Úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 11:12:56 (8729)

2004-05-21 11:12:56# 130. lþ. 121.91 fundur 586#B úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[11:12]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Spurningin er kannski: Hvaða málverk í umferð eru fölsuð og hver ekki? Það er stærsta spurningin að mínu viti. Að þessum verkum eru eigendur og þau verða sjálfsagt ekki af þeim tekin. Hins vegar er staða þeirra ömurleg sem eigenda að verkum sem menn eru í miklum vafa með. Menn vita ekki hvort þeir eiga falsað verk eða ófalsað. Það er einkennilegt að á lokastigum máls fóru menn að draga í efa trúverðugleika fræðistarfa vísinda- og fræðimanna hjá hinu opinbera, þ.e. Listasafni Íslands, sem væntanlega á að gæta almannahagsmuna eins og aðrar opinberar stofnanir. Það er furðulegt að það er búið að leggja vitnisburð þeirra til grundvallar í öðrum dómum, þremur ef ég man rétt.

Hér er um að ræða eitt dýrasta rannsóknarmál í íslenskri sögu og það virðist vera byggt á sandi. Ferlið tók sjö ár og sjálfsagt á eftir að bætast við kostnaður af málaferlunum. Ég tel þess vegna fulla þörf á því að málið verði skoðað betur og tek undir og fagna yfirlýsingu hæstv. menntmrh. um að það verði gert.