Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:01:12 (8744)

2004-05-21 14:01:12# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:01]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að þakka hæstv. forseta fyrir frjálslynda túlkun undir þessum lið. Hv. 7. þm. Suðurk. lýsti eftir stjórnarliðum til umræðunnar. Ég get vel sagt hv. þingmanni hvar stjórnarliðarnir eru. Þeir eru á harðahlaupum út af mælendaskránni og út úr húsinu, enda eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem þora að standa fyrir máli sínu við þessa umræðu. Auðvitað vitum við hv. 7. þm. Suðurk. ósköp vel af samskiptum okkar við stjórnarliðana hér að stærstum hluta þeirra líður langt í frá vel með þá ósvinnu sem hér er verið að vinna. Þeir vita langflestir sem er að svona er ekki boðlegt að standa að lagasetningu. Þeir hafa auðvitað af því áhyggjur að þessi ólög verði keyrð aftur í hausinn á þeim og að þeir þurfi að standa í þessum ræðustól og svara fyrir þá pólitísku ábyrgð sem ólögum sem þessum er samfara. Sannarlega verður kallað eftir ábyrgð manna, þeirra sem munu leggja hér hönd á, hvort sem það er hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson, hæstv. fjmrh. Geir Haarde sem hv. 7. þm. Suðurk. kallaði eftir eða Siv Friðleifsdóttir hæstv. umhvrh., eða er hún kannski hætt að vera það?