Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:03:01 (8746)

2004-05-21 14:03:01# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Ég þakka hæstv. forseta ábendinguna. Hv. þm. vísaði til gagnmerkrar og prýðilegrar ræðu sem hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson flutti á miðvikudagseftirmiðdag þar sem fram kom sú túlkun þingmannsins að um væri að ræða slíkar takmarkanir á fjárfestingum í fjölmiðlafyrirtækjum að af þessum stóru og voldugu fyrirtækjum gætu einungis sjávarútvegsfyrirtæki fjárfest í fjölmiðlum. Því vildi ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort það sé skilningur hans einnig, þar sem hann kom inn á það í ræðu sinni, að slíkur gjörningur væri á ferðinni og slík takmörkun á möguleikum voldugra og öflugra fyrirtækja til að fjárfesta í fjölmiðlum að verulega væri vegið að rekstrargrundvelli fjölmiðlanna í því ljósi. Ég vildi gjarnan fá það fram þar sem hann vísaði í þá góðu ræðu og kom sérstaklega inn á það að um slíkt væri að ræða. Ég vil einnig taka undir óskir hans um að hér heyrist frá forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna, varaformönnum flokkanna, þeir aflétti grafarþögninni og komi fram í dagsljósið með viðhorf sín.