Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 12:07:03 (8737)

2004-05-21 12:07:03# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég býst við því að hafi einhver þingmaður gengið fram hjá þingmanninum og nefnt málþóf hafi það verið meira í glettni vegna þess að það er það sem við fáum að heyra yfirleitt þegar við erum í umræðunni hér á Alþingi í stórum málum. Ég tek a.m.k. ekki undir það. Það fer ekki fram málþóf á Alþingi. Það fer fram mikil efnisleg umræða, nauðsynleg samfélagsumræða um gífurlega stórt mál.

Það er þetta með breytingarnar. Við höfum að sjálfsögðu öll tekið þátt í því að frv. kemur hérna inn og Alþingi vinnur með það, oftast nær þó þannig að frv. kemur fyrir þann tíma sem Alþingi hefur sett sér mörk, 1. apríl, og það er gefinn tími til þess í nefndunum bæði að fá umsagnir og kalla til fólk. Það er ekki rifið undan lúkunum á nefndarmönnum eða þeim nefndum sem málið er sent til. Það er beðið eftir að nefndirnar geti sent málið til baka til nefndanna sem eru með aðalumfjöllun. Allt með þetta mál hefur auðvitað verið öðruvísi en hefðbundið.

Þetta frv. er þess eðlis sem það er og það er öðruvísi af því að það er forsrh. sem setur það fram en ekki menntmrh. Þetta er náttúrlega ekki bandormur frekar en ég sem stend hér. Vinnubrögðin eru öll þannig að forsrh. ákveður að koma inn með frv. löngu eftir að tíminn er liðinn á þeim tíma sem þingið er að fara heim, skellir því inn og ætlar að keyra það í gegnum þingið. Menn hafa orðið rökþrota í öll þrjú skiptin. Fyrst gerði Framsfl. athugasemdir við frv. í ríkisstjórn og tvisvar sinnum hafa nefndirnar gert breytingar. Þær hafa hrakist undan. Þetta er ekki efnisleg umfjöllun, þetta eru ekki góð vinnubrögð, þetta er frv. sem á að keyra ofan í kok á Alþingi, bæði stjórnarmeirihlutanum og öðrum. Ef þetta hefði verið selt Eimskipum eða Flugleiðum fyrir einhverjum mánuðum værum við ekki að tala um þetta frv. Það er svo einfalt. Það er það sorglega í málinu.