Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:06:26 (8748)

2004-05-21 14:06:26# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var afar fróðlegt að hlusta á það sem samherjarnir töluðu hér áðan. Nú má ég að vísu ekki gera athugasemdir við það því að samkvæmt þingsköpum er mér bannað að gera athugasemd við andsvar í andsvari enda er ætlast til þess að við kveðjum okkur hljóðs til að vera með andsvar við ræðu þess alþingismanns sem síðast talaði en höldum ekki uppi spjalli samherja og lengjum þannig umræðuna sem er algjört brot á þingsköpum (BH: Hvaða grein?) en lýsir með öðrum hætti með hvaða hugarfari þessir hv. þm. stíga í ræðustól. Með því hugarfari að svínbeygja og snúa út úr þingsköpum og með því hugarfari að halda ekki þær reglur sem þeim ber að halda.

Ég vil hins vegar segja, herra forseti, að það var hálfklökkt að heyra með hvaða hætti hv. 9. þm. Reykv. n. Helgi Hjörvar flutti mál sitt undir þeim formerkjum að reyna að sannfæra sjálfan sig um --- því aðra sannfærði hann ekki --- um að það væri trygging fyrir fjölmiðlafrelsi, trygging fyrir fjölbreytni í fjölmiðlun, að láta þá sem eru markaðsráðandi á mörgum sviðum ráða líka yfir fjölmiðlunum. Það er sú framtíðarsýn sem maður sér að sósíalistarnir hafa í þinginu. Þeir hugsa sér að við eigum að sitja uppi með slíkar keðjur sem seilast til áhrifa á æ fleiri sviðum, markaðsráðandi áhrifa, og láta þær síðan ráða umræðunni í þjóðfélaginu. Það er þetta umhverfi og þessi þrá sem hv. þm. sér fyrir sér, enda vitum við alveg úr hvaða herbúðum hann er kominn inn í Samf. Hann er ekki gamall alþýðuflokksmaður og horfir ekki á þetta mál þvílíkum augum, heldur kemur úr Alþýðubandalaginu og frá þeim kumpánum sem þar voru.