Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 13:58:51 (8742)

2004-05-21 13:58:51# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilegt mál og ágætt. Honum varð tíðrætt í upphafi ræðu sinnar um þá grafarþögn sem umlykur Framsfl. í þessu máli og þá sem umlykur varaformenn ríkisstjórnarflokkanna. Ég tek undir þá umræðu. Hvar er hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde? Hvar er hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson? Hvar eru næstráðendur í stjórnarflokkunum? Hvar eru þeir í þessu stóra máli, þessu grundvallarmáli? Það hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá varaformönnum stjórnarflokkanna, hvorugum þeirra, og það hlýtur að vekja efasemdir um að full eining ríki um þetta mál innan stjórnarflokkanna, enda hefur það verið mörgum rökum stutt að hér sé um að ræða mál sem brjóti mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Engin heildstæð rök hafa komið fram sem styðja að svo sé ekki í álitum til þingnefndanna sem fjölluðu um málið. Svo einfalt er það mál, virðulegi forseti, og því vekur grafarþögn og fjarvera varaformanna stjórnarflokkanna beggja grunsemdir um að full eining sé ekki um þetta mál og menn ekki á eitt sáttir um að það skuli í gegn keyra enda málið þess eðlis að það brýtur mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Því vil ég nota þetta tækifæri í andsvari við ræðu hv. þingmanns sem var að ljúka máli sínu til að taka undir þær áskoranir sem komu fram í máli hans og skora á forustumenn Framsfl. og Sjálfstfl., sérstaklega Framsfl., að gera hér rækilega grein fyrir afstöðu sinni í þessu máli. Það er kominn tími til að grafarþögninni létti.