Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 21. maí 2004, kl. 15:28:37 (8756)

2004-05-21 15:28:37# 130. lþ. 121.11 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Það er mikill efnislegur ágreiningur um hér umrætt mál, svokallað fjölmiðlafrv. Ég tel að hér sé á ferðinni alvarlegt inngrip í markaðinn sem gengur einfaldlega of langt. Ég tel hægt að ná markmiðum um fjölbreytni með vægari úrræðum. Ég held að samþykki þingheimur þetta frv. geri hann mikil mistök. Með því værum við að samþykkja eina ströngustu löggjöf sem til yrði á fjölmiðlamarkaðnum á Vesturlöndum. Þetta er fullyrðing sem hefur ekki verið hrakin heldur hafa erlendir sérfræðingar þvert á móti staðfest hana.

Þetta mál snýst um efnislegan ágreining. Við í Samf. erum ósammála þeim leiðum sem Sjálfstfl. og Framsfl. vilja fara varðandi fjölmiðlamarkaðinn. Morgunblaðið hefur kallað eftir efnislegri umræðu. Ég veit ekki betur en það sé efnisleg umræða að velta fyrir sér þeim mýmörgu álitaefnum sem hafa vaknað varðandi þetta mál. Það er efnislegur ágreiningur að efast um að málið standist stjórnarskrá. Það er efnislegur ágreiningur að menn efast um að þetta mál standist EES-samninginn og það er líka efnislegur ágreiningur að efast um að frv. standist mannréttindasáttmálann.

Ef við lítum stuttlega á þær breytingar sem hafa verið gerðar á þessu vonda frv. er alveg ljóst að þær breyta engu varðandi þau alvarlegu álitaefni sem hafa verið vakin. Eftir stendur þessi efi um hvort málið standist stjórnarskrá, hvort það standist EES-samninginn og mannréttindi. Förum aðeins yfir þau helstu álitaefni sem hefur verið bent á og hefur ekki verið mætt með neinni af þeim brtt. sem hér liggja fyrir.

[15:30]

Það fyrsta sem allir sjá er að tilgangur þessa frv. er annarlegur, hann er óeðlilegur og í raun er hann orðinn grímulausari eftir að brtt. meiri hlutans litu dagsins ljós. Hér er um að ræða sértæk lög, lög sem beinast að einum aðila í þjóðfélaginu og það sem staðfestir þetta best eru orð stjórnarherranna sjálfra. Þeir staðfesta að þetta frv. er ekkert annað en viðbragð við fréttaflutningi. Þá erum við komin á afskaplega hálan ís, ís ritskoðunar. Við erum að tala um að viðbrögð stjórnarherranna, bæði úr Framsfl. og Sjálfstfl., eru lituð af því að þeim er illa við hvað stendur í viðkomandi fjölmiðlum.

Varaformaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde, hefur lítið sem ekkert sést í þessari umræðu. Hann hafði sama háttinn á þegar hér var mikil umræða um jafnréttismál og skipun hæstv. dómsmrh. í Hæstarétt. Þá sást hæstv. fjmrh. lítið. Hins vegar liggja eftir hann, eftir því sem ég kemst næst, a.m.k. ein ummæli sem staðfesta að þessi lög eru sértæk, að þau séu viðbragð við fréttaflutningi. Hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde talaði í sjónvarpsviðtali um sjúklegan fréttaflutning. Hæstv. félmrh. kemur upp í þessa pontu, veifar blöðum og talar um að þetta þurfi að stöðva. Hæstv. forsrh. bendir máli sínu til stuðnings, þessu frv. til stuðnings, á að menn ættu einfaldlega að líta á blöðin. Hann notaði orð eins og stríðsfyrirsagnir, og það taldi hann vera rökstuðning við nauðsyn á þessu frv. Hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason talar um fjölmiðla sem skaprauna stjórnvöldum. Hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson tekur einnig í svipaðan streng í gestagrein á vefritinu tikin.is.

Viðbrögð þessara herramanna bera öll sama keim af því að frv. er viðbragð við fréttaflutningi, hefur annarlegan tilgang, til að klekkja á fjölmiðlum sem þeim er einfaldlega illa við. Það er þó helgur réttur fjölmiðla að fá að gagnrýna óvægið, jafnvel ósanngjarnt, eða gera grín að stjórnmálamönnum. Við megum ekki láta það yfir okkur ganga að hér séu stjórnvöld og stjórnmálamenn sem misbjóði og misnoti lagasetningarvaldið í slíkum tilgangi. Þetta ber ekki eingöngu keim af ritskoðun, heldur líka broti á tjáningarfrelsi. Það hefur lögfræðingurinn, fyrrverandi prófessorinn Sigurður Líndal, bent á í öllu þessu ferli, sömuleiðis eftir að síðustu brtt. litu dagsins ljós. Þetta er hugsanlega brot á tjáningarfrelsi vegna þess að það er verið að bregðast við fréttaflutningi sem stjórnvöldum er illa við.

Lítum á annað álitaefni sem ekki hefur verið mælt með í framkomnum brtt. Það er meðalhófið. Hvað er meðalhóf? Meðalhóf er að ganga eins skammt og kostur er til að ná settu markmiði. Ég held að að mati flestra hafi verið gengið mun lengra en þörf var á. Leiðir Samf. eru t.d. mun vægari. Samf. hefur m.a. bent á úrræði samkeppnislaga. Nú þegar er úrræði í samkeppnislögum, gott ef það er ekki í 18. gr., bæði til að koma í veg fyrir að markaðsráðandi staða myndist og einnig til að hún eflist hjá markaðsráðandi fyrirtæki. Svo að sjálfsögðu er úrræði í samkeppnislögum sem bannar misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Samf. hefur einnig bent á þörfina á að hafa gegnsæi á eignarhaldi í fjölmiðlum. Gegnsæi er lykilhugtak. Neytendur, þjóðin og stjórnmálamenn eiga rétt á því að vita hverjir eiga fjölmiðlana. Samf. hefur sömuleiðis bent á ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þetta er ekki einhver klisja út í loftið. Þetta er raunverulegt og efnislegt atriði sem ber að skoða. Við þurfum að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði. Það hefur Blaðamannafélagið margoft ályktað um að sé gríðarlega mikilvægt. Það má hugsa alls kyns útfærslur á þessu lykilatriði, t.d. kínamúrinn milli eigenda og ritstjórnar. Við höfum kínamúra í viðskiptalífinu. Þeir virka þar og eiga að gera það. Annars eru viðurlög við því og eftirlitsstofnanir eiga að sinna því. Til staðar eru vægari leiðir en sú sem Framsfl. og Sjálfstfl. vilja fara.

Meðalhófið gildir ekki eingöngu varðandi athafnir stjórnvalda. Meðalhófsreglan gildir einnig við alla lagasetningu. Okkur ber að gæta meðalhófs við lagasetninguna. Þetta er regla sem gildir jafnt í stjórnsýslurétti og stjórnskipunarrétti.

Enn annað álitaefni sem hefur ekki verið mætt með framkomnum brtt. er stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi. Hugsanlega er hér á ferðinni brot á stjórnarskrárákvæðinu um atvinnufrelsi. Hugsanlega er gengið of langt við að skerða og takmarka atvinnufrelsi. Eftir samþykki þessa frv. mun ekki hver sem er geta átt og rekið fjölmiðil. Aðilar sem áttu fjölmiðil fyrir lagasetningu gera það. Þetta tengist einnig því að hér er um að ræða sértæka takmörkun en ekki almenna en löggjafarvaldið hefur vald til að takmarka atvinnufrelsi að gefnum skilyrðum, þar á meðal ber þeirri takmörkun að vera almenn.

Fjórða álitaefnið, eignarrétturinn. Með samþykki þessa frv. eru eignir umrædds fjölmiðlafyrirtækis gerðar verðminni en þær voru. Til er lögskýringarregla um að eignarréttur sé túlkaður í víðum skilningi þeirra orða. Hér er hugsanlega brot á eignarrétti. Hugsanlega.

Sömuleiðis hafa lögfræðingar bent á annað atriði sem tengist eignarréttinum, lögmætar væntingar. Það var mikil umræða um þær í svokallaðri auðlindanefnd, en hvað eru lögmætar væntingar? Á það hefur verið bent að það er ekki hægt að gjörbreyta skilyrðum leyfisskyldrar starfsemi, einn, tveir og þrír, ekki gjörbreyta. Hugsanlega er gengið of langt, og að mínu mati er gengið of langt hvað þetta varðar þrátt fyrir brtt. sem hér hafa komið fram.

Enn eitt álitaefnið er tjáningarfrelsið. Ég kom að því varðandi viðbragð við fréttaflutningi en það er annar vinkill á því að ef þetta frv. verður samþykkt og gert að lögum mega ákveðin fyrirtæki í ákveðinni stöðu ekki eiga fjölmiðil. Hugsanlega brot á tjáningarfrelsi. Það er hægt að takmarka tjáningarfrelsi sé það nauðsynlegt í lýðræðisþjóðfélagi. Hér eins og í öllum þessum álitaefnum vofir yfir meðalhófsreglan. Er gengið of langt? Er gengið lengra en þörf er á miðað við sett markmið?

EES-rétturinn. Sem betur fer erum við aðilar að EES-samningnum sem hefur fært okkur gríðarlegar réttarbætur og gjörbreytt íslensku samfélagi til betri vegar. Með brtt. hefur þeim álitaefnum sem EES-rétturinn setur okkur ekkert verið mætt. Það er ekkert komið til móts við þær athugasemdir sem virtir lögfræðingar í Evrópurétti hafa bent á.

Staðfesturétturinn. Hugsanlega er hann brotinn. Ákvæði um frjálsa fjármagnsflutninga, hugsanlega, og ákvæði um frjálsa þjónustustarfsemi. Þetta voru punktar sem var strax bent á við fyrstu meðferð þessa máls í allshn. Þær brtt. sem hér liggja fyrir hafa ekki mætt þessu með neinum hætti, og það er rétt að ítreka að það er hægt að brjóta EES-samninginn þrátt fyrir að menn mismuni ekki eftir þjóðerni. Það hefur Evrópudómstóllinn margdæmt um. Þrátt fyrir að það séu sömu reglur fyrir Íslendinga og EES-íbúa geta menn brotið EES-samninginn.

Enn eitt álitaefnið er samkeppnislögin. Á það hefur verið bent og þar á meðal af Samkeppnisstofnun að frv. er andstætt samkeppnislögum og markmiðum þeirra. Á það hefur verið bent að frv. muni að öllum líkindum leiða til fábreytni. Ég tel að það hindri aðkomu nýrra aðila að þessum markaði. Þetta frv. hindrar augljóslega fjármagn að greininni, að grein sem oft vantar sárlega fjármagn en það er verið að útiloka stóran hluta af íslensku áhættufjármagni með þessu frv. Aftur bendi ég á að hægt er að beita vægari úrræðum en hér er gert.

Þetta frv. mun að öllum líkindum koma í veg fyrir að fjölmiðlafyrirtæki muni nokkurn tíma verða skráð í Kauphöll sem er að sjálfsögðu afskaplega æskilegt í ljósi þess regluverks sem gildir fyrir fyrirtæki í Kauphöll. Það er mjög æskilegt að fyrirtækið sé í Kauphöll í ljósi þess eftirlits og þeirra krafna sem gilda þar. En hér eru á ferðinni þannig takmarkanir á eignarhlutum í fjölmiðlafyrirtækjum að líklega er sá draumur úti.

Að mínu viti er frv. enn þá vont. Það var vont og er vont. Þingheimur er að gera mikil mistök ef hann samþykkir það, (RG: Heyr.) mikil mistök. Það gengur allt of langt og það er enn þá efnislegur ágreiningur um einstök atriði þessa frv. eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins hefur sárlega kallað eftir. Margvíslegur efnislegur ágreiningur eins og ég hér hef bent á.

Ég er t.d. ekki tilbúinn að banna með öllu dagblaði að eiga sjónvarpsstöð. Ég vil ekki takmarka aðkomu fjölmiðla að fjármagni eins og gert er með þeim hætti sem frv. býður upp á. Ég vil sjá einhver rök fyrir því af hverju á að banna fyrirtæki í óskyldum rekstri að fá útvarpsleyfi. Svona mætti lengi tala og það er enn þá vafamál að það standist stjórnarskrá og EES-samninginn. En það er gott að vita að hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson er nú litlu öruggari um málið, eins og það geri þingheim rórri. Þessar brtt., þessir aumu plástrar, eru í rauninni ekkert annað en viðurkenning á því að málið var illa unnið, fékk ekki góða umfjöllun, var unnið hroðvirknislega og hrátt með annarleg sjónarmið í huga.

Það er ágætt að rifja það upp að á öllum stigum þessa máls hafa stjórnarliðarnir fullyrt að frv. standist stjórnarskrá. Svo bætist einn og einn plástur við sem gerir ekkert efnislegt gagn. Enn þá er þetta sértækt frv. sem hugsanlega brýtur stjórnarskrá og EES-réttinn. Það eru vægari leiðir til og við í Samf. höfum verið að biðla til hv. þingmanna Sjálfstfl. og Framsfl. um að fara vægari leiðir, gefa meiri tíma í þetta. Það er einfaldlega of mikið í húfi til að menn geti unnið málið með þessum hætti eins og við stöndum frammi fyrir.

Við höfum bent á samkeppnislögin. Við höfum bent á ritstjórnarlegt sjálfstæði, nauðsynina að efla gegnsæi í eignarhaldi. Ég get sagt það hér að þegar sjónvarpsstjóri Skjás 1 kom fyrir allshn. bað ég hann um lista yfir eigendur Skjás 1. Hann sagði frammi fyrir þingnefndinni: Ekkert mál. Ég hef ekki enn fengið þann lista þrátt fyrir ítrekaða beiðni frá starfsmönnum þingsins um hann. Í síðasta pósti sem ég fékk frá fulltrúum Skjás 1 stóð einfaldlega að hann hefði ekki upplýsingar um tiltekin eignarhaldsfélög. Þetta eru eignarhaldsfélög sem eiga hátt í 40% í Skjá 1. Ég veit ekki enn þá hverjir eiga Skjá 1. Jú, ég veit að eitthvað sem heitir Mega ehf. á 20% í Skjá 1. En hverjir eiga Mega? Fulltrúi Skjás 1 virðist ekki vita það. Hverjir eiga Fjölmiðlafélag ehf. sem á tæplega 12% í Skjá 1? Auðvitað á þetta að vera uppi á borðinu. En það er alveg ótækt að um það bil tveim vikum eftir að sjónvarpsstjóri Skjás 1 segir frammi fyrir þingnefnd að hann ætli að láta þingið fá þær upplýsingar hafi þær enn ekki borist þrátt fyrir eftirgrennslan mína.

[15:45]

Þetta sannar að við þurfum einhvers konar reglur um gegnsæi í eignarhaldi. Þetta á að vera allt uppi á borðinu. Nafn á eignarhaldsfélagi segir ekki hverjir eiga viðkomandi fjölmiðil.

Að lokum langar mig að benda á þá stöðu sem hv. stjórnarþingmenn eru í. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson segir í fjölmiðlum að hann sé sannfærður um að ef hv. þm. fylgdu sannfæringu sinni mundi þetta mál ekki nást í gegn. Við sjáum að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem er núna búinn að vera þingmaður í eitt ár alveg eins og ég, hélt því fram fyrir þremur árum að samkeppnislög ættu ekki rétt á sér. Með leyfi forseta segir hann:

,,Ef aðili á markaði níðist á neytendum eða öðrum aðilum á markaði eiga markaðslögmál að fá að leiðrétta slíkt en ekki eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera.`` --- Hann er einnig spurður í þessu sama viðtali í tímaritinu Lagakrókar sem kom út 2001: Hver eiga viðurlög við brotum og samkeppnislög að vera? Svar hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar er eftirfarandi, með leyfi forseta: ,,Þar sem ég er ekki mótfallinn samkeppnislögum tel ég að viðurlögin eigi engin að vera.``

Núna þegar hv. þm. er búinn að vera þingmaður í eitt ár er hann tilbúinn að styðja eina ströngustu fjölmiðlalöggjöf sem til verður á Vesturlöndum (JBjarn: Ha?) en hann er á móti samkeppnislögum sem eðli málsins samkvæmt ganga miklu skemur en þessi sértæka löggjöf sem við hér stöndum frammi fyrir, þetta alvarlega inngrip í hinn frjálsa markað.

Það breytist ýmislegt þegar menn setjast á þing eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur margoft sýnt í allri umræðu um menntamál. Fyrrverandi stúdentaleiðtogi svarar ákalli stúdenta eftir hjálp í baráttu sinni við stjórnvöld svo að hún sé einfaldlega í hinu liðinu, í stjórnarliðinu. Þetta segir hv. þm. Dagný Jónsdóttir framsóknarkona á sinni eigin heimasíðu.

Hvað á þjóðin að halda þegar hún kýs nýtt fólk á þing og hefur hugsanlega einhverjar vonir um að það geti breytt einhverju en um leið og það kemst að kjötkötlunum gleypir það allt ofan í sig? Það er alveg með ólíkindum hvað þingmenn geta farið illa með hugsjónir og sannfæringu.

Hvernig stendur svo á hinni æpandi þögn Framsfl. í þessu máli? Það var alveg eins og þegar við vorum að ræða skipun í Hæstarétt þegar hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason var fundinn sekur um að brjóta a.m.k. þrenn lög, dómstólalög, stjórnsýslulög og jafnréttislög. Þá tóku framsóknarmenn ekki þátt í þeirri umræðu á þingi, utandagskrárumræðu um málið. Þeir sendu ekki fulltrúa sem er afskaplega óvenjulegt. Þeir sem til þekkja á þinginu vita að í öllum utandagskrárumræðum sendir hver einasti flokkur tvo fulltrúa í slíka umræðu en þeir þögðu í því erfiða máli. Framsfl. þegir líka í þessu máli. Þegar kemur að erfiðum málum virðist Framsfl. gufa upp.

Ég sakna þess að heyra ekki meira í fulltrúa Framsfl. í allshn., hv. þm. Jónínu Bjartmarz. Hún er eini fulltrúi Framsfl. í allshn., sem sagt oddamaður í þeirri nefnd, þannig að hún gæti gegnt lykilhlutverki í að ná breytingum á þessu máli eða jafnvel koma í veg fyrir að það kæmist úr nefndinni svo maður gæti unnið það almennilega. Af hverju er hún ekki hér og tekur þátt í umræðunni? Ég trúi reyndar ekki öðru en að hv. þm. Jónína Bjartmarz, sem ég hef mikið álit á, láti sér segjast í þessu máli. Andstaða hennar hlýtur að koma hér fram og þá er ég ekki að tala um andstöðu í hjásetu. Hjáseta hér er engin andstaða en að því gefnu að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson muni fella þetta mál, eins og hann hefur sagt, og að því gefnu að hv. þm. Jónína Bjartmarz segi nei við þessu máli eins og ég gæti trúað henni til --- reyndar kom samt fram í fjölmiðlum að hún ætlaði að sitja hjá, en látum það vera --- þarf bara einn þingmann í viðbót úr stjórnarliðinu til að segja nei í staðinn fyrir já, og þá er málið fellt. (Gripið fram í: Hvaða afstaða er hjáseta?) Hjáseta er engin afstaða. Það er leið Framsóknar, þögn og hjáseta.

Það er ágætt að velta fyrir sér að það þarf bara einn stjórnarþingmann úr Sjálfstfl. eða Framsfl. til að segja nei og þá er þetta mál fellt. Það er fróðlegt að vita hvaða þingmaður treystir sér til þess að fylgja sannfæringu sinni. Hugsanlega hefði maður haldið að það yrði einn af þessum ungu hv. þm. Sjálfstfl. sem kenndu sig við frelsi og frjálslyndi í kosningabaráttunni á síðasta ári og í prófkjörum þar á undan. Ég er svartsýnn á að þeir muni fylgja sannfæringu sinni í þessu máli.

Hefur hv. þm. Framsfl. Birkir Jón Jónsson það í sér að fylgja sannfæringu sinni, segja nei og koma í veg fyrir að þetta mál verði samþykkt? Hv. þm. Dagný Jónsdóttir? Ég efa það. Hún er í sínu liði. En það er fróðlegt að vita að hver einasti þingmaður Framsfl. og Sjálfstfl. fyrir utan þá sem hafa gefið afstöðu sína upp nú þegar varðandi neiið eru ábyrgir ef þessi óskapnaður verður að lögum. Við erum að fara á mjög hálan ís þar sem fjölmörg álitamál hafa risið upp og ekki verið svarað eða mætt og það er á ábyrgð hvers og eins sem styður málið, og það þarf ekki nema einn í viðbót til að segja nei. Þetta stóra grundvallaratriði mun velta á einu atkvæði.

Að lokum vil ég hvetja hv. þm. í Framsfl. og Sjálfstfl. að sofa vel á málinu og hugsa aðeins hvað þeir eru að gera með því að greiða atkvæði með þessu frv. og gera það að lögum. Þetta er enginn leikur. Þetta á ekki að vera eitthvert leynimakk. Við erum að tala um grundvallaratriði sem snertir fjölmiðla í landinu. Við erum að tala um ákvæði eins og eignarrétt, tjáningarfrelsi, atvinnufrelsi o.s.frv. Hv. þingmenn, lokaorð mín verða: Sofið á þessu og greiðið atkvæði eftir sannfæringu ykkar og þá er tryggt að þessi óskapnaður sem fjölmiðlafrv. er verður ekki að lögum.