Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 20:25:53 (8703)

2004-05-19 20:25:53# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[20:25]

Einar K. Guðfinnsson:

Frú forseti. Málið sem við ræðum hefur verið áberandi í umræðunni í þjóðfélaginu og ekki síður á Alþingi að undanförnu. Þetta mál á sér að sjálfsögðu alllangan aðdraganda. Á síðasta ári skipaði þáverandi hæstv. menntmrh. nefnd til að fara ofan í þau mál sem lúta að fjölmiðlum og umhverfi þeirra. Sú nefnd var skipuð einvala liði og skilaði af sér skýrslu nú á vormánuðum. Þegar nefndin var skipuð á sínum tíma voru uppi miklar hrakspár. Margir héldu því fram að þessi nefnd mundi skila pantaðri niðurstöðu sem lítið mark yrði takandi á. Niðurstaðan varð hins vegar sú að þegar skýrslan var komin út var það almennt mat manna að hún væri ákaflega gagnleg, fróðleg og endurspeglaði gott jafnvægi í lýsingu á stöðu fjölmiðlanna í umhverfi okkar. Þannig var það auðvitað og skýrslan lagði góðan grunn að umræðunni sem fram hefur farið á Alþingi að undanförnu.

Á sama hátt hefur allshn., sem hefur um allnokkra hríð haft til umfjöllunar frv. sem við ræðum núna, kallað á fund sinn fjölda fólks. Mér sýnist á nefndaráliti eftir 1. umr. að á hennar fund hafi komið um 45 gestir og að 30 álit hafi skilað sér. Síðan hefur enn bæst í þann sarp. Við sjáum á því að grunnurinn til að eiga þá umræðu sem farið hefur fram á undanförnum dögum er sannarlega til staðar og sú umræða hefur verið allmikil og ítarleg. Ég held að það sé alveg ljóst að forsendur hafi verið fyrir þeirri umræðu sem menn hafa kallað eftir og talið nauðsynlegt að færi fram. Menn hafa ekki verið í vandræðum með það að gera upp hug sinn í þessu máli, taka afstöðu og setja fram sjónarmið sín. Það hefur komið fram bæði innan Alþingis og einnig í almennri pólitískri umræðu sem fram hefur farið um þessi mál í þjóðfélaginu.

Umræðan snertir á margan hátt mikilvægan kjarna hinnar þjóðfélagslegu umræðu. Menn hafa velt upp spurningum eins og þeirri hvort hér væri ráðist með óeðlilegum hætti á frjálsa samkeppni í landinu, hvort verið væri að trufla aðganginn að markaðnum og hvort við værum með þessu að efna til óþarfra og óeðlilegra inngripa í atvinnulífið og einstök fyrirtæki. Það er gott og gilt að menn spyrji þessara spurninga. Þess vegna langar mig, virðulegi forseti, til að fara yfir þau mál.

Kjarni frjálsrar samkeppni í þjóðfélagi okkar er að sjálfsögðu óheftur aðgangur að markaðnum. Þegar við horfum til þessara hluta verðum við fyrst og fremst að velta þeim fyrir okkur í ljósi þess. Það er augljóst að ef ekki er um að ræða óheftan aðgang, þ.e. sem frjálsastan aðgang að markaðnum, verður ekki til frjáls samkeppni. Það er sama hvernig menn velta því máli fyrir sér, það er þetta sem málið snýst um. Erum við í þeirri stöðu að sá sem vill koma inn á þennan markað geti gert það tiltölulega óheftur? Ég hygg að ef við skoðum þetta mál í því ljósi, sem við hljótum að bregða yfir það ástand sem nú er í fjölmiðlaumhverfi okkar, sé augljóst að svo er ekki. Þessi óhefti aðgangur er ekki til staðar. Markaðstruflandi aðstæður gera það að verkum að við hljótum að verða að setja sérstök lög um fjölmiðlana í landinu. Mér sýnist líka að sú umræða sem fram hefur farið að undanförnu hafi meira og minna sýnt fram á það. Æ fleiri og nánast yfirgnæfandi meiri hluti segir að það verði að setja sérstök lög um þetta, að sérstakar aðstæður séu uppi t.d. varðandi fjölmiðlana. Ég tek eftir því að formaður Samf. hefur bæði talað og skrifað með þeim hætti. Umræðan hefur a.m.k. fært þetta fram, að við erum að nálgast það að verða sammála um að setja þurfi um þetta sérstakar reglur, sérstakar leikreglur, vegna þess að hinar almennu samkeppnisreglur í þjóðfélagi okkar dugi ekki til.

[20:30]

Auðvitað er þarna mikilsverð niðurstaða í umræðunni. Það blasir líka við þegar við skoðum aðstæðurnar að margt sýnir okkur að þær eru eins og ég er að lýsa. Ef við horfum sérstaklega á ljósvakamiðlana sjáum við að sjónvarpsrásirnar eru takmörkuð auðlind. Þar er takmarkaður aðgangur og við slíkar aðstæður getur það gerst, sem gerist oft og tíðum, að vald safnist til stórra fyrirtækja. Þegar við skoðum sérstaklega aðrar aðstæður á þessum fjölmiðlamarkaði sjáum við líka þá þróun að gífurleg samþjöppun hefur orðið á þessu sviði. Það kemur m.a. fram í þeim gögnum sem ég hef undir höndum og birtust m.a. í minnihlutaáliti allshn. að eitt fyrirtæki er með um 2/3 dagblaða og ljósvaka hinna svokölluðu frjálsu fjölmiðla, þ.e. fyrir utan Ríkisútvarpið. Hlutdeild í ljósvakanum og dagblöðum alls, með Ríkisútvarpinu, er um 47% og hlutdeild í öllu 39%. Við sjáum með öðrum orðum að þarna er um að ræða gífurlega samþjöppun.

Nú geta menn sagt sem svo: Þetta er allt í lagi, eins og mér heyrðist t.d. hv. þm. Samf. Ásgeir Friðgeirsson segja áðan, þetta væri veruleikinn í kringum okkur, við sæjum samþjöppun í þjóðfélagi okkar, værum með lítið samfélag og þannig væri þetta bara. Það eru samt dálítið sérstakar aðstæður þegar við horfum til þess að hér er ekki bara um að ræða gríðarlega samþjöppun á þessum markaði að þessu leyti, heldur er eignarhaldið líka sérstakt þar sem sá aðili sem helst borgar auglýsingabrúsann, sem er forsendan fyrir því að frjálsir fjölmiðlar geti þrifist, og eigandi fjölmiðilsins er einn og hinn sami. Með öðrum orðum, sá sem heldur utan um pyngjuna, sá sem borgar auglýsingarnar sem framfleyta útvarpsstöðvunum og hinum fjölmiðlunum, er einn og hinn sami. Þetta er í eðli sínu aðgangstakmarkandi þáttur í fjölmiðlaumhverfi okkar.

Þetta er veruleikinn, virðulegi forseti. Ég held þess vegna að þetta dæmi sýni okkur að það er full þörf á að við búum til leikreglur sem tryggi að menn eigi frjálsan aðgang að þessum markaði. Ella verður til þessi samþjöppun. Alls staðar þar sem menn hafa rannsakað þessi mál, t.d. hagfræðingar áratugum saman, er það algjört grundvallaratriði og meginniðurstaðan í öllum rannsóknum þeirra, að einmitt við þessar aðstæður, þegar aðgangur er markaðstakmarkandi að einhverri atvinnugrein, verður óneitanlega til samþjöppun. Við horfum til þessa.

Horfum aðeins til baka til þess tíma er menn ræddu um frjálsar útvarpsstöðvar, frelsi í ljósvakafjölmiðlun. Þá fóru fram gríðarlega miklar umræður um þessi mál. Ég ætla að velta því upp og við sem hér erum inni ættum að veltum aðeins fyrir okkur hvernig mönnum hefði gengið að setja á laggirnar frjálsar útvarpsstöðvar í því samkeppnisumhverfi að annars vegar hefði verið ríkisfyrirtæki sem ræki hinn stóra fjölmiðil og síðan einn takmarkandi þáttur varðandi tekjuöflunina, að tekjuöflunin væri með þeim hætti, eins og við sjáum, að menn hafi ekki aðgang að auglýsingatekjum vegna eignarhaldsins að öðru leyti á markaðnum. Við sjáum auðvitað í hendi okkar að við slíkar aðstæður hefðu aldrei orðið til útvarpsstöðvar eins og Bylgjan. Hún hefði einfaldlega aldrei getað þrifist. Hún hefði aldrei átt séns, hún hefði ekki getað haft áskriftartekjur og ekki átt möguleika á auglýsingum. Þetta er í samræmi við það sem fram hefur komið, t.d. í viðtali við framkvæmdastjóra Skjás 1. Hann segir að við þessar aðstæður sé leikurinn svo ójafn að hann hlyti að tapa á einu til einu og hálfu ári. Leikreglurnar eru einfaldlega þannig, virðulegi forseti, að sá sem tekur þátt í samkeppninni tapar vegna þess að aðstæðurnar eru svo slakar.

Við höfum líka, virðulegi forseti, sett lög til að bregðast við á fleiri sviðum þar sem svo háttar til að aðgangur að markaðnum er takmarkaður. Í þessu sambandi er augljósast að ræða um sjávarútveginn. Hvers vegna tókum við það til bragðs á sínum tíma að setja sérstök lög um hámarkskvótaeign í sjávarútvegi? Það var vegna þess að við tókum tillit til ástandsins sem þar var, takmarkaður aðgangur að auðlindinni sem leiddi til þess að gríðarleg samþjöppun varð í greininni. Samkeppnisstofnun kom inn í málið á sínum tíma, fyrir þá nefnd sem undirbjó þá löggjöf og ég veit það glöggt því að ég sat sjálfur í þeirri nefnd. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar varð sú að samkeppnislög tækju ekki á þessu, að 10% kvótaeign í sjávarútvegi væri ekki markaðstruflandi að mati Samkeppnisstofnunar, 20% kannski tæplega. Þess vegna var augljóst að setja yrði sérlög. Með leyfi virðulegs forseta vil ég vitna aðeins í þá skýrslu sem gerð var um þetta. Þar segir að: ,,Of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni þýði að viðkomandi fái mikil völd í þjóðfélaginu og staða þeirra sem ráða útgerðarfyrirtækjunum geti orðið of sterk gagnvart stjórnvöldum, lánastofnunum og starfsfólki. Þeir sem væru fyrir í greininni gætu í raun ráðið hverjir kæmu nýir inn og gætu þannig komið í veg fyrir eðlilega samkeppni. Það stafi m.a. af þeirri sérstöðu í þessari atvinnugrein að nauðsynlegt sé að takmarka aðgang að auðlindinni og því sé t.d. ekki hægt að veita nýjum skipum rétt til veiða án þess að annað sambærilegt skip hverfi úr rekstri í þess stað. Eina leiðin fyrir nýja aðila til að koma inn í atvinnugreinina sé því að kaupa út þá sem fyrir eru.``

Þarna er verið að útlista í fáeinum orðum þær aðstæður sem uppi eru þegar aðgangur að markaði er annaðhvort erfiður eða takmarkaður með einhverjum hætti.

Menn spyrja hvort þetta séu brot á stjórnarskrá, hvort það að við setjum leikreglur sem hafa í för með sér kröfu um tiltekna dreifingu eignarhalds sé brot á stjórnarskrá. Mig rekur satt að segja ekki minni til þess, virðulegi forseti, að t.d. þegar við ræddum þau mál sem lúta að sjávarútveginum, og ég gerði að umræðuefni, hafi menn velt því fyrir sér. Menn höfðu ekki áhyggjur af því að svo væri.

Á það ber að líta að lagasetning um fjölmiðla mundi hafa áhrif á þann veruleika sem við búum við. Vissulega munu þau hafa áhrif á þann veruleika vegna þess að við erum að breyta leikreglunum, við erum að breyta þeim með almennum hætti og þær munu hafa áhrif á þá sem starfa á þeim vettvangi á þessari stundu vegna þess að þarna er stuðlað að aukinni valddreifingu og dreifingu á eignarhaldi. Út á það gengur þetta frv. fyrst og fremst og eingöngu.

Samf. hefur í málflutningi sínum reynt að leggja áherslu á aðra þætti. Í till. til þál. um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði er m.a. sagt, með leyfi forseta, um nefnd sem flokkurinn vill að verði sett á laggirnar til að fara ofan í þessi mál:

,,Nefndin athugi hvernig hægt sé að stuðla að sem mestu sjálfstæði ritstjórnar gagnvart eigendum fjölmiðla ...``

Nú skulum við velta fyrir okkur því hvernig það yrði gert. Það verður ekki gert nema með því að hafa áhrif til inngrips í fjölmiðlaumhverfið í landinu. Er ekki t.d. augljóst mál að nefnd sem gerði tillögur í þessum efnum hlyti að kveða á um það í tillögum sínum með einhverjum hætti hvort eigendur og ritstjórar gætu verið einn og sami maðurinn, hvort maður í stjórn tiltekins fyrirtækis gæti líka verið ritstjóri blaðs? Getur eigandi fyrirtækis sem á í hlut og situr í stjórn líka verið sjónvarpsstjóri og þar fram eftir götunum? Ég reyndi að skoða þessa tillögu í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir í hinni stórfróðlegu skýrslu fjölmiðlanefndarinnar sem við höfum verið að fjalla um, sem er grundvöllur þeirrar löggjafar sem við erum hér að undirbúa að verði sett. (Gripið fram í.) Þegar ég skoða þetta sé ég t.d. að einn og sami maðurinn er meðstjórnandi í fyrirtækinu Frétt ehf., sem annast blaðaútgáfu, og er líka í stjórnum fyrirtækisins Norðurljósa en er jafnframt aðalritstjóri útbreiddasta blaðs Íslands, sem er í eigu hinna sömu manna. Er þá ekki augljóst mál, virðulegi forseti, að þetta mundi hafa áhrif, vera bein inngrip í stjórnunarhætti þess fyrirtækis? Vakna þá engar spurningar um það hvort hér væri á einhvern hátt um að ræða stjórnarskrárbrot, hvort hér væri um að ræða árás á athafnafrelsið o.s.frv. eins og menn hafa verið að tala um? (Gripið fram í: Við skulum skoða það.)

Ég er alveg sammála því, virðulegi forseti, og er sannfærður um að tillaga af þessu tagi stæðist prýðilega athugun á stjórnarskrárlegum þáttum. Ég er algjörlega sammála því. Þetta sýnir að sérlög af þessu tagi, sem er ætlað að reyna að tryggja aukna valddreifingu, skýrari skil, meiri eignadreifingu, eru fullkomlega í samræmi við stjórnarskrá landsins og mjög í samræmi við þá löggjöf sem við höfum verið að setja, sem er oft og tíðum einmitt til þess fallin að stuðla að tiltekinni eignadreifingu í þjóðfélaginu.

Í þessu sambandi hlýt ég að minnast á það að menn hafa mjög rætt um það hvort ásetningur frv. og frv. sjálft, sem felur í sér kröfu um tiltekna eignadreifingu, sé óeðlilegt inngrip og hafi áhrif á eignarréttinn í þjóðfélaginu. Nú vill svo til að tveir þeirra sem gagnrýnt hafa þetta frv. fluttu á Alþingi, veturinn 1999--2000, frv. til laga um dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson. Tillaga þeirra var mjög afdráttarlaus. Þeir vildu setja í lög hvernig eignarhaldi skyldi háttað í viðskiptabönkum landsins. Niðurstaða þeirra varð sú að setja í lög eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

,,Einstökum aðilum, öðrum en ríkissjóði, og skyldum og/eða fjárhagslega tengdum aðilum er óheimilt að eiga meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka.`` --- (Gripið fram í.) --- ,,Viðskiptabanki skal reglulega tilkynna Fjármálaeftirlitinu um samsetningu hluthafa og án tafar ef eignarhlutur einstaks aðila fer yfir fyrrgreind mörk. Hluthafi í viðskiptabanka skal tafarlaust gera Fjármálaeftirlitinu viðvart hafi hann ástæðu til að ætla að eign hans í viðskiptabanka kunni að yfirstíga fyrrgreind mörk.`` --- Þeir segja síðan að skyldir aðilar og/eða fjárhagslega tengdir skuli teljast, og vek ég m.a. athygli á þessu: ,,skyldmenni í beinan legg, bræður eða systur, systkinabörn, systkini föður eða móður eða tengdir aðilar með sama hætti vegna ættleiðingar. Foreldrar, börn, bræður og/eða systur maka eða sambýlisaðila``.

Hér er þetta nákvæmlega saumað niður, mann fyrir mann, jafnvel einstakling fyrir einstakling, nákvæmlega hvernig þessu skuli háttað. Ég fór í gegnum þessa umræðu og skoðaði hana. Það var athyglisvert að menn höfðu ýmsar efasemdir um þessa löggjöf. En ég gat ekki séð að menn hefðu efasemdir um að þetta stæðist stjórnarskrá. Á þeim tíma var mikill áhugi á því í þjóðfélaginu að tryggja dreifða eignaraðild að viðskiptabönkum. Menn vildu setja það í lög til að tryggja að dreifð eignaraðild ætti sér stað, enginn ætti, hvorki t.d. foreldrar, börn, bræður og/eða systur maka, meira en 8% hlutafjár í viðskiptabanka.

Það sem ég hef verið að segja hér og vekja athygli á er að við höfum á undanförnum fært okkur í þá átt, með löggjöfinni, með sérlögum og hugmyndum að löggjöf, eins og kemur fram í því sem ég hef verið að tala um, að reyna að tryggja tiltekna valddreifingu og eignadreifingu í þjóðfélagi okkar. Við höfum ekki talið það brot á stjórnarskrá, öðru nær. Við höfum talið það lið í því að búa til einhvers konar valddreifingu í þjóðfélaginu, eins og við vildum sjá það.

Ég sakna þess að hér skuli ekki vera neinn frá Vinstri grænum. Mig langaði nefnilega að víkja aðeins að málflutningi þeirra, m.a. í ljósi þeirrar lagasetningar sem ég var að tala um. (Gripið fram í.) Ég sé hins vegar marga gamla flokksbræður vinstri grænna og þeim gæti kannski runnið blóðið til skyldunnar, að taka upp hanskann og útskýra málin ef tækifæri gefst til á eftir. Ég sé að ýmsir hafa þegar beðið um orðið í andsvörum þannig að ég geri ráð fyrir að þeir muni nýta hinn rýmilega tíma sem þeir fá á eftir, eina mínútu eða svo, til að útskýra betur stefnu Vinstri grænna í þessum efnum. (Gripið fram í.)

[20:45]

Það kom mér mikið á óvart þegar ég fór að velta málinu fyrir mér og skoða það í ljósi sögunnar, hinu sögulega ljósi --- nú er ég farinn að tala eins og marxisti --- að Vinstri grænir höfðu uppi mjög ákveðnar skoðanir í þessum efnum. Þeir fluttu með okkur, m.a. með flokkssystkinum mínum, tillögu varðandi fjölmiðlana. Þeir höfðu flutt frv. sem ég hef þegar farið aðeins yfir og fyrsti flutningsmaður þáltill. sem ég nefndi áðan, hv. varaþingmaður Álfheiður Ingadóttir, kom m.a. í ræðustól Alþingis og innti hæstv. forsrh. eftir skoðunum hans á stöðu mála í fjölmiðlun. Hún var út fyrir sig ekkert að skafa utan af því og taldi að m.a. í Ameríku væri leyfilegt að kveða á um þessa dreifingu. Hún benti í því sambandi á að ef svo færi að mikil samþjöppun valds yrði á fjölmiðlasviðinu þá mundi það óneitanlega hafa bein áhrif á viðbrögð og starfshætti eftirlitsstofnana þessa þjóðfélags. Hún spurði sem svo: Hvað verður um ístöðu og hvað verður um staðfestu? Hvað verður um staðfestu Samkeppnisstofnunar þegar hún liggur undir gusugangi frá þessum stóru og öflugu fjölmiðlum? Af því mátti skilja að hv. þm. hefði nokkrar áhyggjur af því hvernig færi í slíkum slag. Það er út af fyrir sig athyglisverð ábending frá hv. þm. sem tilefni gæti verið til að fjalla aðeins um.

Það hefur komið mér á óvart hversu mjög mér finnst vinstri grænir nánast hafa gengið í björg í þessari umræðu. Mér virðist sem þeir hafi í meginatriðum siglt upp að hliðinni eða í kjölfar samfylkingarmanna og tiltekinna fjölmiðlarisa, fjölmiðlasamsteypna. Það hefur verið mjög örðugt fyrir utanaðkomandi að átta sig á muninum þó að þeir hafi í öðru orðinu reynt að árétta sérstöðu sína. Nú gengur hv. þm. Ögmundur Jónasson í salinn og fagna ég því alveg sérstaklega. Mér hefur fundist erfitt --- ég hef verið ákafur áhorfandi að þessari umræðu og mér hefur fundist fróðlegt að fylgjast með henni og hef setið hér dagana langa --- að átta mig á því hver hin raunverulega sérstaða Vinstri grænna er. Ég veit að þeir tala með þeim hætti að á köflum mætti ætla að þeir hefðu heldur önnur sjónarmið en bæði Samf. og stóru fjölmiðlarisarnir, svo ég noti bara orðalag sem þeir kannast við, sjálft auðvaldið í fjölmiðlaheiminum. Mér hefur hins vegar gengið mjög illa að átta mig á því hvar mismunurinn liggur.

Virðulegi forseti. Kannast hlustendur við heimasíðuna ogmundur.is? (Gripið fram í: Heldur betur.) Ég er einn þeirra sem les hana líka reglulega, m.a. til þess að átta mig á því hver er munurinn á skoðunum ogmundur.is og Samf., stórauðvaldsins í fjölmiðlaheiminum. Og sjá, þar getur að líta að ég virðist ekki alveg vera einn í heiminum með þennan vandræðagang. Á þeirri merku heimasíðu birtist ákaflega fróðleg og athyglisverð grein, skarplega skrifuð, af gömlum samverkamanni þeirra hv. þm. Marðar Árnasonar og Össurar Skarphéðinssonar, Helga Guðmundssyni, fyrrv. ritstjóra Þjóðviljans. Hann skrifar grein á ogmundur.is. (ÖS: Hver?) Helgi Guðmundsson, fyrrv. starfsfélagi eða kollegi hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hann var ritstjóri Þjóðviljans. (ÖS: Settur mér til höfuðs af flokknum.) Hann skrifaði grein sem heitir ,,Til vinstri við vinstri``, og hefst nú lesturinn, með leyfi virðulegs forseta:

,,Röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar gegn fjölmiðlafrumvarpinu er háalvarlegt mál. Hún heldur því fram að væntanleg lög muni skerða atvinnufrelsi manna og tilfærir einnig að lán bankanna til Norðurljósa verði í uppnámi, að hætta sé á að lífeyrissjóðir tapi tveimur milljörðum sem þeir eigi hjá Norðurljósum, ef frumvarp ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga. Auk þess bendir hún á að atvinna starfsmanna fyrirtækisins kunni að vera í hættu, sem vissulega er ekkert grín.

,,Vinstri sinnuð`` stjórnarandstaða hefur með öðrum orðum meiri áhyggjur af að bankar og stóreignamenn tapi á lánum og fjárfestingum heldur en vörnum almennings gegn því að einn eða örfáir aðilar ráði ljósvakafjölmiðlun í landinu (annarri en Ríkisútvarpsins). Sé það rétt að tveir milljarðar af peningum lífeyrissjóða séu í hættu hlýtur það að vera vegna þess að einhverjir sjóðir hafi lánað Norðurljósum þessa upphæð, því lífeyrissjóðsiðgjöld eru varin af ábyrgðarsjóði launa við gjaldþrot. Hvergi hefur orðið vart við að stjórnarandstaðan hafi spurt hvort þetta hafi verið skynsamleg ráðstöfun, hvort réttlætanlegt hafi verið að lána Jóni Ólafssyni og félögum slíka upphæð.

Stjórnarandstaðan hefur gert öll rök auðmanna gegn frumvarpinu að sínum en gerir lítið eða ekkert með rök þeirra sem segja: Það er nauðsynlegt að setja samþjöppun á eignarhaldi á fjölmiðlum skorður með lögum. Steingrímur J. Sigfússon hefur auk þess undanfarna daga sagt að málsmeðferðin sé forkastanleg og þess vegna verði VG á móti. Með öðrum orðum: aðferðin skiptir meira máli en afleiðingarnar --- geðvonskan í Davíð Oddssyni gerir málið ónýtt samkvæmt þessu.``

Þetta eru mjög fróðlegar athugasemdir. Þó að við Helgi Guðmundsson séum örugglega ekki sammála í stjórnmálum þá verð ég að játa að á margan hátt endurspeglast í grein hans vandræði mín við að átta mig á hver væru skilin á milli manna, annars vegar milli þeirra sem hann kallar auðmenn, þ.e. þeirra sem halda utan um mesta fjölmiðlarisa á Íslandi sem ræður 2/3 af fjölmiðlamarkaðnum á hinum frjálsa markaði, hv. þingmanna Samf. og hv. þingmanna Vinstri grænna. Úr því að svo er að pistlahöfundur á ogmundur.is er í þessum vandræðum þá er mér kannski vorkunn. Enn vil ég leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna í þessa ágætu grein, vegna þess að mér finnst hún vera dálítið lýsandi. Greinarhöfundur spyr:

,,Ætlar þú að reka sjálfstæða ritstjórnarstefnu? Að sjálfsögðu hefur eigandi fjölmiðils fullan rétt til að spyrja svona og það er alls ekki hægt að lögþvinga hann til að hafa fólk í vinnu sem heldur úti öðruvísi fjölmiðli en hann vill --- má reyndar mikið vera ef Sigurður G. Guðjónsson notaði ekki einmitt orðalagið að vera ekki í liðinu þegar hann vék fréttamanni Stöðvar 2 úr starfi fyrir nokkrum mánuðum.

Röksemdafærsla stjórnarandstöðunnar er alvarleg vegna þess að hún er yfirlýsing um að ef ,,vinstri`` flokkar komast í stjórn muni þeir ekki setja nein lög sem takmarka samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Þegar af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að setja lög um það efni í þessari lotu. Sé fallist á röksemdir stjórnarandstöðuflokkanna leiðir það til þess að hinir sterku og ríku eiga sífellt auðveldara með að ráðskast með alla skapaða hluti í samfélaginu. Réttur almennings til varnar gegn valdi þeirra á fjölmiðlasviði virðist í því samhengi vera aukaatriði hjá ,,vinstri`` mönnum en skipta máli hjá þeim sem eru til ,,hægri``.``

Að lokum segir Helgi Guðmundsson, með leyfi forseta:

,,Er nú tímabært að spyrja: Hvað er eiginlega um að vera í pólitíkinni? Hefur ,,vinstrið`` ruglast gersamlega í ríminu?``

Þetta, virðulegi forseti, fannst mér á margan hátt athyglisverð nálgun og athyglisvert ljós sem þessi gamli ritstjóri Þjóðviljans varpar á þetta mál. Mér fannst því ástæða til að fara aðeins yfir þetta frekar.

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér talað lengur um þetta mál en ég ætlaði í upphafi. Ég ætlaði aðeins að reifa meginsjónarmið í málinu. Ég vil þó í þessu sambandi vekja athygli á því að við erum komin áleiðis í 3. umr. málsins. Þetta mál hefur fengið mikla umfjöllun í þinginu, t.d. í hv. allshn. eins og ég rakti áðan. Fjölmargir hafa haft tækifæri til að tjá hug sinn til málsins hjá nefndinni í heimsóknum, með skriflegum athugasemdum og auðvitað í hinni kröftugu umræðu í þjóðfélaginu. Þetta hefur líka haft þau áhrif að margt hefur breyst í þessu frv. frá því að það var fyrst lagt fram fyrir allmörgum vikum. Þær breytingar hafa fyrst og fremst miðast að því að koma til móts við það sem við í stjórnarflokkunum höfum talið málefnalegar aðfinnslur, málefnalegar ábendingar sem ættu að verða til þess að styrkja þá löggjöf sem hér á að setja.

Hvað sem menn segja í sínum stórorðu yfirlýsingum í þessari umræðu þá er þetta dæmi um að þingið er í sjálfu sér að taka á málum, það bregst við þeirri gagnrýni sem upp kemur. Nú geta menn deilt um efni þess og ég hafði gert mér vonir um að menn reyndu að ná betur saman, eftir því sem málinu hefur undið fram og frekari breytingar verið gerðar. Það hefur verið brugðist við ábendingum varðandi stjórnarskrána og ábendingum manna sem hafa viljað tryggja að markaðsráðandi aðilar gætu átt hlut í fjölmiðlafyrirtækjum. Það var gert með því að gera dálitla opnun án þess að markaðsráðandi aðilar gætu ráðið algerlega fjölmiðlaflórunni í landinu. Það var líka gert með þeim hætti að hækka hlutfallið sem einstakir eigendur gætu átt til þess að tryggja að hin fjárhagslega staða fjölmiðlanna væri sterkari.

Ég hafði, virðulegi forseti, vænst þess að þetta yrði til þess að menn kæmust nær hver öðrum í þessari umræðu. Það hefur því miður ekki gerst og eftir sem áður er augljóst að um þetta mál er bullandi ágreiningur í þinginu. Það verður hins vegar að koma í ljós við atkvæðagreiðslu hversu langt sá ágreiningur nær.

Ég hafði gert mér sérstakar vonir um að flokkur Vinstri grænna stæði ríkisstjórnarflokkunum við hlið í þessum efnum. Mér fannst mjög margt í þeirra fortíð og margt í þeirra tillöguflutningi benda til þess, m.a. varðandi viðskiptabankana sem ég vakti athygli á sem er út af fyrir sig sambærileg lagasetning á margan hátt, en það varð ekki. Þeir kusu að elta Samf. uppi, hlaupa hana uppi og komast helst upp að hlið hennar. Þetta hefur, eins og Helgi Guðmundsson rakti í sinni athyglisverðu grein, gert það að verkum að við sem utan við þennan flokk stöndum og reyndar Helgi Guðmundsson, sem er í flokknum eftir því sem ég best veit, eigum bágt með að skilja á hvaða vegferð sá flokkur er.