Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 12:11:39 (8739)

2004-05-21 12:11:39# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek það fram að mér finnst engu skipta hvort fyrirtæki sem á fjölmiðlasamsteypu sem er komin með ráðandi hlut eins og þingmaðurinn hefur nefnt heitir Baugur, Eimskip eða Flugleiðir. Það á að grípa til þeirra aðgerða sem gripið er til óháð því hvert fyrirtækið er (Gripið fram í.) og það á að setja lög sem byggja á almannahagsmunum og almannarétti og það er um það sem við deilum. Af því að vísað var til skýrslunnar finnst mér að þingmaðurinn hafi augsýnilega ekki tekið nógu vel eftir hvað stendur á bls. 145 og 147 í skýrslunni sem ég las upp áðan. Sterkt Ríkisútvarp sem fær sterka lagasetningu til að byggja á er auðvitað það sterkasta í þessari stöðu. Menn í þessari ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkar hafa ekki hirt um að vinna að hagsmunum Ríkisútvarpsins.

Ég ætla að nefna nokkuð sem ég hlustaði á í bílnum á leiðinni í þingið einn daginn þegar verið var að ræða um þetta mál á einhverri stöð. Jafet Ólafsson lét í ljósi undrun sína á þessu frv. Hann rifjaði það upp að þegar Norðurljós voru keypt af þeim eigendum sem eiga það núna hefði eigandinn sagt: Það þarf að taka til í þessu fyrirtæki, það þarf að koma því fjárhagslega á laggirnar. Síðan sé ég fyrir mér að eftir tvö ár komist það á markað og þá hef ég hugsað mér og get hugsað mér að draga úr eignarhlut mínum í fyrirtækinu. Jafet spurði: Af hverju fá menn ekki svigrúm til að gera þetta? (Gripið fram í.) Hann og fleiri hafa einmitt sagt: Það er alveg með ólíkindum að verið sé að setja þetta frv. fram núna. Ég tók auðvitað eftir því að þingmaðurinn kom ekki með neitt um það af hverju verið væri að setja frv. fram núna og lögfesta það á þessu vori með þessum látum.