Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:36:28 (8690)

2004-05-19 17:36:28# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:36]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var farið vítt og breitt um veg og kannski ekkert mikið rætt um efni máls. Er það mjög skiljanlegt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur farið mikinn í umræðunni og kallað menn ýmsum nöfnum, m.a. gungu og ýmislegt fleira eins og menn þekkja. Gott ef hann talaði ekki svolítið um kjark í þessari ræðu. Það er kannski æskilegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fari aðeins yfir það og skoði hjá sjálfum sér því að fáir menn hafa hlaupið jafnhratt frá þeim skoðunum og hugmyndum sem hann hafði fyrir nokkrum mánuðum. Ég er hér, virðulegi forseti, með till. til þál. frá þessum hv. þingmanni. (BH: Ætlarðu að lesa hana?) Þar er tekið sérstaklega fram að eigi að skoða, með leyfi forseta: ,,... hvort þörf sé á að sporna með lagaákvæðum eða öðrum hætti gegn óæskilegri samþjöppun á fjölmiðlamarkaði, svo sem að óheimilt sé að dagblöð eða aðrir áhrifamiklir prent- og ljósvakamiðlar séu í eigu sömu aðila``.

Í þessari umræðu sagði 1. flm. þessarar þáltill., með leyfi forseta:

,,Ýmsir hafa lýst sérstökum áhyggjum af þessari þróun því að fákeppni er trúlega hvergi verri en einmitt í fjölmiðlun.``

Ég tek líka beint upp úr útvarpinu þar sem útvarpsmaður sem fjallaði um þetta segir:

,,Flokksformaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon, taldi varhugavert að umsvifamiklir viðskiptaaðilar í fákeppnisumhverfi yrðu fjölmiðlakóngar.``

Svo er vitnað beint í hv. þingmann sem segir:

,,Þá er stutt í hið rússneska ástand, íslenska ,,ólígarka``, nýríka viðskiptajöfra sem eru jafnframt með fjölmiðla eða fjölmiðlakeðjur á sínum höndum til að reka áróður fyrir umsvifum og störfum sínum.``

Hvenær skyldi þetta hafa verið? Þetta var 19. nóvember sl. Síðan hefur samþjöppun orðið massíf. Hvar eru hugmyndir hv. þingmanns?