Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:12:58 (8716)

2004-05-19 21:12:58# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:12]

Ásgeir Friðgeirsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að hann hafði ekki fullan skilning á þeim hugmyndum sem Samf. hefur sett fram varðandi leiðir að því marki sem hér er talað um, fjölbreytni í fjölmiðlun. Það er í fyrsta lagi gagnsæi þar sem við viljum tryggja að lesendur, áhorfendur, birgjar og auglýsendur séu upplýstir um hverjir eru eigendur. Þetta er aðferð til þess að nýta krafta og tæki markaðarins til að ná þessu marki.

Í öðru lagi tölum við um sjálfstæði ritstjórna. Þar förum við þær leiðir sem eru farnar í fjármálafyrirtækjum. Þar eru ítarleg lög um innri reglur og skipulag sem miða að því að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Þetta er þekkt. Þetta er eðlilegt. Ég spyr: Telur hv. þm. ekki að þessar leiðir séu áfangi að því marki sem sett er með frv., sum sé fjölbreyttir og sjálfstæðir fjölmiðlar?