Úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 11:15:30 (8731)

2004-05-21 11:15:30# 130. lþ. 121.91 fundur 586#B úrskurður Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[11:15]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Mér komu talsvert á óvart þau viðbrögð sem hæstv. forsrh. sýndi áðan. Þótt vakin sé athygli á því að einhverjir hlutir séu ekki í lagi er óþarft að túlka það þannig að verið sé að vega að öllum sköpuðum hlutum. Það virðist vera orðin árátta í þessu samfélagi að það megi aldrei gagnrýna eða benda á nokkurn skapaðan hlut nema það hafi þann tilgang að vega að mönnum á einn eða annan hátt. Það virðist vera túlkað einfaldlega þannig og túlkað eins og mönnum sýnist.

Það sem ég gerði í ræðu minni áðan var að vekja athygli á því að það væri nýlunda á hinu háa Alþingi að þingmenn kæmu upp og gæfu Hæstarétti ráð um það hvernig hann ætti að komast að niðurstöðu. Hæstiréttur er æðsta dómstig í þessu landi. Það er endanleg niðurstaða og við verðum að kyngja henni. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég fæ ekki séð að Hæstiréttur hefði getað komist að annarri niðurstöðu, einfaldlega vegna þess að önnur gögn lágu ekki fyrir. Þegar það hefur tekið sjö ár og búið er að eyða 50--100 millj. kr., ef marka má blaðafregnir, í þessar rannsóknir hljótum við að gera talsverða kröfu til þess sem sá um rannsóknina. Þetta eru miklir fjármunir sem þarna er eytt og þetta eru lykilatriði sem menn klikka á ef svo má að orði komast.

Það er ekkert óeðlilegt að á það sé bent. Ég hafna því algjörlega að verið sé að koma höggi á ríkislögreglustjóra. Það er aðeins verið að benda á að þetta er mikið áfall fyrir embættið, og spurningin er þessi: Stendur hæstv. dómsmrh. áfram keikur að baki ríkislögreglustjóra og ríkislögreglustjóraembættinu eins og það er eða er ástæða til að gera breytingar?