Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:01:43 (8707)

2004-05-19 21:01:43# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:01]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn hlaupa nú úr einu skjólinu í annað. Þegar þetta mál kom fyrst fram var fyrst og fremst numið staðar við það ákvæði frv. sem kvað á um það að útvarpsleyfin skyldu renna út á tilteknum tíma. Nú hefur því ákvæði verið breytt þannig að núna fá útvarpsleyfin að ganga sinn gang ef þannig má að orði komast. Þar með var auðvitað brugðist við því sem var langalvarlegasta ábendingin, eins og ég hef líka sagt. Það hefur komið fram hjá þeim lögmanni sem menn hafa hvað tíðast vitnað til að það er auðvitað grundvallarbreyting á frv.

Í þessu sambandi vek ég líka athygli á því að þetta fyrirkomulag sem við erum hér að innleiða er ekkert einsdæmi. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir flutti t.d. á sínum tíma þáltill. um þetta mál og vakti m.a. athygli á því í ræðu hér í þinginu að þannig væri þetta í Bandaríkjunum. Við erum hér auðvitað að feta svipaða slóð og aðrar þjóðir hafa gert í ýmsum efnum.