Úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 11:05:16 (8725)

2004-05-21 11:05:16# 130. lþ. 121.91 fundur 586#B úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[11:05]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þá yfirlýsingu að hún muni setja starfshóp í þessi mál. Það er auðvitað allsendis óviðunandi að eitt alvarlegasta mál sem hefur komið upp á listaverkamarkaði okkar til þessa liggi óbætt hjá garði. Það er nauðsynlegt að það verði rannsakað til hlítar og að réttarstaða bæði þeirra sem keypt hafa meint fölsuð myndverk og ekki síður réttarstaða höfunda og erfingja þeirra verði skoðuð og greitt úr þeim álitamálum sem upp hafa komið.

Nú vitum við að lögum samkvæmt er ekki möguleiki að gera umrædd verk upptæk þar sem eigendur þeirra hafa allir keypt þau í góðri trú. Svo vitum við hvernig höfundalögin eru í þessu tilliti. Þau eiga að verja höfundarrétt og sæmdarrétt og þarna kemur upp mál sem er mjög flókið úrlausnar. Hið opinbera og ríkisvaldið verður í sjálfu sér að beita sér í því, sérstaklega þegar dómurinn hefur fallið eins og nú er ljóst.

Ég fagna því sem sagt að menntmrh. skuli taka þetta mál þessum tökum og treysti því að vel verði unnið í því að koma þessu á hreint og tryggja að málverkamarkaðurinn okkar skaðist ekki meira en orðið er af þessum erfiðu og leiðinlegu málum.