Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:06:31 (8711)

2004-05-19 21:06:31# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:06]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegur forseti. (Gripið fram í: Svaraðu þessu.) Það sem greinilega vakir fyrir hv. þingmanni er að berjast fyrir því að það sé alveg tryggt að markaðsráðandi fyrirtæki hafi sem mest svigrúm til að fjárfesta í fjölmiðlafyrirtækjum. Það getur vel verið að hann hafi þá lífshugsjón að það sé mjög mikilvægt að markaðsráðandi fyrirtæki í landinu, hinir stóru aðilar, hafi líka tökin á fjölmiðlunum í landinu. (Gripið fram í: Svaraðu spurningunni.) Ég er hins vegar algjörlega ósammála því. Ég vil vekja athygli á ræðu sem formaður hans ágæta flokks flutti um þetta mál þar sem hann sagði sem svo að það væri mjög alvarlegt ef það væru einfaldlega hinir stóru verslunarhringir og sjávarútvegsfyrirtækin í landinu sem mundu síðan ríkja yfir þessum fjölmiðlafyrirtækjum.

Ég vek athygli á því að samkvæmt þessu frv. og þeim brtt. sem við höfum þegar á því gert er í fyrsta lagi nú möguleiki fyrir markaðsráðandi fyrirtæki að eiga allt að 5%. Það er líka búið að hækka það hlutfall sem einstakir aðilar mega þarna eiga. Ég held að það lýsi vankunnáttu og vanþekkingu á íslenskum fjármagnsmarkaði ef menn ætla að ekki sé hægt að búa til hóp manna og fyrirtækja til að standa að öflugum fjölmiðlarekstri í landinu öðruvísi en að hann sé í klónum á markaðsráðandi fyrirtækjum, nema það sé orðin sérstök hugsjón tiltekinna þingmanna. (Gripið fram í: Þú svaraðir ekki.)