Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:10:43 (8750)

2004-05-21 14:10:43# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Helga Hjörvar óar hann við því ef útgerðarmenn mundu eiga í fjölmiðlum og talar um að þá mundu þeir vilja fá að stjórna því sem skrifað er. Það er svolítið undarlegt að komast svo að orði. Af hverju skyldi þessi hv. þm. ekki vilja leyfa útgerðarmönnum að eiga í fjölmiðlum? Hvernig skyldi standa á því að honum finnst á hinn bóginn í lagi að markaðsráðandi fyrirtæki á öllum matvælamarkaðnum megi eiga í fjölmiðlum? (BH: LÍÚ.) Hvernig á að skilja þetta? Ætlar hann bara að pikka út og velja o.s.frv., hafa skoðanir sínar með þeim hætti að ekki gangi eitt yfir aðra?

Nú liggur það fyrir, eins og hv. þingmanni er kunnugt, að það eru fleiri blöð á markaði en Dagblaðið og Fréttablaðið, og fleiri frjálsar sjónvarpsstöðvar en t.d. Stöð 2. Við höfum líka Morgunblaðið og við höfum Skjá 1. Það sem við erum hér að gera er það að í okkar þjóðfélagi viljum við ekki að sami aðilinn eigi í frjálsri fjölmiðlun kannski 60--70% af því sem er í einkageiranum. Maður með mitt skapferli og minn uppruna í Sjálfstfl. vill heldur ekki að sami verslunareigandinn eigi 60--70% af allri smásöluverslun í landinu. Maður með mína skapgerð og minn uppruna og er sjálfstæðismaður vill heldur ekki að sami aðilinn sé með 60% af lyfjaverslun í sínum höndum og undir engum kringumstæðum getur maður með mína skapgerð og minn uppruna hugsað sér að sá sem er kannski með helminginn af matvörubransanum, meira en helminginn af lyfjabransanum og þar fram eftir götunum sé líka með 60--70% af hinni frjálsu fjölmiðlun í landinu. Þetta er sú sýn sem þessi hv. þm. hefur fyrir frjálsa fjölmiðlun í landinu, og það er ömurleg sýn vil ég segja, herra forseti.