Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 17:49:00 (8697)

2004-05-19 17:49:00# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[17:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Í raun og veru er fínt að hafa Morgunblaðið. Það má gjarnan skrifa á þeim nótum sem það gerir og velja fréttir eins og það gerir og hafa sína leiðara og sín Reykjavíkurbréf. Það er alveg meinalaust af minni hálfu. Það sem hins vegar vantar eru 2--3 önnur blöð með hliðstæða stöðu sem tryggja þá að önnur sjónarmið komi fram. Ég er t.d. alveg sérstakur andstæðingur þess hvernig Morgunblaðið fjallar oft og tíðum um utanríkismál, tel að Morgunblaðið hafi mjög bjagaða heimsmynd og sé mjög sértækt þegar það velur fréttir og leggur áherslur í umfjöllun sinni um þá hluti. Það sem vantar er annar jafnöflugur prentmiðill sem er gagnrýninn á utanríkisstefnu Íslendinga og stuðning okkar við Bandaríkin o.s.frv. svo dæmi sé tekið. (RG: En það gerist núna.) Svo fremi að menn komi hreint til dyranna og gangist við því hverjir þeir eru er það fínt. Það þarf auðvitað að vera mótvægi og fjölbreytni og um það erum við auðvitað að tala, ekki satt, í þessu ágæta fjölmiðlafrumvarpi.