Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 21:14:11 (8717)

2004-05-19 21:14:11# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[21:14]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur margoft komið fram að þetta frv. getur í sjálfu sér verið áfangi á þeirri leið. Menn hafa líka talað um að það sé sjálfsagt að þessi mál verði unnin áfram, m.a. af þeirri fjölmiðlanefnd sem bjó til fjölmiðlaskýrsluna sem er grundvöllur frv. Ég spurði hins vegar einfaldrar spurningar: Munu ekki hugmyndir Samf. um þetta sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum sínum, gagnvart eigendum fjölmiðlanna, hafa áhrif, beint inngrip í rekstur tiltekinna fjölmiðla? Ég nefndi auðvitað þann fjölmiðlarisa sem oft hefur komið til tals í þessari umræðu. Ég vakti athygli á því að þar væri skipulag með þeim hætti að það væri augljóst mál að tillaga Samf. varðaði beint inngrip í þann rekstur.

Ég tel mjög mikilvægt, virðulegi forseti, fyrir þessa umræðu, að hv. þm. sem er einn flutningsmanna, hann er 2. flutningsmaður að þessari tillögu, svari því skýrt og skorinort hvort þetta væri ekki tilskipun um að það yrði að stokka upp fyrirkomulag í þessu tiltekna fyrirtæki og hvort hann teldi þá að þetta væri sértæk löggjöf sem beindist gegn einu og sama fyrirtækinu. Mér sýnist á þessari skýrslu fjölmiðlanefndar að það sé eina fyrirtækið sem þessi tilskipun mundi þá snerta.