að horfa hér á en ekki spurninguna endilega um það hvort þau séu í einhverjum tilbúnum skilningi almenn eða sértæk. Auðvitað má segja að öll lög sem hafa eitthvert tiltekið almennt gildi og eiga að standa um langa framtíð hafi almennt gildi hvað það varðar að þau stýra þá þróuninni og eru til staðar gagnvart nýjum aðilum sem kynnu að koma til sögunnar á síðari tímum. Þau mundu þá, eftir 10 eða 20 ár, ef aftur gerðust einhverjir atburðir á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem leiddu til þess að það horfði í mikinn samruna fjölmiðla, hafa áhrif á þá stöðu, bremsa hana af. Mundu menn þá ekki viðurkenna að lögin hefðu almennt gildi? Jú, ég geri ráð fyrir því.

Mér finnst aðalatriðið vera að efnisreglur lagasetningarinnar sem slíkrar séu réttlætanlegar, séu nauðsynlegar eða skynsamlegar, vel rökstuddar og ígrundaðar og uppfylli allar þær kröfur sem menn verða og eiga að gera til lagasetningar. Það er meginástæðan fyrir því að við sem höfum ekki verið í grunninn andvíg hugmyndum um að grípa til einhverra aðgerða, að lögfesta hér takmarkandi reglur, getum ekki staðið að þessu máli. Það kemur aldrei til greina. Ég sagði strax við 1. umr. að frv. eins og það var úr garði gert væri ótækt. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að tilgangurinn helgar ekki meðalið hjá okkur. Það er ekki þannig að bara af því að menn telji að það geti verið ástæða til þess að hafa áhyggjur af samþjöppun í fjölmiðlun --- eins og á svo mörgum öðrum sviðum viðskipta --- geti menn bara gert hvað sem er, þá megi menn leyfa sér hvað sem er, ýta til hliðar og láta lönd og leið öll viðurkennd vinnubrögð og allar sanngirnisreglur um það hvaða skilyrði slíkar aðgerðir verði þá að uppfylla. Satt best að segja undrar mig mest að sá þáttur málsins skuli ekki hafa fengið meiri umræðu.

Ég hef áður nefnt hliðstæðuna við breytingar í sjávarútvegi. Margir vilja gera breytingar á kvótakerfinu. Margir vilja bara kasta því, sjá það feigt. Um þetta hafa menn mikið rætt. En eitt held ég að flestir séu sammála um, að þótt menn vilji losna við kerfið eða gjörbreyta því geti menn ekki leyft sér að gera það bara hvernig sem er. Menn geta ekki bara tilkynnt mönnum á morgun að það sé algerlega búið að skipta um kerfi og grundvöllurinn sé brostinn undan atvinnustarfsemi sem þeir hafa byggt á gildandi landslögum í 20 ár, frá 1983 að lög voru sett fyrst um aflamark. Menn viðurkenna að þannig er ekki hægt að koma fram við aðila sem hafa starfað í samræmi við lög, tekið þannig ákvarðanir um fjárfestingar og uppbyggingu og rekstur fyrirtækja sinna. Það verður að gera kröfur til þess að stjórnvaldsaðgerðir og lagasetning sé með eðlilegum og sanngjörnum hætti hvað þetta varðar og taki tillit til þeirra aðstæðna sem menn búa við í rekstri sínum. Það er algerlega viðurkennt að menn njóti þess að hófsemi sé sýnd í breytingum af þessu tagi. Menn hafa rifist um hvort það væri verjandi eða ekki verjandi, t.d. í tilviki sjávarútvegsins, að láta slíkar breytingar rúlla í gegn á 10 eða 20 árum, hvort fyrna mætti fimm eða tíu prósent af kvótanum árlega til þess að skipta kerfinu út á 10 eða 20 árum. Margir hafa sagt, m.a. núverandi stjórnarflokkar, að þetta væri tilræði við sjávarútveginn, dyggilega studdir auðvitað af sægreifunum fyrir síðustu kosningar sem réðust á stjórnarandstöðuna og hugmyndir hennar um að breyta fiskveiðikerfinu, sérstaklega með þeim rökum að það mundi kippa fótunum undan fyrirtækjunum af því að breytingarnar yrðu allt of hastarlegar, þær væru ósanngjarnar, gengju of langt og menn hefðu ekki eðlilegan tíma að þeim. Það stendur ekki í þessum herramönnum að ætla nú að koma með miklu harkalegri aðgerðir inn í eina grein atvinnulífsins sem eiga að ganga í gegn á tveimur árum og átti í upphafi að vera jafnvel örfáir mánuðir. Þetta eru sinnaskipti. Þetta er viðsnúningur. Þetta er U-beygja sem mér finnst að menn séu að sleppa ansi billega frá að svara hér fyrir.

Það er þetta atriði, frú forseti, sem ég held að sé langtæpast í þessu máli. Ég held að það sé afar líklegt að mikil skaðabótaskylda stofnist ef illa fer og lögin verða samþykkt, jafnvel með þeim breytingum sem nú standa til. Það er mjög harkalegt gagnvart fyrirtæki sem einmitt hefur nýlega orðið til á grunni gildandi laga, er með viðskiptaáætlanir sínar byggðar á þeim, er m.a. með plön um að fá að fara inn í Kauphöllina og skrá sig þar, er með samninga við lánardrottna sína bundna við útvarpsleyfi og þá markaðshlutdeild og þá viðskiptavild sem það hefur. Öllu þessu er auðvitað teflt í uppnám með þessu. Það gefur augaleið. Ekki bara eftir tvö ár, heldur strax daginn sem þetta verður að lögum að svo miklu leyti sem það er ekki nú þegar farið að hafa áhrif. Fyrirtækið er að vísu ekki á markaði, en það væri gaman að sjá hvaða dýfu hlutabréfin væru búin að taka undanfarna daga ef það hefði verið það. Halda menn ekki að þetta hefði haft áhrif ef fyrirtækið hefði verið skráð í Kauphöllinni? Jú, ætli það ekki. Það er kannski að einhverju leyti í því skjóli sem menn telja sig geta farið svona að fyrirtækinu. Það er alveg augljóst mál að ekki þarf neina markaðsspekinga til að sjá að það er hætt við að það hefði verið ansi órólegt í kringum bréfin í fyrirtæki sem hefði átt svona lagað yfir höfði sér ef það hefði verið skráð á markaði nú þegar. Það var reyndar ætlunin, eins og kunnugt er, að fara með fyrirtækið þangað.

Frú forseti. Ég ætlaði síðan aðeins að gera að umtalsefni eina merkustu yfirlýsingu allrar þessarar umræðu sem ég tel vera. Hana bar reyndar aðeins á góma hér fyrr í dag í orðaskiptum mínum og hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar. Það er hin dæmalausa yfirlýsing Halldórs Ásgrímssonar sem ég leyfi mér að fullyrða að hljóti að rata á spjöld sögunnar og þykja ein af þeim merkilegri sem stjórnmálamaður hefur gefið af fúsum og frjálsum vilja, að best er vitað, í viðtali við sjónvarpið 17. þessa mánaðar, þegar þeir formenn stjórnarflokkanna gerðu þjóðinni grein fyrir samkomulagi sínu --- því ekki höfðu þeir talað við aðra --- um breytingar á 4. útgáfu frv. Þá er það haft í inngangi fréttarinnar að formaður Framsfl. segist ,,mun öruggari með málið núna gagnvart stjórnarskrá og er sáttur við niðurstöðuna``. Fréttamaður spyr síðan í viðtali, Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, með leyfi forseta:

,,En ert þú sannfærðari um ágæti þessa frumvarps eftir þessar breytingar?``

Hæstv. utanrrh. svarar.: ,,Ég er miklu öruggari en ég var áður að því er varðar stjórnarskrána og það er alveg ljóst að ég vil ekki taka mikla áhættu í sambandi við hana.``

Þetta eru alveg stórkostleg ummæli, algerlega stórkostleg, óborganleg ummæli. Hæstv. utanrrh. var sem sagt áður verulega óöruggur um að frv. stæðist stjórnarskrá. Það er ekki hægt að skilja þessi ummæli öðruvísi úr því að þessar breytingar sem hann og forsrh. komust að niðurstöðu með gera hann miklu öruggari en hann var áður um það að málið standist stjórnarskrána. Verður þá ekki eitt stykki hæstvirtur ráðherra og formaður stjórnmálaflokks að útskýra fyrir Alþingi hvernig í ósköpunum hafi staðið á því að hann, Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., fór með málið inn í sinn þingflokk og fékk þar blessað að það yrði lagt fram sem stjórnarfrumvarp? Hann var verulega óöruggur um að það stæðist stjórnarskrána. Sé hægt að skjóta sig í fótinn, frú forseti, og þá báða í einu liggur mér við að segja er það gert svona. Hann lýsir því yfir berum orðum að hann hafi látið sig hafa það að standa að framlagningu stjórnarfrumvarps sem hann var verulega óöruggur um að stæðist stjórnarskrána. Hvers vegna í ósköpunum? Hvaða nauðir rak til? Var þjóðarvoði fyrir dyrum? Var landið að sporðreisast? Nei, en það á að vísu að koma 15. september. Þar skyldi þó ekki hundurinn liggja grafinn, að allt sé falt í Framsókn, menn láti sig hafa hvað sem er, vegna 15. september. Þeir eru oft dýrir, þessir septemberdagar. Það má nú segja, frú forseti.

(Forseti (ÞBack): Forseti spyr hvort mikið sé eftir af ræðu hv. þingmanns.)

Hvað stendur nú til? Þingflokksfundur?

(Forseti (ÞBack): Já. Það verður gert hlé núna í klukkutíma.)

Ég á ekki mjög mikið eftir en samt nokkuð, kannski korter, tuttugu mínútur, þannig ég mundi þá frekar gera hlé á máli mínu ef forseti fellst á að við höfum það þannig. (Gripið fram í: Það er ekki mikið.)

(Forseti (ÞBack): Það er vel þegið. Það verður þá gert hlé núna á þingstörfum í klukkutíma. Fundur hefst aftur klukkan fimm.)