Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 14:19:17 (8754)

2004-05-21 14:19:17# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það fer kannski að líða á seinni hluta 3. umr. sem stendur yfir um þetta fjölmiðlamál okkar. Ég hef ákveðið að breyta aðeins röð á því sem ég ætlaði að tala um af því tilefni að hér situr ungur þingmaður í salnum, framsóknarmaður, og ég ætla að gera það að umtalsefni hvaða skyldur þingmenn hafa við ríkisstjórnir og ríkisstjórnarsamstarf. Ég fór nefnilega að velta því fyrir mér hvort það væri eitthvað sem hefði verið rætt fyrir fram og bundið í stjórnarsáttmála um þetta mikilvæga mál sem við erum að fjalla um. Ég tók mér það fyrir hendur að lesa í gegnum stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. frá 23. maí 2003.

Nú hefðu menn kannski getað látið sér detta í hug að ef menn ætluðu að leggja til atlögu við slíkt stórmál sem það er að taka prentfrelsið af mönnum á Íslandi, að eiga við mál sem getur átt við og valdið a.m.k. miklum vafa um jafnvel þrjár greinar stjórnarskrárinnar, væri eitthvað um slíkt mál í stjórnarsáttmála sem ekki væri eldri en þetta. En hvernig sem ég les þennan stjórnarsáttmála fram eða aftur finn ég ekkert um að það þurfi að taka á fjölmiðlaumhverfinu á Íslandi með þeim hætti sem raun ber vitni í þessu frv. Ég velti því þess vegna fyrir mér og vonast satt að segja enn þá til þess, þó að ekki hafi bólað á því í umræðunni enn þá, að a.m.k. hv. þm. Framsfl., sem virðast hafa meiri vafa gagnvart stuðningi sínum við þetta mál, komi í ræðustól og útskýri það fyrir okkur hinum og þjóðinni hvernig stendur á því að slíkar veðrabreytingar hafa orðið í íslensku samfélagi frá því að þessi stefnuyfirlýsing var undirrituð. Ég geri ráð fyrir því að menn líti á hana sem skuldbindingu, a.m.k. í þingflokkum stjórnarflokkanna, um það hver aðalatriðin séu í samstarfinu og það hljóti að vera býsna erfitt að bæta inn á verkefnalista ríkisstjórnarinnar verkefnum sem skipta slíku máli sem þetta sem hér er til umræðu. Þess vegna finnst mér að það væri dálítið fróðlegt, a.m.k. það, að hlusta á útleggingar framsóknarmanna á því hvernig á því standi að þeir eru tilbúnir til að leggja í göngu um þetta mikilvæga mál með slíkum hraða sem hér ber raun vitni.

Ég vil minna á annað mál sem við erum að fást við í sölum Alþingis, mjög mikilvægt mál, breytingar á sveitarstjórnarlögum. Nú hafa staðið yfir umræður og tilraunir til þess að hafa áhrif á það að sveitarfélögin í landinu stækki og eflist. Þær umræður og sú vinna sem hefur verið lögð í það af hálfu stjórnmálamanna, ríkisstjórnar og alþingismanna, í samvinnu við sveitarstjórnarmenn og með miklum umræðum meðal almennings og allra sem áhuga hafa á þessum málum hafa nú staðið a.m.k. í 12 eða 14 ár. Það frv. sem nú er lagt hér fram er með þeim hættinum fram sett að það er greinilegt að menn telja að umræðunni sé ekki lokið og geti ekki lokið endanlega með því frv. sem hér liggur fyrir. Þar taka menn ekki á gagnvart því sem þyrfti að gera til að tryggja að sveitarfélög verði það öflug að þau geti tekið við þeim verkefnum sem pólitísk samstaða virðist vera orðin rík um.

Nei. Allir hafa verið sammála um að þessi umræða þurfi að vera gríðarlega löng til þess að niðurstaða náist, þ.e. umræðan um sveitarstjórnarmál. Það stefnir nefnilega í að sú umræða taki ekki minna en hátt í 20 ár. Enginn hefur kvartað yfir því í raun og veru að menn tækju sér allan þann tíma sem þarf til að finna pólitíska niðurstöðu í þessum málum sem gæti orðið sem mestur friður um, jafnvel við okkar minnstu bræður eins og við getum kannski sagt á sveitarstjórnarsviðinu. Enn skal það standa áfram að ekki eigi að hrófla við ákvæðinu um að það þurfi ekki að vera fleiri en 50 í sveitarfélögum í þessu landi og að sveitarfélag sem hefur fleiri en 50 íbúa geti neitað að taka þátt í þeirri pólitísku samstöðu sem hefur þó orðið meðal stjórnmálamanna og sveitarstjórnarmanna annarra um að breyta sveitarfélögunum. Það er ekki sama hvaða mál er á ferðinni þegar umræður fara fram á hv. Alþingi og þegar menn ákveða niðurstöður í hæstv. ríkisstjórn.

Ég vildi koma fyrst að þessu vegna þess að ég sá ástæðu til þess. Það er ekki svo oft sem við höfum áheyrendur í salnum frá Framsfl. sem hefur talið af einhverjum ástæðum að hann þyrfti að taka á sig það ok að draga með slíkum hraða í gegnum Alþingi svo mikilvægt mál sem þetta.

Ég hef minnst á það í ræðum mínum í þessu máli að það hafi allt saman byrjað á bolludaginn fyrir rúmu ári. Það var þá sem hin mikla reiði hæstv. forsrh. í garð Baugsmanna varð opinber og síðan höfum við fylgst með því hvernig þessi reiði hefur breyst í frv. að lokum sem við ætlum að fást við á hv. Alþingi og höfum verið að gera undanfarið. Ég er á þeirri skoðun að það sé aldrei björgulegt eða skynsamlegt að framkvæma í reiði nokkurn hlut og síst ætti það að gerast á hv. Alþingi Íslendinga, að fylgja eftir einhverjum reiðiköstum ráðamanna með frumvörpum sem verða til í andrúmslofti þar sem menn hafa ekki fulla skynsemi til að taka afstöðu til mála.

Af því að ég fór að tala um Framsfl. í upphafi ræðu minnar dettur mér næst í hug að rétt sé að ræða svolítið meira um hann, og þá í tengslum við þá hugmynd sem einn af hugmyndafræðingum Sjálfstfl. setti fram fyrir ekki löngu, að nú væri kominn tími til að sameina Sjálfstfl. og Framsfl. Sá þjóðþekkti maður, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, setti þetta fram fyrir ekki ýkja löngu en hefur síðan verið nokkuð hljóður um þá hugmynd og ekki um hana talað svo ég viti neitt að marki síðan. Framsfl. virðist hins vegar hafa tekið þessa hugmynd alvarlega og telur sér núna skylt að fylgja Sjálfstfl. eftir í málum eins og því sem hér er til umræðu og forustan gengur lengra en fólkið í flokknum virðist kæra sig um. Við höfum séð alls konar viðbrögð utan úr samfélaginu, frá framsóknarmönnum, meira að segja forustumönnum Framsfl. þar sem menn leggjast gegn þessum hugmyndum og a.m.k. krefjast þess að þær fái umræðu og menn andrúm til að fara yfir það hvort hér sé skynsamlega að verki staðið eða hvort hægt sé að gera hlutina með öðrum hætti og ná þeim markmiðum sem menn hafa sett sér. Markmiðin sem hafa verið sett fram fyrir þeim aðgerðum sem felast í frv. eru ágæt. Enginn hefur mótmælt þeim sem slíkum. Hins vegar virðist nokkuð ljóst að þau muni alls ekki nást með þeirri lagasetningu sem hér stendur fyrir dyrum. Það er þess vegna full ástæða til að halda hér áfram umræðum eins og hægt er til að reyna að koma inn í umræðuna hugmyndum um það hvernig megi standa að þessum hlutum.

Samfylkingarmenn hafa bent á þingmál sem hafa verið lögð fram á Alþingi og á ýmsa hluti sem þurfi að ræða í tengslum við fjölmiðlafrv. eða fjölmiðlamálið almennt ef menn vilja taka á því með skynsamlegum hætti.

[14:30]

Mér verður á að spyrja: Hvernig stendur á því að inn í þá umræðu sem stjórnarflokkarnir hafa verið í um þetta mál hefur t.d. ekki verið tekin sú hugmynd sem var rædd í mikilli alvöru þegar bankarnir voru til umræðu fyrir nokkru og hæstv. forsrh. setti fram hugmyndir sínar um dreifða eignaraðild að þeim? Þá var verið að ræða í mikilli alvöru hvort koma ætti á fyrirkomulagi sem er víða þekkt úr heiminum þar sem fyrirtæki, þótt þau eigi eignarhlut í fyrirtækjum, hafi ekki stjórnarmenn í samræmi við það. Þá er hámark hvað varðar eignarhald eða þegar tekið er tillit til þess hve marga stjórnarmenn viðkomandi fyrirtæki gætu fengið. Þar var verið að tala um það m.a. að í bönkunum ættu menn ekki að geta fengið fleiri menn í stjórn en sem svaraði til 10% eignaraðildar eða svo þó að þeir ættu meira í viðkomandi fyrirtæki. Ég væri fyrir mitt leyti alveg tilbúinn til að skoða vandlega hvort sú leið gæti ekki gengið varðandi fjölmiðlana að setja eitthvert hámark á stjórnunaraðild að fyrirtæki þó að eignaraðildin í sjálfu sér sé að einhverju leyti hærri. Það hefði ekki kollvarpað þeim fjárfestingum sem nú hafa verið gerðar í fjölmiðlun og menn fengið nóg andrúm til að breyta þá eignarhaldi sínu ef þeir kæra sig ekki um að eiga meira í fyrirtæki en sem svarar til þeirra stjórnarmanna sem viðkomandi fyrirtæki getur fengið.

Auðvitað er málið svo vaxið, svo illa unnið og svo fátt sem inn í það hefur verið sett annað en það sem virðist þjóna þeim tilgangi að koma eigendum þess fyrirtækis sem nú ræður í Norðurljósum út úr fjölmiðlarekstri að allt annað virðist hafa vikið fyrir þessari einu hugsun. Síðan hefur komið inn í umræðuna svo greinilega sem mest má verða að aðalatriði málsins er einmitt þetta, koma þessum aðilum út úr því að geta haft áhrif í fjölmiðlum og út úr eignarhaldi á fjölmiðlum. Mér hefur satt að segja fundist með miklum undarlegheitum að sjá hvernig forsvarsmenn þessarar herferðar tala því þeir hafa ekki getað setið á sér með að setja hinn raunverulega hug sinn fram. Mig langar, hæstv. forseti, til að fá að vitna í eina rammagrein úr Morgunblaðinu. Það koma stundum rammagreinar í Morgunblaðinu. Það vill svo einkennilega til að þær eru að vísu langflestar eftir örfáa menn sem af tilviljun eru fyrirsvarsmenn Sjálfstfl. Mér dettur t.d. í hug Hannes Hólmsteinn Gissurarson en ég ætla einmitt að vitna í rammagrein hans frá því fyrir þremur dögum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Af sérstökum ástæðum er ég að grúska í gömlum blöðum á Þjóðarbókhlöðunni. Þar rakst ég nýlega á ræðu, sem Halldór Kiljan Laxness flutti á ungmennafélagsmóti í júlí 1937, skömmu eftir stofnun Máls og menningar. Þar kvartaði hann undan því, að hann og aðrir umbótamenn, sem ættu fullt erindi til almennings, fengju vart komið sjónarmiðum sínum á framfæri, á meðan sérhagsmunamenn, Bogesenarnir, riðu húsum. Orðrétt sagði Kiljan: ,,En hvernig hefur staðið á því, að einmitt rödd þessara manna skuli hafa endurómað um allt, að maður skuli heyra skoðanir þessara manna étnar eftir og tuggðar upp jafnvel af voluðustu og niðurtröðkuðustu einstaklingum á afskekktustu stöðum í landinu, meðan við rithöfundarnir, sem teljum okkur talsmenn upplýsingarinnar, náðum ekki tali af þeim, sem við áttum erindi við, og urðum að tala fyrir daufum eyrum? Það var vegna þess, að einmitt þessir menn, sérréttindamennirnir í þjóðfélaginu, höfðu þá peninga, sem til þurfti að senda málgögn sín ókeypis inn á hvert einasta heimili í landinu og stjórna þannig skoðunum almennings.`` Þetta átti að lagfæra með því að stofna Mál og menningu. Nú hafði Kiljan alls ekki alltaf rétt fyrir sér, eins og allir vita. En er ekki sannleikskjarni í þessum orðum hans?`` spyr Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Það er einmitt þetta. Það virðist vera upplifun sjálfstæðismanna núna að þeir séu komnir í þetta vesæla hlutverk að eiga ekki aðgang að fjölmiðlum. Ég held að það sé óskaplega mikill misskilningur að þeir þurfi að óttast að þeir séu að lenda í þessu hlutverki. Þeir þurfa kannski hins vegar að óttast það að þeir hafi ekki áfram þá stöðu sem Bogesenarnir höfðu, þeir hafi ekki meiri aðgang og öflugri að samfélaginu en þeir ríku höfðu á þessari tíð. Það er það sem þá hryllir við því að þannig hefur það verið alla þá tíð sem ég hef fylgst með stjórnmálum á Íslandi að Sjálfstfl. einn flokka hefur haft séraðstöðu í fjölmiðlum á Íslandi, í alla þá áratugi sem ég man. Nú, þegar hann óttast, Sjálfstfl., að á því sé kannski að verða breyting umturnast menn og fara að vitna í Halldór Kiljan Laxness. Þá finnst þeim, sjálfstæðismönnunum, að þeir séu að lenda í hlutverki fátæklinganna sem gátu ekki gefið út blöð fyrir 100 árum.

Það er mikið umhugsunarefni að svona skuli komið fyrir mönnum, en þetta er verra. Þó að ég hafi ekki lesið mikið upp af ritverkum í ræðum mínum undanfarið langar mig að lesa aðra rammagrein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Hún er líka stutt. Með leyfi hæstv. forseta stendur þar:

,,Síðustu vikur hafa Íslendingar orðið vitni að ótrúlegum atvikum. Baugur, sem ræður yfir nær öllum matvælamarkaðnum íslenska og er umsvifamikill á mörgum öðrum sviðum, hefur lagt stórfé í þrjá fjölmiðla, sem hafa það eitt markmið að níða niður Davíð Oddsson forsætisráðherra og jafnvel að koma honum frá völdum. Einum þessara fjölmiðla, Fréttablaðinu, er dreift ókeypis á hvert heimili á Reykjavíkursvæðinu. Fréttamaður annars þessara fjölmiðla, Stöðvar 2, en sá maður er raunar um leið formaður Blaðamannafélags Íslands, sendir tölvupóst í allar áttir með svívirðingum um Davíð og áskorunum um að beita öllum ráðum gegn honum. Ritstjóri Fréttablaðsins talar um þá martröð, sem forusta Davíðs sé, og stjórnarformaður Baugs um ógnarstjórn. En við höfum séð þetta allt áður. Fyrir þingkosningarnar 1937 reyndi Hermann Jónasson að mynda andrúmsloft ótta og tortryggni gegn Ólafi Thors með fáránlegum áburði um að Ólafur hefði sem dómsmálaráðherra fimm árum áður viljað safna saman mörg hundruð manna liði að næturlagi í Sundhöllinni í Reykjavík í því skyni að handtaka helstu forustumenn Alþýðuflokksins eftir götuóeirðir í Reykjavík 9. nóvember 1932. Þegar Ísland gekk í Atlantshafsbandalagið 1949, gerðu kommúnistar og nytsamir sakleysingjar í slagtogi með þeim allt, sem þeir gátu, til að koma í veg fyrir löglega afgreiðslu málsins og ráku rógsherferð gegn Bjarna Benediktssyni, sem hafði forgöngu um málið. Baugsveldið beitir sér nú af sömu hörku gegn Davíð Oddssyni. Það vill breyta Íslandi í bananalýðveldi, þar sem því megi treysta, að allir stjórnmálaforingjar séu á mála hjá einum auðhring.``

Hæstv. forseti. Sá sem þetta skrifar virðist vera haldinn meiri ótta en mig hafði órað fyrir. Þessi ágæti maður virðist óttast að yfirvofandi sé valdarán á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að mér er ekki hlátur í hug þegar mér verður slíkt ljóst. Það hafði aldrei flögrað að mér að mönnum dytti það í hug í lýðræðisríkinu Íslandi að það væri með einhverjum hætti hugsun nokkurra manna að ræna völdum í landinu. Auðvitað er það ekki þannig. Einhver óskapleg skelfing ríkir samt í herbúðum Sjálfstfl. sem hefur fengið menn sem þar ráða mestu til að fara í herferð sem stríðir í raun og veru gegn flestu því sem fólkið í landinu hefur talið að Sjálfstfl. vildi helst verja, frelsi einstaklingsins og lýðræðislegt fyrirkomulag. Ég segi lýðræðislegt fyrirkomulag vegna þess að ég tel að þetta frv. ef að lögum verður stríði gegn prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Það var í 72. gr. stjórnarskrárinnar áður en hún var endurskoðuð en er núna í þeirri 73. Þó svo að þeir félagar, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson, hafi komið sér saman um það að þessu frv. sem hér liggur fyrir yrði breytt með þeim hætti að útvarpsleyfin sem búið er að gefa út megi renna sitt skeið áður en leyfin verði tekin af fjölmiðlum sem hugsanlega væru líka í blaðaútgáfu tel ég að það breyti í raun og veru engu um eðli frv., einfaldlega vegna þess að aðili sem hefur fengið útvarpsleyfi úthlutað stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að ef hann ákveður að fara að gefa út blað, einhvers konar blað því að skilgreiningin á því hvað er blað kom fram í greinargerð sem fylgdi með frv., dagblað skal það heita ef það er borið í hús fjóra daga vikunnar, skal útvarpsréttarnefnd taka útvarpsleyfið af þeim viðkomandi aðila. Hann hefur sem sagt ekki prentfrelsi, hann hefur ekki leyfi til að gefa út fjölmiðla á prenti ef hann hefur fengið útvarpsleyfi og skal refsað með þeim hætti að leyfið skal af honum tekið ef hann tekur þá ákvörðun að fara að gefa út prentmiðil þótt ekki þurfi til þess neitt annað leyfi. Ákvæðið vaknar upp um leið og einhver aðili vill gefa út báða miðlana. Það getur svo sem verið hver sem er, einhver sem t.d. ræki tónlistarstöð sem útvarpaði eingöngu tónlist og ákvæði að það gæti farið ágætlega saman við rekstur sinn að gefa út dagblað sem kæmi út fjórum sinnum í viku, fjallaði þess vegna um tónlist og ætti að höfða til einhvers tiltekins hóps í þjóðfélaginu. Hann mundi umsvifalaust missa útvarpsleyfið. Útvarpsréttarnefnd gæti ekki brugðist hlutverki sínu samkvæmt lögunum og yrði að taka af honum leyfið.

Þeim mönnum sem hafa komið í ræðustól af hálfu stjórnarliðsins, og eingöngu náttúrlega sjálfstæðismönnum því framsóknarmenn tala ekki hér nema tveir hafa komið upp, annar með og hinn á móti frv., hefur orðið tíðrætt um stöðuna á fjölmiðlamarkaðnum með undarlegum hætti. Sjálfstæðismenn hafa kosið að skilgreina fjölmiðlamarkaðinn sem svo að Norðurljós væru með gífurlega stóran hluta af einkareknu fjölmiðlunum, kosið að líta fram hjá hlut Ríkisútvarpsins í þessu máli, og tala um háar prósentur. Nú er ekki langt síðan í raun og veru að Ríkisútvarpið var með næstum allan fjölmiðlamarkaðinn í þessu landi. Það að setja fram einhverjar prósentur af þessu tagi gæti orðið undarlegt í því ljósi að ef Ríkisútvarpið væri t.d. með 80% af markaðnum og einhver ætti 15% hluta af markaðnum á móti Ríkisútvarpinu væri hann sjálfkrafa kominn með yfirgnæfandi meiri hluta á einkareknu stöðvunum. Ekki þyrfti hann að vera stór til þess. Ekki er hægt að líta á fjölmiðlamarkaðinn öðruvísi en út frá öllum aðilunum sem eru á honum. Á meðan Ríkisútvarpið er svo öflugt sem það er í raun og veru á fjölmiðlamarkaði geta menn ekki litið fram hjá því. Það er hluti af fjölmiðlamarkaðnum og menn verða að sætta sig við það að viðmið hans hlýtur þá að verða að taka miðað við allan fjölmiðlamarkaðinn. Það er ekki svo að einhver einn aðili sé svo grúandi á þessum markaði að það sé engin viðbrögð hægt að veita á meðan Ríkisútvarpið stendur í fæturna með þeim hætti sem það gerir. Ég tel þess vegna ekki hægt að leggja málin upp eins og hv. stjórnarliðar hafa gert hvað þetta varðar.

[14:45]

Ég nefndi áðan stjórnarskrána. Menn hafa velt svolítið fyrir sér hvað gæti gerst ef þessi lög, sem á að setja, yrðu jafnmikið dregin í efa eins og hefur verið gert, og er gert enn þrátt fyrir þær breytingar sem stjórnarflokkarnir hafa nú þegar gert á frv. Sumir hafa litið til þess að forseti Íslands gæti þar komið að málum en aðrir telja að það væri hlutverk Hæstaréttar að fást við þau ef einhverjir færu í mál vegna lagasetningarinnar. Auðvitað er það þannig og hefur verið í samfélagi okkar að menn hafa lagt mál sín undir Hæstarétt þegar þeim hefur sýnst að á þeim væri brotið gagnvart stjórnarskrá. Það er eðlileg leið. Ákvæði um að forseti geti skotið máli til þjóðarinnar er til staðar og það er auðvitað bara í valdi hans, forseta Íslands, að ákveða hvort hann telji að það ákvæði eigi við. Eftir því munu menn auðvitað þurfa að bíða þar til málið kemur til kasta forseta Íslands. Sú bið virðist vera verulega taugatrekkjandi fyrir suma af stjórnarliðunum í ríkisstjórninni. Ekki ætla ég að spá fyrir um það og ekki ætla ég að leggja forseta Íslands til neinar ráðleggingar hvað varðar meðferð þessa máls, hvernig hann eigi með það að fara, en eins og ég sagði áðan er það hlutverk hans að komast að niðurstöðu. Hún kemur í ljós þegar þar að kemur.

Það er eitt sem mig langar, hæstv. forseti, til að fjalla um til viðbótar og það er hvað muni gerast að líkindum ef frv. verður að lögum á þeim markaði sem hægt væri að kalla markað með eignarhlut í fjölmiðlun. Ég er á þeirri skoðun að það sé verulega mikil hætta á því að ef frv. verður að lögum geti komið upp sú staða hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum að nýir aðilar sem vildu koma inn í fjölmiðlamarkaðinn fengju tækifæri á kostnað þeirra sem fyrir eru sem væri að mínu viti mjög vafasamt. Það er augljóst að Norðurljós munu þurfa að bera það undir lánardrottna sína hvernig fjármögnun getur orðið í framhaldi af þeirri lagasetningu sem hér er ætluð. Ef mat lánardrottnanna á möguleikum þessa fyrirtækis er að það geti ekki lifað til framtíðar í þessu fyrirkomulagi eins og í pottinn er núna búið með frv. gæti farið af stað ferli sem yrði e.t.v. með eftirfarandi hætti: Lánardrottnarnir mundu sameinast um að fara fram á að fyrirtækið yrði endurfjármagnað og það selt aðilum sem gætu átt það til framtíðar. Þeir sem vildu eignast það fengju þar með tækifæri til að koma inn í fyrirtækið með því að gera tilboð í það á grundvelli þeirra reglna sem þá væru komnar. Menn gætu sem sagt, sem hefðu til þess fjármuni og vildu hafa það að aðalatvinnugrein sinni að standa í þessum fjölmiðlarekstri, komið með fjármagn og gert tilboð í fyrirtæki á hluta þess verðs sem fyrirtækið er talið vera virði í dag. Lánardrottnar yrðu að hefja nauðungarsamninga við þessa aðila sem þannig gætu eignast fyrirtækið á miklu lægra verði en það hefur verið fjármagnið upp í í dag.

Vel kann að vera að menn hafi viljað búa til þetta fyrirkomulag, búa til þennan möguleika á markaðnum, búa hann til handa einhverjum. Því var lýst í ræðu áðan að það væri hugsanlegt. Ég kann ekki svarið við því en miðað við viðbrögð eigenda Norðurljósa og miðað við þá umfjöllun sem hefur farið fram hef ég gert mér þá mynd af framtíðarumhverfi í fjölmiðlun á Íslandi að yfirgnæfandi líkur séu á því að fyrirtæki sem ætlaði sér að reka fjölmiðlafyrirtæki eins og Norðurljós og þyrfti að klippa frá sér aðra starfsemi og að það yrði fjármagnað eingöngu með aðilum sem féllu undir þá skilgreiningu sem í þessu frv. er yrði ekki fjármagnað með jafnmyndarlegum hætti og Norðurljós eru núna. Þess vegna mun nýr ferill vegna endurfjármögnunar þessa fyrirtækis hefjast og hann mun hefjast á lægra boði. Hvernig slíku fyrirtæki mun síðan reiða af í framtíðinni er ég ekki fær að spá um en það er augljóst að öflugir bakhjarlar verða af miklu skornari skammti en áður. Það kom líka býsna vel fram í ræðu sem hv. þm. Helgi Hjörvar hélt á undan mér og ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu.

Hæstv. forseti. Að mínu viti hafa engar þær breytingar orðið á þessu frv. sem gera það þannig úr garði að það hætti að brjóta í bága við stjórnarskrárákvæðin sem hafa verið til umræðu. Enn þá síður hafa orðið breytingar á frv. sem hægt væri að halda fram að skiptu svo miklu máli hvað varðar framtíð fjölmiðlunar á Íslandi. Í þeim hafa heldur engar breytingar komið fram sem við stjórnarandstæðingar getum með nokkru móti séð að eigi að leiða til þess að menn fáist með almennum hætti við það verkefni sem hér er í raun og veru á ferðinni.

Ég tel svo líka að eins og með sveitarstjórnarmálin sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar sé þetta mál svo viðamikið að um það þurfi mjög langan umræðutíma í samfélaginu öllu, ég tala nú ekki um ef það á að verða niðurstaðan að hefta skoðanafrelsi með algjörlega nýjum hætti á Íslandi, taka prentfrelsið af einhverjum í samfélaginu. Þá kalla ég eftir umræðu um það og sú umræða á ekki að standa á einu vorþingi í nokkra daga. Sú umræða á að standa lengi vegna þess, eins og ég hef áður sagt, að prentfrelsið er barmmerki lýðræðisins hjá lýðræðisþjóðum og slíkum hlutum breyta menn ekki nema eftir langa umræðu þar sem menn fást við það mál til enda. Það er slíkt fordæmi að Alþingi Íslendinga má ekki forsóma umræðu um það efni og viðamikla meðferð sem tekur þá langan tíma. Það þarf a.m.k. æðimargar ræður og umfjöllun virtra aðila sem til þess eru bærir að meta þá niðurstöðu sem getur orðið og það fordæmi sem við værum að gefa með því að innleiða lög sem taka skoðanafrelsi og prentfrelsi af mönnum, þ.e. taka af þeim þann rétt að setja skoðanir sínar fram í prentuðu máli.

Hæstv. forseti. Að lokum þetta með nútímann. Hans vegna þarf þessi umræða auðvitað að standa miklu lengur. Nútíminn er þannig að alls konar fjölmiðlar eru að renna saman í tækninni. Morgunblaðið kemur út á prenti. Morgunblaðið hefur líka heimasíðu. Inn á hana er hægt að sækja alls konar upplýsingar. Heimasíða Morgunblaðsins er að breytast í sjónvarp. Þannig geta menn farið inn á heimasíður hinna ýmsu fjölmiðla og sótt þangað myndbönd og jafnvel heilu kvikmyndirnar. Í framtíðinni mun þetta allt meira og minna renna saman.

Eru menn virkilega svo skyni skroppnir í þessum sal að þeir sjái ekki hvað er að gerast? Ég held ekki. Ég held að það sé ekki ástæðan. Ég held að ástæðuna sé hægt að rekja til bolludagsins.