Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 19. maí 2004, kl. 22:02:23 (8722)

2004-05-19 22:02:23# 130. lþ. 120.19 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 130. lþ.

[22:02]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Við erum komin góðan spöl inn í 3. umr. um fjórða tilbrigðið við þessa miklu sinfóníu stjórnarflokkanna, þessa miklu fjölmiðlasinfóníu stjórnarflokkanna, fjölmiðlafrumvarpið umdeilda, sem skekið hefur þjóðfélagið undanfarnar vikur. Sér vart fyrir endann á henni og í raun og veru veit enginn hverjar afleiðingarnar verða. Ég tel þó nokkuð ljóst, hæstv. forseti, að frv. verði samþykkt hér innan örfárra daga í þeirri mynd sem það liggur nú fyrir þinginu. Ég verð að segja að mér þykir það miður. Ég hef svo sem komið hér upp áður og flutt ræður gegn þessu frv. og skoðun mín á því hefur ekkert breyst þótt það sé enn og aftur komið hér fyrir þingið, en í nokkuð breyttri mynd. Ég tel að það sé vanreifað og þurfi miklu meiri umræðu. Það tekur ekki á mörgum þáttum sem svo sannarlega hefði þurft að taka á, t.d. varðandi fjölmiðlun. Það er bara talað í þessu frv. um prentmiðla og ljósvakamiðla en t.d. ekkert minnst á aðra fjölmiðla og aðferðir við dreifingu á fjölmiðlaefni. Við höfum þessar spurningar sem margir hafa farið hér yfir varðandi það hvort frv. standist stjórnarskrá. Það eru miklar efasemdir um að það leiði til þess að fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun, sem reyndar hefur aldrei verið jafngríðarlega mikil og nú, muni aukast. Sennilega mun frv. leiða til þess að fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun minnki.

Ótal aðra þætti mætti draga inn, virðulegi forseti, gegn frv. en ég tel að það væri að bera í bakkafullan lækinn að ætla að tíunda það eitthvað frekar. Ég tel að flest sem segja þarf hvað það varðar hafi þegar verið sagt og ég sé í sjálfu sér ekki voðalega mikla ástæðu til að tíunda það neitt frekar.

Eitt af því sem ég hef tekið eftir í dag við 3. umr. er að óvenjumargir stjórnarliðar hafa kvatt sér hljóðs. Það er nýlunda í þessari löngu og miklu maraþonumræðu sem verið hefur hér í þinginu. Stjórnarliðar hafa fram að þessu flestir kosið að þegja og viðvera þeirra við umræðurnar í þingsal hefur verið frekar slöpp svo ekki meira sé sagt og ráðherrar hafa verið afskaplega sjaldséðir fram til þessa. Það er að sjálfsögðu mjög miður.

Ég hef tekið eftir því í dag að a.m.k. tveir hv. þm. Sjálfstfl. hafa, í einhvers konar nauðvörn að ég tel fyrir þessu frv., reynt að útmála stjórnarandstöðuflokkana sem óábyrga í málinu og sagt þá leika tveimur skjöldum. Svo dæmi sé tekið atyrðir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson málflutning þeirra í grein á vefritinu Bæjarins besta, sem birtist í gær eða fyrradag. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er því til marks um ótrúlega hræsni og yfirdrepsskap þegar menn tala annars vegar um lagasetningu um fjölmiðla en reisa sig og reigja sig yfir því að fjölmiðlafrumvarpið sem Alþingi ræðir nú valdi röskun á starfsumhverfi fjölmiðlanna.``

Hér er hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson að býsnast yfir því að hann telji að við í stjórnarandstöðunni séum núna alfarið á móti því að einhvers konar lagarammi sé settur um eignaraðild að íslenskum fjölmiðlum. Þetta er bara alls ekki rétt. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson reyndi líka að leika þennan leik í ræðu sem hann hélt hér síðdegis. Þetta er bara alls ekki rétt, hæstv. forseti. Stjórnarandstöðuflokkarnir vöktu máls á þessu löngu fyrir jól. Strax í fyrrahaust kom till. til þál., sameiginleg tillaga Vinstri grænna, Sjálfstfl., Framsfl. og Frjálsl., þ.e. fjögurra þingflokka af fimm, þar sem lagt var til að Alþingi mundi þá álykta að skipuð yrði nefnd með fulltrúum allra þingflokka. Þessi nefnd átti einmitt að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á markaðnum, fjölmiðlamarkaðnum, hvert stefndi og hvort það væri einmitt þörf fyrir lagasetningu eða einhverjar aðgerðir til þess að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi.

Það er alls ekki rétt, hæstv. forseti, að við höfum ekki viljað fara í þessa vinnu. Við höfum viljað fara í þessa vinnu. Við lýstum því yfir löngu fyrir áramót að við værum reiðubúin að fara í þessa vinnu með stjórnarflokkunum. Því miður var sú leið ekki farin. Það var ákveðið að fara í þessa vinnu án samráðs við stjórnarandstöðuna, án samráðs við þá aðila sem málið varðar mest, þ.e. fólkið sem vinnur t.d. á þessum fjölmiðlum í dag, svo sem samtök blaðamanna og eigendur þessara fjölmiðla. Svona má lengi telja. Við vildum fara í þessa vinnu en það var ekki haft neitt samráð. Í staðinn voru fjórir menn úti í bæ, flokksgæðingar, settir í þá vinnu að búa til fjölmiðlaskýrslu fyrir menntmrh. sem síðan var haldið leyndri fyrir þinginu vikum saman á meðan verið var að sjóða saman þetta frv. sem nú verður sennilega samþykkt, frv. sem mjög sennilega er samið í Stjórnarráðinu og ber öll einkenni þess að hæstv. forsrh. hafi verið potturinn og pannan í því. Ég tel að þessi vinnubrögð hafi fyrst og fremst valdið því að málið hefur farið í þann farveg sem það hefur farið í og þingið þannig lent í þeim ófærum sem það hefur verið í í marga daga, fleiri vikur.

Ég hef margoft sagt það hér í ræðustól, og get endurtekið það enn, að ég tel að menn hefðu átt að fara sér hægar í þessu máli. Að sjálfsögðu hefði átt að skoða það. Það skortir heildstæða löggjöf um fjölmiðlarekstur á Íslandi. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar. Það skortir líka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Þetta er svo stórt mál, varðar svo marga, varðar hagsmuni allrar þjóðarinnar, og þess vegna tel ég að það verði að hafa um það víðtækt samráð. Þetta er í raun og veru ekkert flokkspólitískt mál. Þetta varðar okkur öll. Það tel ég að sé kjarni málsins. Því miður hafa stjórnarflokkarnir valið þá leið að keyra þetta eftir eigin höfði og reyna síðan að troða því í gegnum þingið með miklu offorsi og að ég tel oft og tíðum mikilli óbilgirni í vinnubrögðum. Þetta hefur að sjálfsögðu hleypt öllu í bál og brand. Þetta hefur gert það að verkum að stór hluti þjóðarinnar hefur risið upp á afturfæturna, ef svo má segja, og andmælt vinnubrögðunum.

Ég vildi bara að þetta kæmi fram því að ég reikna með að þetta sé síðasta ræðan mín í þessu máli, hæstv. forseti. Í raun og veru vona ég að svo sé því að ég tel, eins og ég kannski ýjaði að í upphafi máls míns, að búið sé að segja það mesta sem segja þarf í sambandi við þessar umræður. Það er þegar búið að segja það í sölum hins háa Alþingis og kominn tími til að fara að binda endi á þetta mál svo að hið háa Alþingi geti farið að snúa sér að öðrum málum. Ég tel nokkuð ljóst að þetta frv. verði á endanum samþykkt þótt það sé reyndar mjög umdeilt í báðum stjórnarflokkunum, bæði Sjálfstfl. og Framsfl. Skyldi engan undra.

Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að tala um hvernig málum varðandi þetta frv. er háttað í þingflokki Sjálfstfl. Í málsmeðferðinni virðist hafa tekist, a.m.k. á yfirborðinu, að halda honum saman, að berja menn saman ef svo má segja. Þingmenn Sjálfstfl., jafnvel þeir sem maður hefði kannski síst vænst að mundu láta hafa sig út í þetta verk, þ.e. yngstu þingmenn Sjálfstfl., hafa verið fremstir í stormsveit þeirra sem hafa unnið að því að koma frv. í gegn. Þeir hafa að sjálfsögðu uppskorið mikla gagnrýni fyrir það, ekki bara á hinu háa Alþingi, heldur líka úti í þjóðfélaginu. En þeir um það. Ég ætla ekki að fara að skipta mér svo mjög af því hvernig þeir hafa kosið að haga málum sínum hvað þetta varðar.

Hitt vekur þó meiri athygli mína, það að Framsfl. virðist gersamlega klofinn í herðar niður í þessu máli. Þar ríkir fullkomin upplausn, upplausn sem hefur komið fram með miklu skýrari hætti en sundrungin í Sjálfstfl. Þingmenn og ráðherrar Framsfl. í ríkisstjórn Íslands hafa varla látið sjá sig við umræðurnar. Þeir hafa í mjög litlum mæli tekið þátt í þeim. Það hefur verið eftirtektarvert að t.d. ráðherra á borð við hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson sem, ef guð og Sjálfstfl. lofa, tekur við embætti forsrh. í haust, sá ekki ástæðu til að tjá sig um málið í ræðustól hins háa Alþingis fyrr en í dag, í 3. umr. um þetta mál. Þá fyrst kemur hann fram og tjáir sig um málið úr ræðustól. Þetta er alveg með ólíkindum.

Annar ráðherra, hæstv. viðskrh., Valgerður Sverrisdóttir, hefur ekki sagt bofs um þetta mál, ekki eitt einasta orð, sjálfur hæstv. viðskrh. þessa lands, í þessu mikilvæga máli sem svo sannarlega varðar mjög mikla viðskiptahagsmuni, marga milljarða, skuldir í bankakerfinu, lífeyrissjóðum o.s.frv. Þetta er líka mál sem varðar atvinnuöryggi hundruða fólks. Þetta finnst mér hafa verið alveg með eindæmum. Aðrir þingmenn Framsfl. hafa, eins og ég sagði áðan, varla talað í þessu máli. Jafnvel þótt þeir sitji í mikilvægum nefndum eins og t.d. allshn. eða efh.- og viðskn. hafa þeir ekki séð ástæðu til að koma upp í ræðustól og skýra sjónarmið sitt. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir er gott dæmi um það. Hún hefur ekkert talað í þessu máli, eða mjög lítið. Hún hefur, jú, reyndar sé ég hér, flutt eina ræðu og fimm eða sex andsvör. Það er allt og sumt.

Þetta finnst mér hafa verið mjög eftirtektarvert. Varaformaður Framsfl., hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson, ekki eitt einasta orð hefur heyrst frá honum í allri þessari umræðu. Hv. þm. Birkir Jónsson, ekki eitt einasta orð. Hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir, það hefur ekkert heyrst frá henni, ekki nokkur skapaður hlutur.

Mér finnst þetta bera vitni um ákveðinn heigulshátt, ég verð að fá að segja það, að þingmenn og ráðherrar stjórnarflokks sem er að koma mjög umdeildu frv. í gegnum þingið skuli ekki hafa burði í sér til að koma upp í ræðustól og tjá sig, að þingmenn og ráðherrar í flokki sem þó hefur ekki fleiri fulltrúa á þingi skuli ekki tjá sig um þetta mál finnst mér alveg með ólíkindum.

Það mega þó bæði ráðherrar, margir, og líka þingmenn Sjálfstfl. eiga að þeir hafa þó komið hér upp þótt ég hafi reyndar saknað þess að hæstv. fjmrh. Geir Haarde tæki þátt í umræðunum. Það finnst mér mjög skrýtið.

Ég var að tala um, og er að tala um, Framsfl. sérstaklega og sundrunguna innan hans. Við vitum það nú að einn þingmaður Framsfl. ætlar að greiða atkvæði gegn þessu frv., annar þingmaður virðist ætla að sitja hjá. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur lýst yfir mjög eindreginni andstöðu og nánast talað þvert gegn ríkisstjórninni í öllu þessu máli. Hann lýsti því yfir nú í morgun að hann teldi jafnvel að þetta mál hefði átt að verða til þess að stjórninni yrði slitið. Þetta eru mjög skýr orð, varnaðarorð. Ef einhver vilji er hjá stjórnarliðinu til að hlusta held ég að þeir ættu að hlusta á þessi orð því að ég held að þau endurspegli að verulegu leyti mikla og megna óánægju úti í þjóðfélaginu með allt þetta mál.

Við sáum það í gær að meiri hluti borgarstjórnar Reykjavíkur ályktaði gegn frv. R-listinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur blandað sér inn í umræðurnar. Hann er á móti frv. Alfreð Þorsteinsson, oddviti framsóknarmanna á Reykjavíkurlistanum, er á móti því. Í gærkvöldi var ályktað, eins og ég sagði áðan, í borgarstjórn Reykjavíkur gegn þessu frv. að tillögu Frjálsl. Ég tel rétt, fyrst ég er kominn í ræðustól, að vitna aðeins í þessa ályktun. Hún er nokkuð merkileg að ég tel, og ég tel að hún eigi fullt erindi inn í þingtíðindi. Ég vil því leyfa mér að lesa hana hér, með leyfi forseta:

,,Á fundi borgarstjórnar 18. þ.m. voru samþykktar svohljóðandi ályktunartillögur:

Borgarstjórn Reykjavíkur lýsir þungum áhyggjum sínum vegna þess frumvarps um fjölmiðla, sem liggur fyrir Alþingi. Fram hafa komið rökstuddar ábendingar um að samþykkt frumvarpsins í óbreyttri mynd geti leitt til atvinnumissis hundruða borgarbúa og skertrar afkomu enn fleiri. Borgarstjórn skorar því á Alþingi og sérstaklega þingmenn Reykvíkinga að koma í veg fyrir samþykkt frumvarpsins.

Vegna umræðu um starfsumhverfi fjölmiðla vill borgarráð vekja athygli þingmanna á nauðsyn þess að fjölmiðlar búi við stöðugleika og öruggt lagaumhverfi ekki síður en önnur atvinnustarfsemi. Fjölmiðlarekstur og útgáfa er mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík. Nægir þar að nefna að tvö til þrjú þúsund einstaklingar starfa við fjölmiðla og þar með eiga jafnmargar fjölskyldur lífsafkomu sína að hluta eða heild undir blómlegum rekstri þeirra. Gera verður þá kröfu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar stofni ekki rekstri fjölmiðlafyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólks í hættu nema brýna nauðsyn beri til og ljóst sé að mildari úrræði nái ekki sömu markmiðum. Borgarráð varar eindregið við því að málið verði keyrt fram með hraði og hvetur til vandaðrar og ítarlegrar umræðu áður en lög verði samþykkt frá Alþingi. Borgarráð bendir á að þrátt fyrir þær breytingar sem boðaðar hafa verið í meðförum Alþingis er ljóst að rekstur öflugra fjölmiðla og atvinnuöryggi hundruða er í uppnámi verði frumvarpið að lögum. Alls óvíst virðist hins vegar hvort markmið frumvarpsins um fjölbreytni í umfjöllun og öfluga dagskrárgerð náist. Það er lágmarkskrafa að nægilegur tími gefist til að fullkanna hin víðtæku áhrif sem samþykkt frumvarpsins gæti haft í för með sér.``

Þetta er sú ályktun sem var samþykkt í gær í borgarstjórn Reykjavíkur að tillögu fulltrúa Frjálsl., Ólafs F. Magnússonar. Ég er sammála hverju einasta orði. Þetta er í raun og veru kjarninn í þeirri skoðun sem ég hef á frv. og málatilbúnaði öllum. Það er ekkert skrýtið þó að borgarstjórn Reykjavíkur lýsi yfir þungum áhyggjum út af þessu. Fjölmiðlun er mjög mikilvæg atvinnugrein í Reykjavík, á Stór-Reykjavíkursvæðinu, gríðarlega mikilvægur atvinnuvegur.

Þetta hygg ég að stjórnarliðar ættu að taka til athugunar.

Að lokum er kannski ekki úr vegi að snýta framsóknarmönnum aðeins á því sem þeir segja sjálfir í samþykktum sínum og grundvallarstefnuskrá. Hvað sögðu þeir á flokksþingi árið 2001? Jú, þetta sögðu þeir, með leyfi forseta:

,,Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.``

Síðar sögðu þeir á flokksþingi árið 2003, með leyfi forseta:

,,Ríkisvaldið hefur þá skyldu að vinna í þágu þjóðarinnar. Það má ekki taka sér nokkurt það vald sem stríðir gegn grundvallarmannréttindum, persónufrelsi, trúfrelsi, atvinnufrelsi, jafnræði eða jafnrétti.``

Hæstv. forseti. Mér sýnist Framsfl. vera gjörsamlega á skjön við sjálfan sig í þessu máli. Ef hann vill nokkurn tímann láta taka sig alvarlega í framtíðinni hygg ég að þingmenn Framsfl. ættu hreinlega að greiða atkvæði, allir sem einn, gegn þessu frv. þegar það kemur til lokaafgreiðslu þingsins. Það er ekkert miklu flóknara en það. En þeir um það.

Vilji stjórnarflokkarnir að þetta frv. verði að lögum geta þeir a.m.k. ekki klagað yfir því að þeir hafi ekki verið varaðir við trekk í trekk af stjórnarandstöðunni. Það er ekki vegna þess að við viljum stjórnarflokkunum illt, ef svo má segja, heldur höfum við verið að reyna að ráðleggja þeim af heilindum. Þetta frv. er vont og það á ekki að verða að lögum. Svo einfalt er það.